Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:54:00 (2159)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að við fáum lögfræðilega úr þessu máli skorið. Það er rétt sem hv. þm. Bjarni Benediktsson rakti hér, málið er í grunninn í höndum skilanefndanna. Hitt er alveg ljóst, og það hefur komið fram við meðferð málsins bæði í utanríkismálanefnd og viðskiptanefnd, að það kann að koma til þess að skilanefndirnar telji sig ekki hafa til þess fjárhagslega burði eða stöðu að leggja í málin. Þá reynir auðvitað á þingmenn og vilja þingsins. Í því ljósi held ég að verði þá að túlka þau ótvíræðu orð sem hér hafa verið látin falla af hálfu stjórnarandstöðunnar um að hún muni þá styðja veruleg fjárframlög til að hægt sé að halda frammi þessum kröfum ef það er það sem málið strandar á. Það kann vel að fara svo, að skilanefndunum sé einfaldlega í starfi sínu það þröngur stakkur skorinn að þær ráði ekki við að halda frammi svona kröfum í ljósi þess tillits sem þær eiga að hafa til hagsmuna allra kröfuhafa og fara vel með þá hagsmuni sem þær reka.

Að öðru leyti vil ég bara segja, vegna þess sem hér var sagt og kom fram að vera kynni að við ættum sterkan málstað og fara ætti vel, að ég vara alltaf við því áður en lagt er af stað í málsóknir að menn séu í huganum búnir að vinna þær fyrir fram. Þvert á móti skulum við búa okkur undir að erfitt geti orðið að ná þessari niðurstöðu en ég held að það sé óhjákvæmilegt að við látum á það reyna. Ég held að óvissan um þetta mál sé mjög af hinu vonda og það skipti okkur miklu máli að setja fram okkar kröfur og reyna að fá úr þeim leyst og þessi fyrirtæki neyti úrræða breskra laga til að reyna að fá úrskurð hjá breskum dómstólum um málin eins og kostur er.