Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 11:57:28 (2176)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var auðvitað mjög eðlilegt að slík tillaga, eins og fram kemur í bráðabirgðaákvæðinu og ég lagði fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, yrði rædd í hópi hagsmunaaðila, hvort það væri samfélagsleg skynsemi í þessari tillögu sem væri hafin yfir þrengri sérhagsmuni, að við yrðum að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Ég orðaði það þannig í ræðu minni að ég teldi að fiskútflytjendur mundu allir skilja þessi sjónarmið, enda skynsamir karlar og konur.

Á móti þessari brýnu tillögu færðu talsmenn nefndarinnar, eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns, formlegar ástæður gegn efnislega skynsamlegri og þjóðhagslega mjög brýnni tillögu. Ég get fullyrt það hér að ég hefði í ljósi þessarar tillögu getað varið kvöldum, nóttum og helginni sem fer í hönd til að setja þessa tillögu á koppinn í þeim búningi sem þjóðin og þjóðarhagsmunir þurfa við. Formsástæður, að þetta taki langan tíma og fleira, eru ekki gildar fyrir mér um svo efnislega og brýna tillögu.

Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir segir að hagsmunir séu miklir. Þeir eru dauðir í samanburði við samfélagslega og þjóðhagslega hagsmuni. Þeir blikna í samanburði við það að við getum skapað svo gríðarlega atvinnu á grundvelli þessara 56.000 tonna sem flutt voru út á síðasta ári.