Tollalög, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 11:13:03 (2165)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

tollalög, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

231. mál
[11:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á tollalögum, lögum um virðisaukaskatt og lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Í frumvarpinu er verið að bregðast við athugasemdum sem borist hafa frá Eftirlitsstofnun EFTA, umboðsmanni Alþingis og Ríkisendurskoðun. Þá er að finna í frumvarpinu fáeinar minni háttar breytingar á ákvæðum tollalaga.

Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði um afmörkun heimilda ferðamanna og farmanna til innflutnings á varningi, þar með talið áfengi og tóbaki, verði færð í lög. Hingað til hafa umræddar heimildir verið birtar í reglugerð. Eftir ábendingu umboðsmanns Alþingis er talið rétt að styrkja lagagrundvöll reglnanna.

Í öðru lagi er lagt til að heimild til tímabundins tollfrjáls innflutnings nýrra og óskráðra bifreiða sem keyptar eru hér á landi nái jafnframt til nýrra og óskráðra bifreiða sem fluttar eru inn frá öðru EES-ríki, aðildarríki stofnsamnings fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum að öðrum skilyrðum uppfylltum. Þá er lagt til að fyrirtækjum sem eru staðsett í sömu ríkjum verði heimilt að flytja tímabundið inn bifreiðar fyrir starfsfólk þeirra hér á landi, óháð búsetu þess, vegna sérstakra verkefna, að uppfylltum tilteknum skilyrðum um notkun þeirra hér á landi og erlendis á tilteknu tímabili.

Í þriðja lagi er lagt til að ferðamenn og farmenn skuli ótilkvaddir gera grein fyrir hærri fjárhæðum en sem nemur 10.000 evrum í stað 15.000 evra í núgildandi lögum. Þá er lagt til tekinn verði af allur vafi um að skyldan til að gera grein fyrir fjármunum taki jafnframt til handhafabréfa, þar með talið ferðatékka.

Í fjórða lagi er lagt til að kveðið verði á um það í lögum að farmenn geri skriflega grein fyrir öllum þeim varningi sem þeir hafa meðferðis til landsins. Slíkur háttur byggir á áratugalangri framkvæmd.

Til að takmarka fjármagnskostnað útflytjenda er í fimmta lagi lagt til að heimilt verði að fresta gjalddaga á greiðslufresti í tolli vegna virðisaukaskatts fram að uppgjöri almennra virðisaukaskattsskila þegar aðilinn sem um ræðir er að jafnaði með hærri innskatt en útskatt.

Herra forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.