Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 14:27:29 (2188)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:27]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur fyrir að þetta frumvarp var samið fyrir efnahagshrunið. Það liggur fyrir að við búum við stórfellt atvinnuleysi sem mun fara vaxandi, það liggur fyrir að við erum í neyðarástandi.

Í ljósi þessa lagði ég fram breytingartillögu en bókaði jafnframt á undan að ég óskaði eftir því að hagsmunaaðilar kæmu fyrir nefndina og tjáðu sig um það hvort við gætum sameiginlega komist að niðurstöðu til að tryggja aukna fullvinnslu afla á Íslandi til að mæta stigvaxandi atvinnuleysi og væntanlegum landflótta sem blasir við.

Ég spyr hv. þingmann: Af hverju mátti ekki kalla þessa hagsmunaaðila fyrir og komast að sameiginlegri niðurstöðu með þeim? Hér erum við með stærsta einstaka tækifærið í höndunum til að vinna gegn atvinnuleysi og landflótta. Af hverju ekki að grípa það strax, af hverju á að bíða þar til atvinnuleysið er orðið 10–15%, bíða fram á vorið og sjá reynsluna? Við erum ekki að loka fyrir þá meginhugsun frumvarpsins að þetta fari allt saman á markað. Af hverju mátti ekki heyra skoðanir hagsmunaaðila?

Ég er viss um að stærstu útflytjendurnir, skynsamir menn, hefðu tekið þjóðarhag fram yfir eigin hag, ég er algjörlega viss um það. Þetta kallar á skýr svör hv. þingmanns. Ég hefði getað sinnt nefndarstörfum frá morgni til kvölds, um helgar og yfir nóttina. Ég hefði líka getað hugsað mér að starfa á þinginu á milli jóla og nýárs og klára þetta mál í nánu samráði við hagsmunaaðila.

Ég óska eftir skýrum svörum frá hv. þingmanni.