Tekjuskattur

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 11:08:37 (2164)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

tekjuskattur.

228. mál
[11:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt. Í frumvarpi þessu er að finna tillögur um ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt.

Í fyrsta lagi er lagt til að styrkir úr Endurhæfingarsjóði Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila teljist ekki til tekna. Þessi breyting er einn liður í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í febrúar sl.

Í öðru lagi er lögð til breyting á ákvæði laganna um söluhagnað af íbúðarhúsnæði í kjölfar athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að eingöngu væri hægt að endurfjárfesta í íbúðarhúsnæði á Íslandi til lækkunar á stofnverði hinnar nýju eignar þegar skattskyldur hagnaður hefur myndast við sölu. ESA telur þessa túlkun íslenskra skattyfirvalda ekki samrýmast ákvæðum EES-samningsins um frjálst flæði launþega, réttinn til búsetu og frjálst flæði fjármagns. Því er lögð til sú breyting að kveðið verði skýrt á um það að endurfjárfesting geti farið fram hér á landi, í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Í þriðja lagi er lagt til að kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003 veiti rétt til vaxtabóta líkt og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð enda um sambærileg búsetuform að ræða.

Í fjórða lagi er lagt til að skotið verði styrkari stoðum undir þá túlkun skattyfirvalda að tekjutengdar barnabætur verði ekki ákvarðaðar nema á grundvelli skattframtals við álagningu en ekki byggðar á áætluðum skattstofnum.

Í fimmta lagi er lagt til að lögfest verði heimild fyrir skattstjóra til að annast gerð skattframtala þegar fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að því af hálfu skattyfirvalda að auðvelda framteljendum með einföld framtöl árlega vinnu við framtalsskil. Þar hefur verið gert ráð fyrir að skattstjóra verði heimilt að útbúa skattframtal fyrir framteljendur þegar talið er að fullnægjandi upplýsingar séu fyrir hendi. Þetta á ekki hvað síst við í tilviki lífeyris- og bótaþega. Lagaheimild hefur ekki verið til staðar og því er umrædd tillaga komin fram.

Í frumvarpinu er einnig að finna þá tillögu að öllum fjármálastofnunum verði gert skylt að senda árlega upplýsingar um bankainnstæður, sjóðsinnstæður og vexti sem slíkir reikningar bera á sama tíma og aðrar nauðsynlegar upplýsingar vegna álagningar berast skattyfirvöldum. Fram til þessa hefur tilgreining bankainnstæðna og skulda á skattframtali alfarið verið háð vilja einstakra framteljenda til að gera grein fyrir þessum upplýsingum sem hefur takmarkað allt eftirlit skattyfirvalda með þessum skattstofni. Í núverandi lagaumhverfi er skattstjórum gert að byggja álagningu á þeim upplýsingum sem tilfærðar eru á framtali um innstæður og skuldir án samanburðar við ytri upplýsingar, svo sem á við um laun, fasteigna- og bifreiðaeign, skuldir við Íbúðalánasjóð o.fl. Það fyrirkomulag að ekki eru gefnar upp sundurliðaðar upplýsingar um afdreginn fjármagnstekjuskatt hefur gert allt eftirlit með skatti þessum og umfangi hans nánast óframkvæmanlegt. Verði tillaga að umræddu ákvæði lögfest mun það einnig stuðla að meira jafnræði milli aðila, sérstaklega þegar réttindi eða skyldur ákvarðast á grundvelli heildartekna, hvort heldur vegna ákvörðunar bóta á grundvelli tekjuskattslaga eða löggjafar um almannatryggingar. Fyrir liggur að meira en 35.000 einstaklingar hafa við álagningu 2008 fengið bóta- og lífeyrisgreiðslur án þess að gerð sé grein fyrir innstæðum á skattframtölum þeirra. Tilgreining bankaupplýsinga er því einnig mikilvæg aðhalds- og mótvægisaðgerð gegn undandrætti tekna.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.