Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 11:47:05 (2170)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[11:47]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því sem hv. þm. Atli Gíslason sagði, við eigum að leita allra leiða til að ýta undir atvinnusköpun. Þess vegna er þetta frumvarp flutt. Við skulum ekki gleyma því að það fyrirkomulag sem hér var við lýði var fyrirkomulag sem Samkeppniseftirlitið í fyrsta lagi sagði að stæðist ekki, í öðru lagi liggur líka fyrir að það fyrirkomulag, þ.e. útflutningsálagið, gerði það ekki að verkum að það skapaði það framboð á fiski fyrir íslenska fiskverkendur sem við vildum. Það er alveg ljóst mál að afnám útflutningsálagsins hefur haft sáralítil áhrif á það magn sem hefur verið flutt úr landi. Það er að vísu hægt að taka dæmi um ýsuna, að þar hafi það aukist, en á því eru ýmsar skýringar, m.a. sú að útgerðir sem áður höfðu stundað frystitogaraútgerð hurfu frá því og fóru að gera út á ísfisk og flytja þar með aflann að einhverju leyti út.

Hérna er ekki opnað á rúmar heimildir, eins og hv. þingmaður sagði. Með þessu frumvarpi er verið að loka á þessar heimildir, heimildirnar sem menn fá til að flytja út aflann óunninn og ísaðan eru þrengdar. Það sem verið er að gera er einfaldlega það að menn sem ætla að flytja afla út í gámum eða sigla með afla beint á erlenda markaði eru skyldaðir til að tilkynna það í fyrsta lagi til Fiskistofu með eins sólarhrings fyrirvara og í öðru lagi verður það tryggt að þessar upplýsingar birtast á opnum uppboðsvef uppboðsmarkaða fyrir sjávarafla þar sem hann skuli síðan boðinn upp. Þar með er búið að opna á aðgengi fiskvinnslunnar að þessum fiski sem aldrei hefur verið áður. Hér er brotið í blað, hér er komið til móts við sjónarmið sem ég deili með hv. þm. Atla Gíslasyni, að við þurfum að reyna að auka aðgengi fiskvinnslunnar að íslenskum fiski og auka þannig atvinnusköpun í landinu.

Þess vegna erum við ekki að rýmka til um löggjöfina eins og hv. þingmaður talaði um, við erum ekki að framselja (Forseti hringir.) neitt vald, öðru nær, það er verið að þrengja það vald sem löggjafinn í dag veitir.