Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 14:56:15 (2196)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[14:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Að lokum vil ég segja að það er neyðarástand á Íslandi og við þurfum að gera allt sem við getum til þess að minnka þau vandamál sem fyrir hendi eru. Við þurfum að minnka atvinnuleysið og við þurfum að leggja okkur fram um það að reyna að gera það þannig að fólk haldi vinnu sinni eins og hægt er. Það er hægt, við eigum leiðir og þar á meðal er sú að gefa íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum tækifæri á að bjóða í fisk í alvörunni og ná fiskinum inn í íslenska fiskvinnslu. Það er alveg á tæru. Það er líka hægt að bæta við kvótann, sérstaklega þorskkvótann.

Núna er frétt á mbl.is um 70% aukningu í vísitölumælingum á þorski á milli ára í haustrallinu. Þetta eru ekkert nýjar fréttir fyrir mig, ég er búinn að vita þetta í langan tíma, alveg frá 1984 höfum við verið með rangar mælingar á þorski og mjög vitlausar og þær hafa ekkert verið í takt við það sem hefur verið í hafinu. Þeir sjómenn sem ég er í daglegu sambandi við hafa upplýst mig um stöðu mála og það hefur aldrei verið í takt við það sem fiskifræðingarnir hafa haldið. Svo loksins núna — skyldi þetta vera tilviljun eða skyldu þetta vera betri fagleg vinnubrögð hjá Hafrannsóknastofnun núna að uppgötva það þegar á þarf að halda að það sé meiri þorskur?

Ég sagði í september að það yrði búið til eitthvert málamyndadjók til þess að geta leiðrétt það og sagt að það væri miklu meiri þorskur í sjónum svo hægt væri að bæta við. Eftir að bankarnir hrundu varð mér ljóst að það yrði bætt við kvótann og það verður örugglega gert en það er ekki af því að ástandið í hafinu hafi breyst neitt til hins betra frá því sem við höfum haldið fram sem höfum verið til sjós alla okkar ævi og höfum fylgst með lífríkinu þar á degi hverjum. Það er engin breyting, það er búið að vera fullt af fiski en núna átta fiskifræðingarnir sig á því þegar kemur að því að það þarf að bæta við og auka veiðar. Við það að fá þessi 50 þús. tonn sem fara í gámum getum við haft fleiri störf, 2 þús. störf í viðbót ef við tökum þessi 50 þús. tonn.

Ef við aukum þorskkvótann um 100 þús. tonn, eða 90 þús. tonn eins og við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til, yrðu að öllum líkindum 6 þús. manns í þessu tvennu viðbót frá því atvinnuleysi sem er nú þegar. Við gætum skaffað á bilinu 5–6 þús. störf bara með því að bæta verulega við þorskkvótann og minnka gámaútflutninginn, helst að stoppa nánast allan gámaútflutning að því marki að þorskur og ýsa færu ekki. Það væru þá aukategundir eins og koli sem væri kannski hægt að sætta sig við að færu af því að það er ekki það hátt verð á honum hér innan lands en hins vegar gríðarlega hátt verð erlendis, skötuselur, koli og svoleiðis tegundir. Þetta eru færar leiðir og sjálfsagt verðum við að fara þær.

Ég ætla rétt að vona að menn sjái líka sóma sinn í því að bæta við síldarkvótann og láta veiða síldina í bræðslu núna á meðan þessi sýking er í stofninum. Við horfum upp á jafnvel helminginn af kvótanum drepast mjög fljótt í síldinni þannig að það er sjálfsagt að nýta hann og láta veiða síldina í bræðslu.

Ég ætla líka að vona það, af því að ég á mér drauma í þessu, að við hættum að brjóta mannréttindi í þessu íslenska fiskveiðistjórnarkerfi og búum til leikreglur sem mismuna ekki fólki með þeim hætti sem hefur verið síðustu 25 ár. Ég treysti því og vonast til þess að þingið átti sig á því á hvaða villigötum við höfum verið. Þetta er partur af því að búa til nýtt Ísland, endurskoða og taka í gegn íslenska fiskveiðistjórnarkerfið, búa til réttlæti, tryggja að allir séu jafnir og leiðrétta þau mannréttindabrot sem hafa verið framin og er verið að fremja á einstaklingum, fyrirtækjum, sveitarfélögum og þegnum þessa lands. Það er ómögulegt að sætta sig við það að fáir útvaldir fái að eiga kvótann, geti leigt hann, selt eða veðsett. Það er hlutur sem verður aldrei hægt að sætta sig við.