Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 11:55:14 (2175)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[11:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins bregðast við því sem hv. þm. Atli Gíslason nefndi um bókun þá sem hann lagði fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem sneri að því að fá inn hagsmunaaðila úr sjávarútveginum inn í nefndina til að meta þá tillögu sem hann leggur hér fram um algjört bann við því að flytja út óunninn afla til sölu á fiskmarkaði erlendis. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að þetta er í sjálfu sér sjálfstætt athugunarefni og mundi taka mjög langan tíma. En vegna þess að málið var að koma til 3. umr. og meiri hluti nefndarinnar taldi mjög mikilsvert að málið næði fram að ganga fyrir áramót til að það gæti farið að reyna á það sem við höfum rætt hér, að það verði hægt að auka aðgengi íslenskrar fiskvinnslu að þeim sjávarafla sem annars væri seldur á erlendum fiskmörkuðum. Það er auðvitað tilgangur frumvarpsins í sjálfu sér. Það hvort algjörlega verði breytt um, jafnvel hugað að því að setja reglur sem við gætum átt von á að séu brot á EES-samningnum eins og ég held að flestir séu sammála um, slíkt athugunarefni í nefndinni hefði að sjálfsögðu tekið mun lengri tíma en svo að við hefðum getað lokið því fyrir áramót. Ég held einfaldlega að þeir hagsmunir sem hér liggja að baki, að þetta kerfi geti farið að virka, séu það miklir (Forseti hringir.) að það sé mjög nauðsynlegt að ljúka því fyrir áramót eins og ég vona að raunin sé hér í dag.