Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 16:08:17 (2554)


136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vextir og verðtrygging.

237. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund Áslaugu Árnadóttur og Helgu Óskarsdóttur frá viðskiptaráðuneyti, Eirík Guðnason frá Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Helga Sigurðsson frá Nýja Kaupþingi banka hf., Gísla G. Hall frá laganefnd Lögmannafélags Íslands, Sigurð A. Jónsson og Bjarna Þór Óskarsson frá Intrum á Íslandi ehf., Davíð B. Gíslason frá Momentum greiðslu- og innheimtuþjónustu ehf., Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum og Ástu S. Helgadóttur frá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Þá barst nefndinni skrifleg umsögn um frumvarpið frá Viðskiptaráði Íslands.

Frumvarp þetta er hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna sem kynnt var 14. nóvember sl. og er markmið þess að draga úr kostnaði fyrirtækja og heimila vegna hárra dráttarvaxta sem miðast framvegis við 7% álag á algengustu skammtímalán Seðlabanka Íslands til lánastofnana í stað 11% álags. Auk þess er lagt til að heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag falli brott og að dráttarvextir verði birtir fjórum sinnum á ári í stað tvisvar á ári samkvæmt núgildandi lögum.

Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans frá 26. nóvember eru dráttarvextir 26,5% til og með 31. desember 2008 þannig að grunnur dráttarvaxta sé 15,5% til samræmis við stýrivexti 1. júlí og vanefndaálag 11%. Á grundvelli nýrrar tilkynningar Seðlabankans frá 16. desember sl. skulu dráttarvextir vera 25% frá og með 1. janúar 2009. Er þar miðað við 18% stýrivexti og 7% vanefndaálag. Hefur Seðlabankinn þannig nýtt sér heimild í 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna til að lækka vanefndaálag úr 11% í 7%. Með samþykkt þessa frumvarps verður vanefndaálagið hins vegar fest í 7 prósentustigum.

Nefndin fagnar lækkun dráttarvaxta með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Nefndin telur að slík lækkun komi bæði einstaklingum og fyrirtækjum til góða, sérstaklega í því árferði sem nú ríkir.

Nefndin ræddi á fundum sínum nokkuð um dráttarvexti, samsetningu þeirra og ákvörðunardaga. Í lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, kemur fram í 2. mgr. 6. gr. að heimilt sé að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags á grunn dráttarvaxta, að undanskildum neytendalánum. Slíkt samningsfrelsi gildir því um lánveitingar og viðskipti önnur en neytendalán. Samkvæmt lögum um neytendalán, nr. 121/1994, falla þar undir lánasamningar sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, þar á meðal húsnæðislán neytenda.

Þá komu þau sjónarmið fram fyrir nefndinni að undirliggjandi vandamál við ákvörðun dráttarvaxta hér á landi séu í raun háir stýrivextir. Bent var á að umræddar breytingar gætu leitt til þess að dráttarvextir yrðu í einhverjum tilvikum lægri en hæstu útlánsvextir sem lánastofnanir bjóða. Slíkt gæti ekki talist ákjósanlegt í ljósi þess að eðli dráttarvaxta er að vera lögákveðnar skaðabætur til kröfuhafa vegna vanefnda. Þó var bent á að nauðsynlegt væri að taka heildarkostnað vanskila með í reikninginn, svo sem innheimtukostnað. Sömuleiðis kom fram í umfjöllun nefndarinnar að nú þegar megi finna samningsbundna vexti sem eru hærri en dráttarvextir. Því var hreyft fyrir nefndinni að ákveðið misræmi gæti komið fram milli stýrivaxta og dráttarvaxta þar sem dráttarvextir eru aðeins ákvarðaðir á sex mánaða fresti og byggjast því á allt að sex mánaða gömlum stýrivaxtatölum. Var því lagt til við nefndina að dráttarvaxtaákvörðunardagar væru oftar og jafnvel fleiri en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Fyrir nefndina komu einnig fulltrúar neytenda, frá Neytendastofu og Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, og fögnuðu þessir aðilar almennt lækkun dráttarvaxta samkvæmt frumvarpinu. Var því sjónarmiði hreyft að lækkun dráttarvaxta með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir gæti haft jákvæð áhrif á lækkun vaxta hjá lánastofnunum. Þá kom fram fyrir nefndinni að mikilvægt verði að teljast að lögfesta sem fyrst úrræði um greiðsluaðlögun, en unnið hefur verið að því frumvarpi í nokkurn tíma. Slíkt úrræði muni koma neytendum til góða og bæta stöðu þeirra aðila sem hvað verst eru settir fjárhagslega.

Eftir umfjöllun sína leggur nefndin til eftirfarandi breytingartillögur:

Gerð er tillaga um að gildistökudagar dráttarvaxta verði fyrsti dagur hvers mánaðar þannig að Seðlabankinn birti dráttarvexti mánaðarlega en ekki fjórum sinnum á ári eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Með þessu er reynt að koma til móts við misræmi sem myndast getur milli dráttarvaxta og stýrivaxta sem ákvarðast oftar en fjórum sinnum á ári.

Þá er einnig lagt til að gildistaka laganna verði 1. janúar 2009.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Við 1. gr. C-liður orðist svo: Í stað orðanna „1. janúar og 1. júlí ár hvert“ í 3. málsl. kemur: fyrsta dag hvers mánaðar.

2. Við 2. gr. Greinin orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Undir þetta álit rita hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Árni Páll Árnason, Birgir Ármannsson, Herdís Þórðardóttir og Árni Þór Sigurðsson.

Hv. þm. Birkir J. Jónsson, Höskuldur Þórhallsson og Björk Guðjónsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ég tel þetta jákvætt spor sem við erum að taka hér með því að stuðla að lægri dráttarvöxtum. Það er alveg ótrúlegt að standa frammi fyrir þeim veruleika að dráttarvextir geti verið hér að óbreyttu næstum 30%. Það eru fá heimili eða fyrirtæki sem ná að standa undir slíkum vöxtum. Hér tekur hins vegar löggjafinn það skref að þetta svigrúm Seðlabankans sé takmarkað, að hann hafi ekki lengur það svigrúm að ákvarða vanefndaálagið frá 7% upp í 15%. Venjan hefur verið að Seðlabankinn miði við 11% þannig að hér er það fært niður í 7% og það fest í 7% sem er það lægsta sem við komumst vegna reglu sem má finna í evrópskri tilskipun um að 7% sé lágmarkið. Löggjafinn getur ekki gengið lengra hvað þetta varðar en að mínu mati mun þetta hafa jákvæð áhrif á stöðu skuldara í samfélaginu, ég held að þetta gæti líka hugsanlega haft jákvæð áhrif á aðra vexti í samfélaginu.

Við sáum í umfjöllun nefndarinnar að yfirdráttarvextir virðast, a.m.k. í sumum tilvikum, keyra sig upp að dráttarvöxtum, eru lítið lægri en þeir þannig að ef við lækkum dráttarvextina eins og við erum að gera hér bind ég a.m.k. vonir við það að yfirdráttarvextir fylgi niður í samræmi við það.

Auðvitað er rétt, eins og sumir umsagnaraðilar bentu á, að grunnur dráttarvaxta hér á landi er að uppistöðu stýrivextirnir og þeir eru komnir upp fyrir sársaukamörk, ef svo má segja, og maður bindur vonir við það að stýrivaxtalækkun verði að veruleika sem fyrst með þeim fyrirvara að aðstæðurnar þurfa auðvitað að leyfa það að það vaxtastig sé dregið niður. Svona hátt stýrivaxtastig gengur ekki til lengdar eins og allir vita en við búum við erfiða tíma og sérkennilega stöðu hvað varðar t.d. eignir erlendra aðila í íslensku hagkerfi og þessir háu stýrivextir eru settir fram með þeim rökum að menn flýi ekki krónuna í enn meiri mæli en gert hefur verið. Það er verið að reyna að gera það meira aðlaðandi og meira hagkvæmt, ef svo má segja, að hafa peninga í íslenskum krónum og íslensku hagkerfi því að eins og allir vita hafa fá ríki eins háa stýrivexti og við. Vextir eru ekkert annað en verð á peningum þannig að í rauninni ætti að vera mjög hagstætt fyrir innlánseigendur að hafa peningana sína á íslenskum innlánsreikningum sem bera þessa háu vexti, en svo er aðili á móti sem tekur lán á grundvelli þessara vaxta og þess vegna hlýtur að vera markmið allra hér að við búum til þau skilyrði og það umhverfi að stýrivextirnir geti lækkað sem fyrst, um leið og aðstæður leyfa slíkt.

Ég held að hér sé á ferðinni ágætismál og það hefur vonandi þau áhrif að hagur þessara einstaklinga sem lenda í erfiðleikum muni vænkast eitthvað eilítið og hugsanlega meira en það, en við stöndum frammi fyrir því að gjörsamlega nýr hópur í samfélaginu er að lenda í vanskilum og það er hópur sem við þurfum að huga sérstaklega að og bregðast við með einhverjum hætti. Þetta frumvarp er liður í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur boðað. Ég sé að það er þverpólitísk sátt um að það fari í gegnum þingið og ég fagna því sérstaklega.