Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 14:20:59 (2185)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:20]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Ég vil taka undir þessi orð hv. þm. Grétars Mars Jónssonar. Ég vona að við getum sem allra fyrst hafið umræðu um það hér í þinginu hvernig við getum stóraukið verðmæti fiskvinnslunnar í landinu og reynt að koma því þannig til leiðar að við fáum sem mest fyrir þau verðmæti sem við fáum úr náttúrunni og úr því hráefni sem við flytjum úr landi núna, auðvitað liggur það í augum uppi.

Ég er hlynntur því að allur fiskur sé unninn á Íslandi og að sem mest fáist fyrir hann. En það koma náttúrlega mjög mörg sjónarmið inn í þetta sem mér finnst að við getum ekki bara afgreitt hér í þingsalnum svona einn, tveir og þrír, þrátt fyrir það neyðarástand sem er. Hvaða áhrif hefði það á fiskmarkaðina hér, hvaða áhrif hefði það á verð til sjómanna ef allur fiskurinn yrði settur á einn markað hér á landi? (AtlG: En þjóðarhag?) — og það er ákveðin samkeppni þar á milli. Það getur líka hugsanlega verið að hagur þjóðarinnar í dollurum talið eða pundum — ef nefna má þann gjaldmiðil hér í þessum sal — gæti við vissar aðstæður orðið meiri af því að selja fisk beint á markað en að láta hann í fullvinnslu hér heima vegna þess háa verðs sem gæti fengist fyrir hann úti. Við vitum að ekki er eingöngu um þorsk að ræða heldur karfa, kola og margt annað sem er kannski ekki eins hagkvæmt (Forseti hringir.) að vinna eins og þorskinn og ýsuna.