Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 11:27:57 (2169)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég ýmsa fyrirvara við það, sem m.a. vörðuðu það að með 1. mgr. 1. gr. er sett upp meginregla en síðan er löggjafarvald framselt í afar ríkum mæli í áframhaldi greinarinnar. Ég talaði þar um opinn tékka til að ráðherra gæti í raun holað að innan þann megintilgang og þau meginsjónarmið sem koma fram í 1. mgr. Ég taldi þetta afar óheppilegt löggjafarstarf og tel enn, þ.e. framsal löggjafarvalds til framkvæmdarvalds. Það er afar óheppilegt og ætti ekki að eiga sér stað. Jafnvel þótt þessar heimildir hafi verið til sölu áður þá er löngu kominn tími til að festa í lög þau ákvæði sem eiga að gilda, skýlaus ákvæði en ekki að framselja með þessum opna hætti til framkvæmdarvaldsins ákvörðunartöku sem er á valdsviði Alþingis. Þetta er grundvallarsjónarmið og á sérstaklega við, því hér er gengið mjög langt í framsali löggjafarvalds. Þetta gagnrýndi ég og geri enn.

Ég kallaði líka eftir því að reglugerðirnar eða þau drög að reglugerðum, sem vörðuðu útfærslu á undanþáguheimildum ráðherra, lægju fyrir við meðferð í nefnd líkt og Norðmenn gera í lagasetningu sinni og undirbúningi undir lagafrumvörp svo löggjafarvaldið sjái yfir sviðið og viti að hverju er gengið í hvert skipti.

Ég gerði líka fyrirvara um að ég mundi leggja til breytingar á frumvarpinu. Svo hagaði til að eftir 1. umr. var málið tekið fyrir í nefnd og á fund hennar komu fulltrúar sjávarútvegsráðuneytisins. Síðan var boðaður fundur með hagsmunaaðilum sem ég hefði viljað vera á en var útilokaður frá vegna þess að fundur sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar féll saman við fund allsherjarnefndar, þar sem til umræðu voru mál sem þingið telur brýn og herra forseti hefur lagt áherslu á að nái fram að ganga, þ.e. frumvarp um sérstakan saksóknara, sem er orðið að lögum, og ekki síður frumvarp, sem lýtur að rannsóknarnefndinni og bæði hæstv. ráðherra og þingið hafa lagt áherslu á að fái hraða en vandaða meðferð. Ég sinnti þeirri skyldu í allsherjarnefnd og átti því ekki kost á að sækja fund sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þegar hagsmunaaðilar komu fyrir nefndina. Það vakti nokkra undrun mína — þessir fundir voru á þriðjudegi — að eftir hádegi á miðvikudag var boðaður fundur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þar sem hefði verið leikur einn að taka þetta mál fyrir en þá var fundarfall í nefndinni. Það varð til þess að í 2. umr. áréttaði ég fyrirvara mína og áskildi mér rétt til að koma fram með breytingartillögur og orðaði í ræðu minni við 2. umr. röksemdir fyrir því, m.a. þá staðreynd að þetta frumvarp er samið fyrir hrunið. Ekki var tekið tillit til þess.

Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar á milli 2. umr. og þessarar lagði ég síðan fram bókun til að þau sjónarmið sem ég hafði reifað um atvinnuástand í landinu, stigvaxandi atvinnuleysi og fyrirsjáanlegan landflótta yrðu skoðuð í samhengi við frumvarpið. Bókunin var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Í ljósi þess neyðarástands sem skapast hefur í atvinnumálum þjóðarinnar með ört vaxandi atvinnuleysi og fyrirsjáanlegum landflótta geri ég kröfu til þess að hagsmunaaðilar komi fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og gefi umsögn um fram komnar breytingartillögur á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Þessari bókun var hafnað en hún átti bæði við um tillögu sem ég lagði fram á fundinum og eins tillögu sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson lagði fram — og ég vil taka fram að þá tillögu get ég stutt. Þessu var hafnað með rökum sem ég met ófullnægjandi. Sett voru fram rök sem voru að mínu mati sértækir hagsmunir þeirra sem flytja út fisk, sérstakir en órökstuddir hagsmunir sjómanna en ég vildi meta málið heildstætt og út frá samfélagslegum heildarhagsmunum, vega og meta hvort meiri hagsmunir ættu ekki að víkja út þeim minni. Ég er sannfærður um að miklu meiri hagsmunir eru af því að halda uppi eins mikilli atvinnu í landinu og kostur er. Ég veit að hæstv. sjávarútvegsráðherra er sammála mér um það og að við komum í veg fyrir þann fyrirsjáanlega landflótta sem við blasir og er gersamlega óþolandi. Atvinnuleysið er það alversta af öllu vondu við þetta efnahagshrun. Allt er betra en atvinnuleysið. Ég hef sagt það áður og ítreka að betra er að búa við óstöðugt gengi og verðbólgu, allt er betra en atvinnuleysið með þeim hörmulegu afleiðingum sem það hefur í för með sér á fjölskyldur og einstaklinga. Ekki bara á fjárhag þeirra heldur hinar andlegu afleiðingar sem geta líka komið fram í líkamlegum sjúkdómum og sinnuleysi, viljaleysi til verka, depurð og þunglyndi.

Ég taldi því mikilvægt að fjallað yrði um frumvarpið út frá þessum staðreyndum og þeim atvinnuleysistölum sem nú blasa við. Við erum að tala um 4% atvinnuleysi og ef reynslan í Finnlandi 1993 er metin — en Finnar stóðu frammi fyrir sambærilegum erfiðleikum í kjölfar hruns Sovétríkjanna og atvinnuleysi þar fór upp í, að ég hygg, 20% að meðaltali, misjafnt eftir landsvæðum og ástandið í sumum sveitarfélögum í jaðarbyggðum var mun verra. Ég ítreka að samning þessa frumvarps tók ekki tillit til hvernig ástandið í íslenskum efnahags- og atvinnulífsmálum er. Ég segi það líka, það vita allir og því er spáð að atvinnuleysi muni fara upp í 10%. Ég óttast að það verði meira en vona að svo verði ekki. Þess vegna er afar brýnt að leita allra leiða til að ýta undir atvinnusköpun og styðja fólkið, heimilin og atvinnurekstur í landinu. Það er frumskylda okkar og langbrýnasta verkefnið. Þess vegna verður að leita allra leiða til að tryggja innlenda fiskvinnslu á þessum tímum í stað þess að flytja fisk út frá atvinnulitlu Íslandi. Ég hef því lagt til bráðabirgðaákvæði við lögin tímabundið sem hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta:

Á tímabilinu 1. mars 2009 til 31. desember 2009 er óheimilt að flytja út óunninn afla til löndunar og sölu á fiskmarkaði erlendis nema brýna nauðsyn beri til. Ráðherra setur nánari reglur um undanþágu frá þessu ákvæði.

Hér eru sem sagt brýnir samfélagslegir hagsmunir í húfi. Ekki má skoða þá út frá þröngum hagsmunum. Ég held líka að þeir skynsömu fiskútflytjendur og hagsmunaaðilar sem hlut eiga að málum skilji fullkomlega og séu tilbúnir að láta þrengri hagsmuni sína víkja fyrir þjóðarheill og almannahagsmunum. Ég er þess fullviss, ef ég þekki fiskútflytjendur rétt, að þeir munu fallast á þessi rök. Aðlögunartími er veittur og þetta brestur ekki á frá 1. janúar heldur er tveggja mánaða aðlögunartími þannig að bráðabirgðaákvæðið tekur gildi 1. mars og (Gripið fram í.) — 1. mars er bráðabirgðaákvæðið ætlað — þetta álit stangast ekki á við tillögur minni hlutans. Þetta er stærsta tækifærið sem við höfum nú til að draga úr atvinnuleysi og landflótta, stærsta einstaka tækifærið. Ég fullyrði að um sé að ræða 56 þúsund tonn og reyndar miða ég þá við tölur frá fyrra ári. Þróunin virðist ekki hafa verið sú að dregið hafi úr 56 þúsund tonnum. Einhver nefndi að þetta væri á við 10 frystihús. Hér eru gríðarleg atvinnutækifæri fyrir dreifðari byggðir landsins í því að finna nýjar matarholur á mörkuðum erlendis með því að vinna fiskinn sem mest og skapa sem mesta atvinnu. Ég vil nefna sérstaklega, og gerði það í fyrri ræðu minni í 2. umr., að fiskverkanir án kvóta hafa þurft að kaupa til sín fisk á svo dýru verði að þær hafa orðið að vinna hann í hágæðaafurðir eða finna markaði sem borga hátt verð og hafa verið frumkvöðlar á þessu sviði fiskvinnslu. Í kjölfar frumkvöðlastarfsemi þeirra og nýsköpunar hafa stóru fyrirtækin, stóru kvótaeigendurnir og stóru framleiðendurnir siglt og farið inn í þessar matarholur, sem eru margar fleiri til sem við getum nýtt okkur. Ef þúsund störf fást beint við vinnslu 56 þúsund tonna, fylgja hverju þeirra þrjú eða fjögur afleidd störf þannig að um er að ræða gríðarlega hagsmuni fyrir þjóðina. Ég horfi fyrst og síðast til stöðunnar í dag. Ef málið hefði verið lagt fyrir í desember á síðasta ári, hefði ég getað tekið undir frumvarpið og þann góða tilgang sem býr að baki því. En nú er öldin önnur, svo sannarlega.

Ég hefði að vísu fyrir ári síðan ekki fallist á jafnrúmt löggjafarframsal og hef gagnrýnt það að sama skapi. En öldin er önnur og við verðum að hugsa þetta algerlega á nýjan leik og mér er fullkomin alvara. Þetta er stærsta tækifærið sem við höfum og við getum ekki látið það fara frá okkur. Á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar spurði ég fulltrúa sjávarútvegsráðuneytisins í ljósi tilgangs frumvarpsins, þ.e. að efla fiskvinnslu innan lands, hvað frumvarpið hefði í för með sér fyrir aukningu á að afli sé unninn innan lands, þ.e. að þeim tonnum fækki sem flutt eru út óunnin. Fulltrúi sjávarútvegsráðuneytisins gat ekki gefið mér neina leiðsögn um það. Ergó: Við stöndum líklega frammi fyrir því að tonnin sem flutt verða út munu verða jafnmörg og heldur hefur útflutningur aukist vegna þess að kvóti á ýsu hefur verið aukinn stórfellt og þar er mikið veitt af smáýsu. Í mínum huga væri grátlegt að missa þetta tækifæri sem blasir við í atvinnusköpun frá okkur og ég er alveg viss um að það hæfileikaríka unga fólk sem er að missa vinnu sína mun finna ný tækifæri. Það mun finna nýja og dýrmæta markaði fyrir hágæða háverðsvöru. Margt af þessu fólki sem er að verða atvinnulaust hefur verulega þekkingu á markaðssetningu og hefur starfað erlendis og kann að selja.

Frú forseti. Sú leiða staðreynd blasir við að megnið af þessum útflutningi á óunnum afla fer til Bretlands, þjóðar sem beitir okkur í dag hryðjuverkalögum. Við tökum sem sagt atvinnu héðan og flytjum út til Bretlands. Það að taka upp svona bráðabirgðaákvæði mundi styrkja okkur verulega í samningsstöðu við Breta. En við hins vegar kyssum vöndinn, við kyssum stöðugt vöndinn, eins og kom fram í umræðu á hv. Alþingi í morgun. Það er óþolandi. Við eigum að tryggja öll þau störf sem við getum á Íslandi og hámarka gjaldeyristekjur og við megum ekki bara horfa á tölur, þó svo að 600 kr. fáist fyrir kílóið í Bretlandi en 460 kr. á Íslandi. Af 600 kr. í Bretlandi dragast 100 kr. á kg frá vegna flutningskostnaðar, umsýslukostnaðar og umboðslauna og annars sem því fylgir og þá er 40–100 kr. munur á tonninu. Við þessar 450–460 kr. í innanlandssölu bætist við gríðarleg verðmætasköpun og virðisauki innan lands sem menn verða að taka með í reikninginn. Ekki er annað hægt. Ég verð að segja að slík fullvinnslumál hafa margsinnis komið til kasta Alþingis þegar atvinnumál á Íslandi standa illa. Einn af helstu talsmönnum þessa var alþingismaðurinn Guðmundur J. Guðmundsson, sem nú er látinn, sem benti margsinnis á þetta á erfiðum atvinnuástandstímum 1968 og aftur upp úr 1990. Ég held að ég tileinki þessum látna vini mínum og hv. fyrrverandi alþingismanni, Guðmundi J. Guðmundssyni, tillöguna. Hún er sett fram af skynsemi. Af hverju skyldi Guðmundi J. Guðmundssyni hafa verið svo annt um slíka tillögu? Jú, vegna þess að hann upplifði afleiðingar atvinnuleysis. Hann mundi þá tíma þegar faðir hans fór niður á Eyri að snapa hafnarvinnu, þegar hópur atvinnulauss og félauss verkafólks gekk um höfnina í humátt á eftir verkstjóra og leitaði ásjár um vinnu. Hann mundi þá tíma líka þegar faðir hans kom heim laust undir hádegi dapur og boginn í baki og þungbrýnn yfir því að einn daginn enn hafði honum verið hafnað.

Sem betur fer þekkir núlifandi kynslóð lítið til atvinnuleysis nema þá af sögubókum. En við sem eldri erum munum hvað gerðist 1968. Við munum það fullkomlega. Þá varð fjöldalandflótti til Svíþjóðar og fáir komu aftur heim. Við verðum að átta okkur á því að gerbreytt staða í efnahagsmálum kallar á ný viðhorf og viðbrögð. Við verðum að víkja frá hefðbundinni hugsun og taka upp öll þau ráð sem við framast getum fundið í atvinnuleysinu. Það nægir mér ekki, frú forseti, að bíða og sjá hver reynslan verður af frumvarpinu og bregðast svo við í apríl eða maí, það nægir mér alls ekki. Ástandið í atvinnumálum kallar á viðbrögð þegar í stað og ég satt best að segja varð fyrir vonbrigðum með afstöðu einstakra nefndarmanna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, að þeir skuli ekki sjá ljósið í þessum efnum. (Gripið fram í.)