Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 13:57:13 (2182)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[13:57]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar þar sem sérstaklega er verið að fjalla um svokallaðan gámaútflutning, þ.e. útflutning á fiski af Íslandsmiðum sem fari á markaði erlendis án þess íslenskum fiskmörkuðum sé í raun gert kleift að bjóða í fiskinn til vinnslu. (GMJ: Fiskvinnslu?) Já, til fiskvinnslu. Þó að heimildir ráðherra til að grípa inn í þann útflutning séu vissulega auknar nokkuð í frumvarpinu vantar mikið á að það sé gert með þeim hætti sem nauðsynlegt er og ekki síst við þær aðstæður sem eru í dag. Það er hollt að lesa upphafsgrein frumvarpsins þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn.“

Þetta er góð setning. Að sjálfsögðu, þetta er afli sem fæst af íslenskri auðlind, auðlind sem þjóðin á. Fiskveiðiauðlindin er ekki í eigu einstakra útgerðaraðila, hún er í eigu þjóðarinnar og okkur ber að umgangast hana og nýta hana bæði til skemmri og lengri tíma þannig að hún verði íslenskum sjómönnum, íslensku fiskvinnslufólki og íslensku samfélagi örugg og góð tekjulind og atvinnuskapandi. Því skýtur skökku við þegar í næstu málsgrein kemur, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum eða hann fluttur úr landi án þess að hafa verið endanlega veginn, enda sé fiskurinn seldur á opinberum fiskmarkaði sem hlotið hefur leyfi Fiskistofu.“

Hér kemur setning sem gengur þvert á 1. málsgrein. Ráðherra er í rauninni falið laga- og reglugerðarvald sem snýr gersamlega á haus markmiðum greinarinnar, markmiðum þessara breytinga sem er að tryggja að afla af Íslandsmiðum sé landað í innlendri höfn. Í næstu grein er ráðherra heimilt að víkja frá þessu einhliða.

Þessu hefur hv. þm. Atli Gíslason, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd, einmitt gert ítarlega grein fyrir hér í umfjöllun sinni um málið. Hann hefur bent á að þarna sé í rauninni verið að færa ráðherra heimild til að ráðskast með lög, eins og það hvernig fara skuli með afla af Íslandsmiðum, hvort honum skuli landað hér á landi eða erlendis. Þarna er í rauninni verið að fela ráðherranum vald sem Alþingi á að hafa. Og mér finnst það mjög alvarleg staða sem hér er verið að koma upp ef ráðherra fær í rauninni lagaheimild um það hvernig ráðstafa skuli fiski af Íslandsmiðum. Ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem er í dag þegar við stöndum frammi fyrir geigvænlegum efnahagshamförum og fyrirsjáanlegu fjöldaatvinnuleysi í landinu, að fara að samþykkja frumvarp sem gengur út á það að heimila ráðherra löndun á fiski af Íslandsmiðum í erlendum höfnum en ætti í rauninni að snúa að hinu, snúa að því hvernig hægt væri að tryggja með öllum tiltækum ráðum að fiskur af Íslandsmiðum komi í innlendar hafnir og sé unninn í íslenskum fiskvinnslum þannig að hann bæði skapi eins mikla atvinnu og nokkur kostur er úr þessari auðlind, auðlind sem við horfum núna hvað mest til. Við horfum til landbúnaðarins, við horfum til sjávarútvegsins, til þessara auðlinda í atvinnu- og verðmætasköpun þjóðarbúsins til næstu ára og hvernig þær eiga að borga okkur út úr þeim efnahagshamförum sem við nú stöndum frammi fyrir sem þessar auðlindir eiga enga sök á.

Um kvótaskerðinguna fyrir einu og hálfu ári var sagt að hún hefði í för með sér að 600–1.000 störf töpuðust plús ýmis afleidd störf. Menn horfðu mjög fast til þess. En á sama ári þegar verið var að skera niður aflakvótann, þorskkvótann, var heimilað að flytja út milli 50.000 og 60.000 tonn sem hefðu, ef þau hefðu komið til vinnslu innan lands, að langmestu leyti getað veitt því fólki atvinnu sem þá missti atvinnu sína vegna kvótaniðurskurðarins. Það þótti ekki sérstök ástæða til að stemma stigu við því þá.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ítrekað flutt tillögur á Alþingi um að beita beri aðgerðum sem tryggi fullvinnslu á fiski innan lands. Við höfum ítrekað flutt slíkar tillögur á síðustu árum. Viðbrögð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins, sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins, voru þau að fella niður kvótaálagið, eina álagið sem var þó eins konar skattlagning á þennan gámaútflutning á fiski sem ekki fékk að koma inn í íslenskar fiskvinnslur.

Nú þegar við horfum fram á fjöldaatvinnuleysi hér á landi væri þetta þá ekki alveg einboðið og þess vegna í krafti neyðarréttar ef einhver ber fyrir sig EES-reglur hér? Ætli bankarnir hafi verið yfirteknir af ríkinu í samræmi við EES-reglur? Nei, því hef ég ekki trú á. Ef EES-reglurnar væru að þvælast fyrir Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni, og Samfylkingin getur nú ekki hugsað sér að gera nokkuð sem gæti hugsanlega truflað Evrópudansinn þeirra, þá er til neyðarréttur. Viljum við ekki heldur takmarka eða reyna að stöðva þennan útflutning á gámafiski og skaffa kannski yfir þúsund manns atvinnu, þúsund manns sem annars þyrftu að fara á atvinnuleysisskrá, og halda auk þess í gegnum fiskvinnsluna góðum atvinnuvegi enn betur gangandi og auka verðmætasköpun hér á landi?

Það er nú svo sorglegt, herra forseti, að sá útflutningur sem hér er um að tefla, 50.000–60.000 tonn, fer að langmestu leyti til Bretlands. Til Bretlands sem setti hryðjuverkalög á íslenska þjóð vegna þess að Bretar töldu framferði okkar vera með þeim hætti að það réttlætti slíkt en samtímis voru þeir reiðubúnir að liðka fyrir útflutningi á gámafiski.

Ég hef undir höndum ágætan tölvupóst eða bréf, herra forseti, sem ég leyfi mér að vitna til. En eins og menn rekur kannski minni til var í umræðuþætti fyrir nokkru flutt viðtal við borgarstjórana í Cuxhaven, Hull og Grimsby og þeir upplýstu að allt að 2 milljónir manna hafi atvinnu með einum eða öðrum hætti af þeim fiski sem kemur af Íslandsmiðum. Þar var einnig viðtal við töframann í fjármálum sem m.a. rétti af tvö fyrirtæki sem stóðu í þessum fiskinnflutningi til Bretlands og voru að verða gjaldþrota vegna þess að útflutningur á gámafiski frá Íslandi stöðvaðist. Hann labbaði þá inn á teppið, að sögn, hjá seðlabankastjóra Bretlands og spurði hvort hann vildi opna strax fyrir flutning fjár til Íslands fyrir þann fisk sem verið var að flytja til Bretlands sem gámafisk og skaffaði kannski 10–20 þúsund manns eða fleirum vinnu í kjördæmi sínu. Hvort hann vildi sem bankastjóri seðlabanka Bretlands bera ábyrgð á því að stöðva það. Og það var opnað fyrir fiskútflutning til Bretlands á gámafiski. En það var ekki opnað fyrir önnur peningaviðskipti með sama hætti. Auðvitað gera Bretar sér grein fyrir því hversu gríðarlega mikilvægt það er að ná þessum fiski af Íslandsmiðum til að skaffa þar kannski tugum þúsunda fólks eða eins og þarna var nefnt jafnvel milljónum manna atvinnu í kringum fiskiðnað sem var háður því að fá þennan gámafisk af Íslandsmiðum. Á sama tíma erum við reiðubúin til að halda áfram að leyfa útflutning á þessum fiski þó að það kosti þúsundir Íslendinga atvinnumissi.

Herra forseti. Það er eitthvað mjög öfugsnúið við þetta eins og kom fram hjá hv. þm. Atla Gíslasyni. Hann benti á að frumvarpið hefði verið samið fyrir kollsteypuna, fyrir hrunið, fyrir sjáanlega mikið atvinnuleysi og menn hefðu átt að axla þá ábyrgð og sjá það í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að tímarnir voru gjörbreyttir. Hafi þeim fundist vera forsenda til að heimila útflutning á gámafiski undir fyrrgreindum forsendum þá væru gjörbreyttir tímar núna. Tilvera dagsins snýst um það að við Íslendingar beitum öllum okkar möguleikum, öllum okkar krafti, öllum okkar lagalegu, tæknilegu og siðferðilegu möguleikum til að efla íslenskar útflutningsgreinar eins og fiskvinnslu til að tryggja sem flestum atvinnu þannig að þeir þurfi ekki að fara á atvinnuleysisbætur, til að auka verðmætasköpun af íslenskum auðlindum og fá fyrir þær gjaldeyri sem okkur vantar svo sárlega nú. Hvers vegna eigum við þá að halda opnum heimildum fyrir útflutningi á óunnum fiski, sem nam á síðasta ári líklega í kringum 50.000–60.000 tonnum, sem gæti skaffað kannski um þúsund manns eða meira atvinnu og enn þá fleirum með afleiddum störfum?

Því hefur fulltrúi okkar í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, hv. þm. Atli Gíslason, lagt það til að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi væru fengnir með að borðinu og þar samið um eða veitt heimild til þess í lögum að semja um að menn að minnsta kosti stefndu að því að það yrði svo að þessi útflutningur yrði nánast stöðvaður og þessi fiskur kæmi inn í íslenskar fiskvinnslur. Það mætti gefa þessu ákveðinn tíma ef menn teldu að einhver mikilvæg viðskiptasambönd væru í húfi, en neyðarréttur íslensks atvinnulífs, íslensks verkafólks, íslensks fiskvinnslufólks á að vera hér í forgangi.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að breytingartillögur bæði hv. þm. Atla Gíslasonar og hv. þm. Grétars Mars Jónssonar við frumvarpið til 3. umr. (Forseti hringir.) verði samþykktar og við gerum allt sem við getum til að treysta stöðu fiskvinnslu og nýtingu sjávarauðlindarinnar á Íslandi og tryggja þar með líka gjaldeyrisöflun fyrir þjóðina