Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 12. desember 2008, kl. 15:01:26 (2197)


136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[15:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um þetta ágæta mál sem fjallar um að auka framboð fisks á fiskmörkuðum. Hér hafa komið fram gagnleg sjónarmið og ég held að öllum sé ljós alvarleiki málsins. Við ræddum það í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að nefndin mundi fylgjast með því hvernig til tækist með reglugerðarsmíð og með það hvernig þeim hagsmunaaðilum sem að þessu máli þurfa að koma, fiskseljendur, hvort sem það eru útgerðarmenn eða fiskkaupendur og fiskverkendur og síðan fiskmarkaðirnir …

Auðvitað eru allir á þeim buxunum að vilja fá sem hæst verð fyrir hráefni sitt, útgerðarmennirnir vilja auðvitað fá sem hæst verð fyrir sitt og fiskverkendurnir fyrir vinnsluna. Eins og fram hefur komið í umræðunni held ég að öllum sé ljóst hversu miklir hagsmunir eru í húfi og því held ég að full ástæða sé til þess að fylgjast vel með því hvernig þetta kerfi gengur upp í framkvæmd því að það verður auðvitað að vera þannig að kerfið virki.

Ég vil síðan taka undir með þeim þingmönnum sem hér hafa rætt um þau jákvæðu tíðindi sem borist hafa í dag um að haustrallið hafi verið jákvætt. Það veit á gott og þess vegna hefur verið ákveðið að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd komi saman á mánudagsmorgun og fái nánari upplýsingar hjá Hafrannsóknastofnun um þetta mál og þá fáum við væntanlega betur að heyra hvað niðurstöðurnar úr haustrallinu fela í sér.