Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 14:35:19 (2192)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:35]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða framkvæmd laga um umgengni um nytjastofna sjávar.

Það er rétt sem komið hefur hér fram í máli manna að þetta frumvarp var að miklu leyti unnið áður en kom til þess alvarlega ástands sem núna ríkir í íslensku þjóðfélagi að því er snýr að atvinnumálum og afkomu fólks í landinu, sem á svo líka að taka á sig verulegar byrðar vegna falls bankanna og allrar þeirrar lántöku sem því mun fylgja ásamt skattahækkunum og öðrum aðgerðum sem snúa að því að draga úr kostnaði ríkissjóðs sem vissulega getur haft, ef of skart er í það farið, neikvæð áhrif á atvinnustig í landinu.

Nú hagar málum þannig, hæstv. forseti, að í landinu eru 8 þúsund manns án atvinnu og allar líkur eru á því að sú tala nálgist 9 þúsund um áramót og líklegt er að sú tala að óbreyttum aðgerðum geti farið að verða yfir 10 þúsund þegar kemur fram á fyrstu mánuði næsta árs. Þetta er alveg grafalvarlegt ástand, hæstv. forseti, og það er skylda okkar í hv. Alþingi að reyna að hafa áhrif á alla lagasetningu til þess að auka atvinnu í landinu eins og frekast er kostur. Við höfum gert athugasemdir við afgreiðslu þessa máls og þingmaður okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Grétar Mar Jónsson hefur lagt fram sérstaka breytingartillögu til þess að hafa áhrif á þá stöðu sem er því miður enn þá innbyggð í þetta frumvarp, að það eru ekki settar nægilegar hömlur á að fiskur fari úr landi og ekki er gengið nægjanlega eftir þeim markmiðum að það verði aukið framboð á fiski til vinnslu innan lands bæði á uppboðsmarkaðnum og síðan til fiskvinnslna og til dreifingar í vinnslustöðvar á landinu í gegnum markaðsleið, eins og hér er verið að leggja til.

Til þess að ná fram þeim markmiðum er hægt að fara fleiri en eina leið. Við höfum valið þá leið í Frjálslynda flokknum að leggja fram breytingartillögu við þessi lög sem kveður á um að útgerðarmanni sem ætlað er samkvæmt lögunum að setja lágmarksverð á sinn afla til uppboðs innan lands, þ.e. að hann getur ákveðið krónutölu sem hann vill fá fyrir kíló af þeim fiski sem hann hyggst flytja erlendis og ef tilboðin ná ekki þeirri tölu sem hann setur er næsta víst að viðskiptin eiga sér ekki stað. Það sem meira er, hæstv. forseti, það er meira að segja ekki skylda í lögunum að viðskiptin eigi sér stað þó að svo fari að íslenskir fiskkaupendur bjóði lágmarksverð. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að það finnst mér afar furðulegt að það skuli vera svo, að menn sem eiga aflann sem þeir hyggjast flytja út geti sett á hann lágmarksverð, sem er skylda samkvæmt þessum lögum, til þess að tryggja að menn geti boðið í aflann hér innan lands en þurfi síðan ekki að taka tilboði jafnvel þó að það nái lágmarksverði.

Hvaða breytingar höfum við lagt til á þessu frumvarpi til þess að reyna að tryggja að meiri afli komi til vinnslu innan lands? Þá erum við einnig að horfa til þess að stöku sinnum fæst afar hátt verð á erlendum mörkuðum. Það má til dæmis nefna tímabil eins og fyrst eftir áramót, kringum páska og svo framvegis og einnig geta komið upp tímabil þegar mjög erfið sjósóknarveður hafa verið í Norðursjó og annað slíkt og verð getur þá farið virkilega mjög hátt upp á þessum erlendu ferskfiskmörkuðum. Til þess að reyna að finna leið sem gæti knúið það fram að aflinn kæmi frekar til vinnslu innan lands höfum við valið að leggja til breytingartillögu við þetta frumvarp þar sem lagt er til að ef mismunur á því lágmarksverði sem útgerðarmanni í þessu tilviki er heimilt að setja á aflann reynist vera 15% lægra að meðaltali yfir heilan mánuð en það lágmarksverð sem útgerðarmaðurinn setur og fiskurinn fer samt sem áður úr landi og er seldur erlendis þá þurfi útgerðarmaðurinn að una því næstu tvo mánuði þar á eftir að hafa ekki heimild til að setja lágmarksverð á viðkomandi afla.

Menn hafa svolítið orðað það hér í umræðunni að það væri verið að leggja refsingu á útgerðarmenn með þessum hætti. Ég lít ekki svoleiðis á, hæstv. forseti. Ég lít ekki þannig á að það sé nein refsing fyrir útgerðarmann að þurfa að taka því hæsta tilboði sem boðið er í aflann hér á landi. En það er hins vegar verið að koma í veg fyrir að hann geti misnotað aðstöðu sína samkvæmt þessum lögum með því að hafa lágmarksverðið ævinlega það hátt vegna þess að það eru engin viðurlög í þessum lögum, þ.e. hvað eigi að gera ef svo ber undir ef verðið er alltaf sett það hátt að aflinn fer ævinlega úr landi, að þá sé sett inn þessi kvöð að hann verði að una því að taka því verði sem býðst á íslenskum fiskmörkuðum. Skyldi vera sérstök refsing fólgin í því að menn þurfi að sætta sig við það verð sem best er boðið á íslenskum fiskmörkuðum? Ég held að svo sé ekki, hæstv. forseti. Ég held að á íslenskum fiskmörkuðum hafi það sýnt á undanförnum árum að þar eru oft og tíðum ágætis verð fyrir góða vöru. Ég lít ekki á það sem refsingu. Ég er hins vegar alveg sammála þeim markmiðum sem við ætlumst til að hægt sé að ná fram með þessu ákvæði, þ.e. að tryggja það að aflinn komi til vinnslu innan lands og auki hér atvinnu. Það er virkileg ástæða til þess nú undir þessum kringumstæðum að gera slíkt.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég furða mig á því að ríkisstjórnarmeirihlutinn í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafi ekki fallist á að menn kæmu til viðræðu við nefndina og ræddu þær tillögur sem uppi á borðinu voru, annars vegar þá tillögu sem við höfum flutt, hv. þm. Grétar Mar Jónsson flytur, og hins vegar tillögu hv. þm. Atla Gíslasonar um að um ákveðinn tíma verði sett takmörkun mikil eða jafnvel stopp á að fiskur fari úr landi með tilliti til atvinnusjónarmiða. Ég hefði gjarnan viljað í þessari umræðu að þær upplýsingar hefðu legið fyrir frá hagsmunamönnum fiskvinnslunnar og hagsmunamönnum útgerðarinnar hvaða rök þeir hefðu haft fyrir því að leggjast annars vegar gegn tillögu hv. þm. Grétars Mars Jónssonar og hins vegar tillögu hv. þm. Atla Gíslasonar með tilliti til þess hvað við erum að horfa fram á í atvinnumálum Íslendinga, hæstv. forseti.

Það er samt ekki hægt að horfa alveg fram hjá því að á einstökum tímabilum ársins fæst afar hátt verð fyrir heilan fisk ferskan á erlendum mörkuðum, stundum svo hátt að ekki er hægt að sýna fram á það með rökum að meiri arðsemi fáist út úr hverju kílói þó að fiskurinn væri flakaður og verkaður. Það breytir hins vegar ekki því að við hv. þingmenn höfum þær skyldur við núverandi aðstæður að reyna að tryggja hér atvinnu eins og frekast við getum. Ég hefði viljað spyrja þá sem eru hér fyrir stjórnarflokkana núna á þessum fundi í hv. Alþingi hvort stjórnarmeirihlutinn sé tilbúinn að lýsa því yfir að komi í ljós sem við óttumst að þrátt fyrir þau markmið sem unnin voru upp með þessu lagafrumvarpi — og ég tek fram að þau voru unnin upp áður en það ástand kom upp sem nú er. Ég hygg að menn hefðu verið mun stífari á meiningu sinni ef þeir hefðu unnið þetta frumvarp með þeim undirbúningi sem það er búið að hafa við núverandi aðstæður — en ég vil spyrja forustumenn ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki sem starfa í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hvort þeir sjái ekki að eðlilegt sé að reyna að finna þær leiðir sem leiði til þess að mun meiri fiskur komi til vinnslu innan lands en verið hefur undir núverandi kerfi og hvort þeir sjái ekki að meðal annars tillaga hv. þm. Grétars Mars Jónssonar mundi leiða til þess eins og hún er útfærð, hvort sú hugsun sem þar er, að menn komist ekki upp með að setja lágmarksverð og þurfi ekkert una því að taka þeim tilboðum sem þar koma upp, leiði ekki bara til þess að þá gerist ekki neitt, þá bara haldi menn áfram að hafa slíka viðmiðun og það gerist ekki neitt, menn halda bara áfram að flytja út eins og þeir hafa gert.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að hv. þingmenn í sjávarútvegsnefnd og hæstv. ráðherra — ef hann hefði nú verið hér í salnum — hefðu tjáð það hér með orðum sínum í ræðu að þeir væru tilbúnir til þess að breyta þessum lögum til þess að ná fram þeim markmiðum sem þingmennirnir hafa verið að ræða hér með þessum breytingartillögum sem hafa verið fluttar, að auka landaðan afla innan lands, efla atvinnustigið sem eigi mun af veita.

Ég ítreka það enn og aftur, hæstv. forseti, að ég lít alls ekki á það sem refsingu þó að útgerðarmenn verði að una því að taka því hæsta verði sem þeim býðst á íslenskum fiskmörkuðum. Það hefur verið nokkrum sinnum orðað hér að tillaga okkar frjálslyndra sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson mælir fyrir bjóði upp á það að mönnum sé refsað. Ég skil þá ekki alveg orðið refsingu ef það er allt í einu orðin refsing að fá hæsta verð sem í boði er innan lands fyrir íslenskan fisk.

Einstakar fisktegundir eins og karfi og koli og svo framvegis seljast þó nokkrum sinnum á mun hærra verði en gerist innan lands og það er náttúrlega kannski vegna þess að það er vöntun og þá bjóða menn hátt verð. Það á líka við á Íslandi þegar það er vöntun. Þá bjóða menn hátt verð. Hvers vegna er vöntun? Það er annaðhvort vegna þess að markaðurinn kallar á það eða þá að vinnsluaðilana vantar hráefni. Það á líka við í Bretlandi að vinnsluaðilana vantar hráefni bæði til að uppfylla markaðskröfur og eins til þess að halda uppi atvinnu fyrir það fólk sem er að vinna úr fiski. Það á líka við á Humber-svæðinu en það á nefnilega líka við á Íslandi að atvinnan skiptir okkur máli. Við núverandi aðstæður eigum við að koma alls staðar inn þar sem við höldum að það sé hægt að auka atvinnu.

Ég vil víkja í lokin að hinum sýkta íslenska síldarstofni. Ég tel, hæstv. forseti, að það eigi að veiða núna á sýktustu svæðunum og setja þann afla í bræðslu. Ég tel að við höfum engan ávinning að því að missa 50–60% af síldinni dauðri á botninn á stórum veiðisvæðum hér við land fyrir utan það að ég held að það væri ákaflega merkileg tilraun ef vel væri staðið að rannsóknum og eftirfylgni með því hvernig svæði annars vegar sem ekki er veitt á og hins vegar svæði sem veitt er á úr sýktum síldarstofni mundu bregðast við í framtíðinni að því er varðar annað lífríki og aðrar fisktegundir sem þar eru.

Það eru hins vegar ein gleðileg tíðindi, hæstv. forseti, og þau eru reyndar þau sömu og við í þingflokki Frjálslynda flokksins boðuðum hér á síðasta hausti. Við lögðum til að þorskaflinn yrði verulega aukinn og töldum fyrir því öll rök sem við hefðum vitneskju um frá sjómönnum. Núna fór Hafrannsóknastofnun í leiðangur (Forseti hringir.) og komst að því sama og fiskimenn eru búnir að segja okkur í fleiri mánuði, að það sé meiri þorskur á Íslandsmiðum en þeir höfðu gert ráð fyrir á Hafró. Það er gleðilegt en ég ætla að vona (Forseti hringir.) að það verði ekki hlutskipti Sjálfstæðisflokksins að bíða og bíða og bíða með ákvörðun og aðhafast ekki neitt.