Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 13:43:29 (2181)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Þegar við fjölluðum um þetta frumvarp í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd var ekki annað að heyra á öllum fundarmönnum en að þeir vildu leggja sig fram við að gera lögin þannig að þau stuðluðu að auknum afla til vinnslu innan lands, þ.e. að þessi 56.000 tonn sem við fluttum út á síðasta ári og eitthvað sambærilegt á þessu fiskveiðiári mundu fara í auknum mæli og helst öll inn í íslenskar fiskvinnslur.

Okkur greindi hins vegar á um nokkur atriði. Sérstaklega benti ég á þessar undanþágur sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur. Ég benti líka á að það væri nauðsynlegt til þess að geta brugðist við ef þetta gengi ekki eftir, eins og ég held að raunin verði, að lögin tækju ekki gildi 1. mars heldur lagði ég til að það yrði 1. janúar þannig að strax um miðjan febrúar sæjum við hvernig framvindan hefði verið í þessum málum í janúarmánuði. Á það féllst meiri hluti nefndarinnar ekki.

Reglugerðirnar sem eiga að fylgja þessu frumvarpi eru óljósar. Það er óljóst hvernig staðið verður að þessu, bæði varðandi uppboð á heimildum og hvernig gengið verður frá því. Það er auðvitað óþægilegt að samþykkja frumvarp þegar ekki liggur fyrir hvernig reglugerðirnar verða sem því fylgja.

Það er búið að prófa þetta uppboðskerfi, það var gert fyrir a.m.k. einum og hálfum mánuði síðan. Það gekk bara vel fyrir sig enda er þetta ekkert öðruvísi uppboðskerfi en fiskmarkaðirnir hafa verið að nota frá því að þeir voru stofnaðir fyrir fisk sem er boðinn upp í fjarskiptum. Þetta er ekkert öðruvísi kerfi en við höfum notað a.m.k. frá því að Fiskmarkaður Suðurnesja var stofnaður 1985 eða 1986. Þar var ekki góður markaður til að byrja með heldur bara selt eftir meldingum úr skipunum, sérstaklega dagróðrabátum. Þetta er til og það þarf ekkert regluverk eða tilraunir til að prófa eitthvað sem hefur verið notað í 20 ár.

Síðan er það stóra málið. Það er þetta lágmarksverð sem útgerðarmaðurinn hefur leyfi til að setja á aflann. Ekki nóg með það, ég verð að viðurkenna að það fór fram hjá mér, en útgerðarmaðurinn þarf ekki einu sinni að taka lágmarksverði. Hann getur sagt: Nei, ég ætla ekki að taka lágmarksverðinu, ég ætla frekar að taka séns á því að fá meira fyrir aflann erlendis. Ég sé ekki að neitt komi inn í þessi lög sem ýti á að menn vinni aflann hér innan lands. Það er að mínu mati stóri gallinn við þetta frumvarp.

Þegar við setjum lágmarksverð á íslenska fiskkaupendur en ekki erlenda erum við auðvitað að mismuna bæði íslenskum kaupendum og erlendum. Þetta er ekki eina atriðið í íslenskum fiskveiðistjórnarlögum sem felur í sér mismunun. Við byrjuðum á því að ákveða hverjir máttu veiða og hverjir ekki. Sumir fengu veiðiheimildir ókeypis í upphafi og gátu veðsett þær, leigt og selt. Þeir hafa síðan í fleiri ár fjárfest í viðbótarkvótum út á gjafakvótann sem þeir fengu í upphafi, sérstaklega eftir 1991 þegar frjálsa framsalið var sett á.

Við horfum upp á það að mannréttindi eru brotin á ákveðnum aðilum innan sjávarútvegsins og það er, eins og ég hef oft minnst á áður hér í ræðustól Alþingis, náttúrlega þessari ríkisstjórn til skammar og þeim stjórnmálamönnum sem styðja þessa hana. Núna í heilt ár hefur ekkert verið gert til að leiðrétta þau mannréttindabrot sem framin eru innan þeirrar fiskveiðistjórnar sem við búum við í dag.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að bætt verði við veiðiheimildir í flestum tegundum. Við teljum að það sé mjög þarft í þeirri stöðu sem við erum í. Eftir því sem mér skilst var viðtal í hádegisfréttunum við forstjóra Hafrannsóknastofnunar þar sem kom fram að allt í einu er farið að sjást til sólar á þeim bæ varðandi þorskkvóta og annað, þannig að við fáum sjálfsagt í jólagjöf eða nýársgjöf einhverja viðbót á veiðiheimildum.

Ég vara við því að væntanleg viðbót á kvóta verði færð þeim sem hafa fengið kvóta ókeypis hingað til. Ég tel nauðsynlegt að hann verði boðinn upp á frjálsum markaði og þeir sem eru tilbúnir að borga hæst til ríkissjóðs, en ekki til einstakra útgerðarmanna, geti komist í að veiða hann. Ríkissjóði veitir ekkert af peningum fyrir þessa auðlind, sem og aðrar, og við eigum hiklaust að láta bjóða allar viðbótaraflaheimildir núna strax. Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram frumvarp, sem við höfum ekki enn þá fengið að ræða, um innkall á öllum veiðiheimildum. Það er það besta sem gert verður í þessari stöðu, sérstaklega með tilliti til þess að ríkið á í rauninni allan kvótann á Íslandi í dag. Hann er kominn inn í þrjá stærstu bankana svo og allar skuldir sem á kvótanum hvíla. Sjávarútvegurinn er yfirveðsettur og væntanlega þarf að gera veðköll hjá flestum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Staða þeirra er með þeim hætti að það verður að stokka þetta allt saman upp.

Væntanlega fáum við að ræða frumvarp okkar í Frjálslynda flokknum um innkall á öllum veiðiheimildum núna fyrir áramót. Við erum með hugmyndir um að stofna auðlindasjóð og láta tekjurnar sem við fáum fyrir að bjóða fiskinn upp renna þar inn og nýta hann fyrir þjóðfélagið í heild sinni.

Það er sorglegt hvað okkur hefur gengið illa í sjávarútvegi í gegnum tíðina og það er sorglegt að þessi einkavinavæðing skuli hafi átt sér þar stað. Ég trúi þó ekki öðru en fólk sjái að sér varðandi þessi mál í íslenskum sjávarútvegi núna og geri breytingar sem tryggja að ekki séu brotin mannréttindi og fólki ekki mismunað á neinn hátt eins og er viðvarandi í þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Sumir fá að leigja veiðiheimildir, selja og veðsetja og hafa af því verulegar tekjur á meðan aðrir mega éta það sem úti frýs og fá ekkert fyrir sinn snúð. Ef þeir ætla að halda áfram að vinna í sjávarútvegi, sem margir hverjir eru menntaðir til að gera, bæði skipstjórar og vélstjórar, hafa þeir enga aðra kosti en að vera leiguliðar hjá einhverjum sægreifum sem hafa verið búnir til, venjulega út á pólitísk skírteini fyrr á árum.

Fiskvinnsla án útgerðar þarf að komast í meira hráefni. Gullið í íslenskum sjávarútvegi í dag eru þau fyrirtæki sem eru í fiskvinnslu án útgerðar. Þau borga alltaf hæsta verð fyrir allan fisk sem þau kaupa inn og selja nánast undantekningarlaust á hæsta verði út úr landinu og skapa þar af leiðandi mestu gjaldeyristekjurnar fyrir hverja einingu sem þau flytja úr landi. Þetta er hlutur sem mér finnst allt of lítið gert með. Þau hafa þraukað í þessi ár, verið í samkeppni við útgerðir sem eiga mikinn kvóta og hafa fengið mikið af kvóta gefins. Þau sitja og bjóða í fisk við hliðina á þeim í hryllilegri samkeppnisstöðu. Það er raunverulega fáránlegt að Samkeppniseftirlitið skuli á liðnum árum ekki hafa tekið á málum sem snúa að heilbrigðu markaðskerfi í íslenskum sjávarútvegi.

Áðan kom ég inn á að það er mikil mismunun í þessari atvinnugrein og sennilega hvergi meiri. Kvótakerfið fær mesta ríkisstyrk sem einn atvinnuvegur hefur fengið í gegnum tíðina. Sjálfsagt þekkist annar eins ríkisstyrkur ekki á nokkru byggðu bóli í veröldinni. Stundum hafa Íslendingar ráðist á bændastéttina og við höfum kvartað yfir því hvað bændur fá í niðurgreiðslur og beingreiðslur en það er bara hlægilegt miðað við hvað hefur verið gert fyrir íslenska útgerðarmenn. Nota bene, það verður að taka fram að einungis ákveðinn hópur íslenskra útgerðarmanna hefur fengið þetta, náð að sanka þessu að sér, oft og tíðum í gegnum pólitíska spillingu. Flokksskírteini hafa dugað, sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, til að tryggja mönnum aðgang að veiðiheimildum.

Þegar rætt er um alþjóðalög eins og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið er aldrei talað um það að þegar íslenskur útgerðarmaður flytur fiskinn sinn út setur hann lágmarksverð gagnvart íslenskum fiskkaupendum en ekki erlendum kaupendum á mörkuðum erlendis. Þar er ein mismununin í viðbót. Sumir hv. þingmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafa kannski misskilið þetta dálítið, þeir þekkja ekki til þessara mála eins og þeir sem eru fæddir og uppaldir í þessari atvinnugrein og hafa jafnvel aldrei stundað neina vinnu annars staðar en í þessum geira. Þeir hafa kannski ekki alveg sama skilning á sem um er rætt, hvernig raunveruleikinn er og hvernig þetta mun fúnkera í rauninni. Ég óttast að engin breyting verði á því hvaða magn verður unnið til viðbótar á Íslandi með þessu frumvarpi sem við ræðum hér.

Staðan á fiskmörkuðum í dag er þannig að lítill hluti af þeim afla sem við veiðum á Íslandsmiðum fer inn á fiskmarkaðinn á Íslandi. Ég hefði viljað sjá að allur fiskur sem veiddist á Íslandsmiðum færi inn á fiskmarkaðinn. Ég vildi líka sjá að við aðskildum veiðar og vinnslu og að allar útgerðir lönduðu sínum fiski inn á fiskmarkaði. Þar fá þeir rétt verð og það skiptir örugglega miklu máli, bæði fyrir útgerðarmenn og sjómenn. Það hjálpar líka fiskvinnslu, sérstaklega fiskvinnslu án útgerðar, að hafa aðgang að hráefni og útsvarstekjur sveitarfélaga verða þar af leiðandi hærri en ella, a.m.k. af sjómönnunum. Hafnagjöld verða hærri og tekjuskattur ríkisins sömuleiðis. Við skiptum þessari köku sem við höfum í íslenskum sjávarútvegi alltaf rangt.

Enn og aftur bendi ég á að þetta frumvarp sem við ræðum núna mun þýða að útgerðarmaðurinn ræður eftir sem áður. Jafnvel þótt hann setji lágmarksverð er hann ekki skyldugur til að taka því, fái hann tilboð sem er jafnhátt lágmarksverðinu eða hærra. Það segir að mínu mati ýmislegt um þekkingarleysi félaga minna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að þeir átti sig ekki á þessu.