Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 14:31:38 (2190)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta sjútv.- og landbn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefði ekki staðið upp á mig að sitja hér öll jólin, alla daga og öll kvöld til að koma í veg fyrir það atvinnuleysi sem þegar er orðið og er í pípunum. Það hefur verið kallað eftir tillögum til að mæta neyðarástandinu. Hér er stærsta einstaka tækifærið sem við höfum til að bæta úr ástandinu.

Ef hægt er að gera eitthvað varðandi frystitogarana, sem gagnspurt er að, gerir maður það auðvitað í samráði við þá hagsmunaaðila sem standa að útgerð þeirra. Ég hef kallað eftir slíku samráði, að skynsamir menn komi að borðinu og horfi á málin út frá atvinnuleysinu, horfi á málin út frá atvinnunni. Ég er algjörlega viss um að nái þessi breytingartillaga fram að ganga þá muni það styrkja mjög verulega hinar dreifðu sjávarbyggðir landsins til lengri tíma litið.

En vel að merkja, ákvæðið er til bráðabirgða frá 1. mars 2009 til 31. desember. Það var kallað á að hagsmunaaðilar skoðuðu þessa hugmynd. Henni var hafnað og það hafa ekki komið fram skýringar á því. Það var líka upplýst á fundi nefndarinnar að engin trygging er fyrir því að hér muni verða aukning á vinnslu afla innan lands, að það verði einhver breyting á því, að það verði einhver minnkun á því að afli verði fluttur óunninn erlendis. Ég geri kröfu til þess að ríkisstjórnin snúi sér af alvöru að atvinnumálunum, berjist af fullum krafti gegn atvinnuleysi og væntanlegum landflótta.