136. löggjafarþing — 55. fundur,  12. des. 2008.

þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

234. mál
[15:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra kærlega fyrir greinargerð sína með þessu máli. Það er ánægjulegt í miðri krepputíð að fá hér til umfjöllunar mikilvægt framfaramál í velferðarþjónustunni í landinu sem þetta mál ótvírætt og sannarlega er fyrir þann hóp sem það snertir, blinda, sjónskerta og daufblinda. En ég held líka að málið feli í sér mikilvægt skref almennt í velferðarþjónustunni því að hér hefur það gerst að þrjú ráðuneyti, ráðuneyti heilbrigðismála, menntamála og félags- og tryggingamála, hafa komist sameiginlega að þeirri niðurstöðu að taka verkefni sem heyrðu undir ráðuneytin þrjú og færa þau öll á einn stað, undir eitt ráðuneyti og á ábyrgð eins aðila. Allir þeir sem hafa starfað að félagsmálum í landinu vita sem er að erfiðast er að sækja mál og vinna að framförum í félags- og velferðarmálum þegar ekki er skýrt á ábyrgð hvers málin eru, þ.e. þegar menn fara bónleiðir til búðar, ganga úr einu ráðuneytinu í annað, á milli ríkis og sveitarfélaga og allir segja: Ekki ég. Það er sárt þegar menn hafa brýn úrlausnarefni sem ekki er hægt að fá úrlausn á — þó að allir viðurkenni að málin séu þess eðlis að þegar þurfi að taka á þeim — vegna þess að enginn gengst við því að bera ábyrgð á þeim.

Ég held að þetta mál sé þess vegna gott fordæmi fyrir ýmsa aðra málaflokka og hópa í því að hér eru ábyrgðarmörkin skýrð og það sett á einn stað sem lýtur að þessum hópi þannig að þeir sem þurfa að reka mál sín gagnvart stjórnsýslunni þeirra vegna geta leitað á einn stað og þeim verður ekki vísað á milli manna.

Tilefni þess að þetta þurfti að gera var hins vegar það að einkanlega á tveimur sviðum í þjónustu við blinda og sjónskerta var satt að segja ófremdarástand í landinu. Löngum höfðu blindir og sjónskertir verið hornreka í hinu almenna skólakerfi og það var raunar ekki fyrr en árið 1973 sem blindir og sjónskertir urðu nemendur í hinu almenna grunnskólakerfi. Fram að þeim tíma var þeim kennt á Bjarkargötu á vegum líknarfélags, á vegum einkaaðila vegna þess að þeir höfðu ekki aðgang að hinum almenna grunnskóla. En síðan breyttist það og nú starfar blindradeild í Álftamýrarskóla sem veitir góða þjónustu þeim sem þangað leita. Víða um landið eru eftir sem áður blindir og sjónskertir nemendur sem árum saman fá ekki þá aðstoð og þann stuðning sem þeir þurfa. Eftir því sem viðhorfin breytast í skólakerfinu fækkar smátt og smátt þeim sem sækja í hina sérstöku blindradeild og sjálfir grunnskólanemendurnir vilja sækja sinn heimaskóla og foreldrarnir vilja það líka en við veitum þeim engan stuðning út í þá skóla. Það skapaði auðvitað algert ófremdarástand í grunnskólanámi fyrir blind og sjónskert börn.

Þegar athygli yfirvalda var vakin á því fyrir nokkrum árum hversu alvarlegt mál var á ferðinni var full ástæða til að fagna því og þakka fyrir að það var tekið inn á borð ríkisstjórnarinnar og ráðist í bráðaaðgerðir til að bregðast við vandanum. Fyrir milligöngu Blindrafélagsins voru strax ráðnir aðilar til að sinna þessari þjónustu þótt ekki væri kominn fullnægjandi stofnana- og lagagrundvöllur fyrir hana eins og við erum núna loksins að fá. Það var ráðist í að veita fjármuni í það að mennta fólk til að veita þessa þjónustu. Núna er síðan komin fram lausn á því hvaða ráðuneyti muni halda utan um þetta og hvar þetta verði vistað sem og lagagrundvöllur og fjárveitingar sem til þarf þannig að þessir ráðgjafar sem hafa starfað á vegum Blindrafélagsins geta orðið hluti af hinni opinberu þjónustu.

Hitt atriðið sem hefur verið sérlega vanrækt lýtur að endurhæfingu blindra og sjónskertra. Sjónstöð Íslands sem stofnuð var á 9. áratugnum hefur reynst ákaflega öflug og góð þjónustustofnun við blinda og sjónskerta og hefur sinnt mikilvægu starfi í endurhæfingu. Við tilurð hennar lagðist hins vegar af það sem áður hafði verið, að blindir og sjónskertir færu til lengri tíma til öflugrar endurhæfingar erlendis. Menn höfðu farið til Englands á blindraskóla í þrjá til sex mánuði og helgað sig því að endurhæfa sig og læra að komast um með hvítan staf, læra að lesa blindraletur og bjarga sér í eldhúsi og ýmislegt annað sem menn þurfa að tileinka sér upp á nýtt þegar þeir missa sjón. Það kallar á alveg gríðarlega einbeitingu og í raun og veru miklar breytingu á lífsháttum.

Ég held að það sé alveg óhætt að segja að þá öflugu endurhæfingu sem menn sóttu með þessum lengri ferðum erlendis áður hafa menn ekki fengið í þeirri þjónustu sem við höfum nú. Ég held að þegar menn skoða það hversu óskaplega fáir á Íslandi lesa blindraletur sér til gagns blasi við að við höfum beinlínis vanrækt lestrarkennslu fyrir blinda og sjónskerta á Íslandi. Þetta er jú sú aðferð sem blindir nota til að lesa og það hversu fáir eru læsir á blindraletur náttúrlega sýnir okkur svo ekki verður um villst að við höfum ekki sinnt þessu sem skyldi. Sama máli gegnir um ferlikennsluna og endurhæfinguna almennt sem nauðsynlegt er að efla til muna frá því sem verið hefur. Við höfum sannarlega verið eftirbátar þeirra sem við höfum borið okkur saman við. Hér er góður grunnur lagður að umbótum og ríkisstjórnin hefur sýnt metnað í þessum málum, og þau ráðuneyti sem hafa farið með þessi mál.

Sömuleiðis er ástæða til að fagna því að hér sé sérstaklega fjallað um daufblinda sem voru í raun og veru týndur hópur. Ég kom að því sem framkvæmdastjóri Blindrafélagsins um miðjan síðasta áratug að hvetja þau til að stofna sín eigin samtök sem þá voru stofnuð um Blindrafélag Íslands og fá þangað sérstakan daufblindan ráðgjafa til að styðja þessa einstaklinga og styrkja í sínu daglega lífi og til endurhæfingar. Það er auðvitað óþarfi að fjölyrða um það hversu gríðarlegt verkefni það er fyrir eina manneskju að kljást við tvær fatlanir í senn, bæði að sjá lítið og heyra lítið. Þess vegna er fagnaðarefni að sá hópur sé skilgreindur í lögunum og sömuleiðis sagt hvar hann á rétt að sækja þjónustu því að það er auðvitað enn einn hópurinn sem lent hefur í því, jafnvel meira en margir aðrir, að vera vísað frá einum stað til annars og allir sagt: Ekki ég.

Þetta frumvarp fer að lokinni þessari umræðu til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd og kemur síðan hingað til frekari efnislegrar umfjöllunar. Ég veit að þetta mál hefur verið unnið í góðu samstarfi við hagsmunasamtökin, við notendur þjónustunnar sem er alltaf mikilvægt þegar verið er að gera breytingar í velferðarþjónustunni. Ég fagna því aftur að þetta mál sé komið fram og að við skulum geta afgreitt framfaramál í velferðarþjónustunni af þessu tagi sem nauðsynlegt er að gera þrátt fyrir þær aðstæður sem við búum við í efnahagslífinu.