Hugsanleg lögsókn gegn Bretum -- ummæli þingmanns

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 10:58:25 (2161)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er alveg sammála þeim orðum sem hér hafa fallið úr munnum hv. þingmanna um að það er algjörlega nauðsynlegt að það sé látið reyna á rétt okkar. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi í ræðu sinni áðan þá er málskostnaður smámál hjá því sem hugsanlega kann að vera í húfi. Ég tel að það að beita hryðjuverkalögunum hafi verið ólögmæt aðgerð sem átti sér engar efnislegar forsendur. Sömuleiðis tel ég að það að ráðast inn í Singer & Friedlander banka Kaupþings hafi kostað ómælt tjón í því fyrirtæki. Það er alveg ljóst, finnst mér, að það eru skilanefndir bankanna sem eiga að reisa þetta mál og verða að gera það. Kostnaðurinn á ekki að skipta máli þar og það mun ekki skorta atbeina ríkisins í því efni. Það hefur komið fram áður, (Gripið fram í: Nú?) síðast í þessari viku voru fimm ráðherrar í sambandi út af þessu máli. Það skiptir hins vegar líka máli að hv. þingmenn gæti sín og allir þeir sem að málinu koma þannig að þeir rýri ekki málsstöðu Íslendinga. (Gripið fram í: Segir hver?) Ég vísa sérstaklega til þess að hér liggur fyrir þingskjal sem er undirritað af Siv Friðleifsdóttur sem kom fram í síðustu viku, sem er með þeim hætti að orðbragð og orðalag og þær ásakanir gefa til kynna að a.m.k. einn stjórnmálaflokkur telji að bresk stjórnvöld hafi haft einhvers konar tilefni til að grípa til þessara ráðstafana. Þar var vísað til ummæla tiltekinna ráðherra og það var ekki hægt að skilja annað en að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefði með þessu þingskjali í reynd tekið undir með breskum stjórnvöldum um að tilefni hefði verið til þess. Enginn annar Íslendingur hefur gert það nema seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, sem hefur sömuleiðis talað í þá veru. (Gripið fram í.) Þingmenn verða að gæta sín í umræðu af þessu tagi, alveg eins og ég vil segja hér að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs (Forseti hringir.) hafa gætt sín vel í þessari umræðu. Þeir vita hvað er í húfi. Þetta ættu hv. þingmenn Framsóknarflokksins að læra af (Forseti hringir.) af forustuflokki stjórnarandstöðunnar. (ÁI: Heyr, heyr.)