Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 16:17:38 (2555)


136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vextir og verðtrygging.

237. mál
[16:17]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um frumvarp til laga um breyting á lögum um vexti og verðtryggingu og get tekið undir það sem segir í nefndaráliti hv. viðskiptanefndar. En ég átti þess kost að sitja fund nefndarinnar þar sem tekið var á móti gestum og fjallað um þetta mál.

Eins og menn vita á málið uppruna sinn í fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í þágu heimilanna sem auglýstar voru í október- eða nóvembermánuði síðastliðnum með heilsíðuauglýsingum í blöðum. Þar voru tólf punktar settir fram. Einn af þeim var lækkun dráttarvaxta, með leyfi forseta:

„Lög um dráttarvexti verði endurskoðuð með það að markmiði að dráttarvextir lækki.“

Nú er það svo að með frumvarpinu er ekki um að ræða tímabundna lækkun í þeim skilningi, heldur er svokallað dráttarvaxtaálag sem kallað er vanefndaálag tekið úr 11% niður í 7% og vænta menn þess að aðgerðin hafi þau áhrif að vextir lækki almennt.

Þeir sem komu fyrir nefndina, eins og hv. formaður nefndarinnar tók fram áðan, bentu margir hverjir á að kannski væru dráttarvextirnir sem slíkir ekki vandamálið fyrir skuldara. Þeir þyrftu að vera nokkuð háir þar sem þeim væri ætlað að vera skaðabætur til kröfuhafa vegna vanefnda. Stýrivextirnir væru hins vegar meinið. Undir þetta get ég svo sannarlega tekið.

Stýrivextir hér eru og hafa verið allt of háir. Ég get ekki með öllu tekið undir það sem hv. formaður viðskiptanefndar, Ágúst Ólafur Ágústsson, sagði áðan og bendi á að stýrivextirnir eru vissulega háir núna. Vegna atbeina Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru þeir hækkaðir í 18%, eins og fram kemur í tillögu til þingsályktunar hér á þingskjali 189 í 19. lið. Þar eru stýrivextirnir hækkaðir að kröfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í þeim tilgangi, sem hv. formaður nefndarinnar sagði frá, að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á því að fé sem útlendingar eiga inni hérlendis renni úr landi.

Það sem vekur athygli varðandi þessa aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að stýringu peningamála á Íslandi er tvennt fyrir utan hækkunina sjálfa. Í fyrsta lagi að hækkunin skyldi koma til framkvæmda áður en fjallað var að öðru leyti um lán eða möguleika Íslendinga til láns úr Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það var í öðru lagi athyglisvert að ráðherrar ríkisstjórnarinnar fóru í hár saman um hvernig ákvörðunin um hækkun stýrivaxta hefði verið tekin og urðu þar ekki tvísaga heldur þrísaga. Formaður bankastjórnar Seðlabankans, margnefndur úr þessum stól, Davíð Oddsson tók að sér að vera einhvers konar blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar og setti tilkynningu inn á heimasíðu Seðlabankans. Þar var opinberaður fyrsti hlutinn af skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir lánveitingum til Íslands og var það fyrsti liðurinn í 19. gr. samkomulags um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þar segir með leyfi forseta:

„Að hækka stýrivexti í 18%. Við erum tilbúin til að hækka stýrivextina enn frekar.“

Það er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir að frekar er að vænta hækkunar á stýrivöxtum á Íslandi en lækkunar og það í umhverfi þar sem í fréttum er daglega sagt frá því að löndin í kringum okkur, bæði austan hafs og vestan, lækki stýrivexti til að reyna að örva efnahagslífið og vinna gegn kreppunni. Hvað gerum við þá? Við fylgjum leið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hækkum stýrivexti upp í 18% og jafnframt lýsa ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á Alþingi því yfir að þau séu tilbúin til að hækka stýrivexti enn frekar.

Ég taldi nauðsynlegt, herra forseti, að rifja þessar staðreyndir upp þar sem við tölum um að lækka dráttarvaxtaálag úr 11% niður í 7%. Allir sem komu fyrir nefndina bentu á að dráttarvextirnir væru ekki meinið heldur stýrivextirnir. Í áliti Samtaka fjármálafyrirtækja segir til að mynda að þau teldu eðlilegra að lækka stýrivexti Seðlabankans í stað þess að lækka álag á dráttarvexti.

En það kann svo vel að vera og er samkvæmt nefndarálitinu von þeirra sem undir það skrifa að frumvarpið geti haft jákvæð áhrif á lækkun vaxta hjá lánastofnunum almennt. Þá væri vel af stað farið.

Líka er mikilvægt, herra forseti, að vekja athygli á því að með frumvarpinu er tekin úr lögum heimild Seðlabankans til að taka aðrar ákvarðanir varðandi vanefndaálagið eða dráttarvextina. Dráttarvextirnir eru festir í 7% en svo vill nú til að Seðlabankinn hefur einmitt nýlega nýtt sér heimildina sem hér er verið að taka úr lögum til að lækka álagið. Því er það svo að fram til 31. desember 2008, eins og hv. formaður nefndarinnar tók fram, verða dráttarvextir 26,5% en heimildin sem Seðlabankinn hefur nýtt sér nú og verður tekin úr lögum með samþykkt frumvarpsins varð til þess að frá og með 1. janúar var fyrirhugað að dráttarvextirnir færu niður í 25%. Þarna hafði Seðlabankinn sem sagt nýtt sér heimildina sem á að fara að taka úr lögum til að lækka dráttarvextina um 1,5 prósentustig.

Fyrst ég nefni þá sem komu á fund nefndarinnar vil ég, herra forseti, bæta við tveimur atriðum. Í fyrsta lagi var það álit þeirra sem á fund nefndarinnar komu að nú væri að bætast í hóp vanskilamanna svokallaðra nýir hópar og hugsanlega væru það ekki dráttarvextirnir sem slíkir sem gerðu þetta fólk að vanskilamönnum þó að lækkun þeirra gæti hjálpað til og leiðrétt stöðu þeirra. Þetta er einfaldlega fólk sem hefur lækkað í launum, misst atvinnuna eða er að gefast upp á því að standa við skuldbindingar sínar vegna verðtryggingar á húsnæðislánum. Dapurlegt er til þess að vita að í auglýsingu ríkisstjórnarinnar um punktana tólf um aðgerðir í þágu heimila skuli menn ekki hafa treyst sér til að taka á þeim ofboðslega vanda.

Ekki verður undan því vikist að taka á því á hinu háa Alþingi og ég vil benda á að í bandorminum þar sem verðbólguhækkunin eða verðbólguskotið er tekið af launum bænda með tilteknum hætti hefur ríkisstjórnin sett upp eins konar módel um hvernig hægt sé að taka verðbólgukúfinn af. Í greinargerð sem kemur hér fram á ábyrgð forsætisráðherra er fullyrt að með því sé ekki farið í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þarna tel ég að sé komin leið sem vert er að nýta til að lækka verðtryggingarskotið sem mun lenda á húseigendum, sem er jú stærsti hópur þeirra sem koma nýir inn á vanskilaskrár hjá bönkum og lánastofnunum.

Hitt atriðið sem ég vil nefna hér og kom fram í meðförum nefndarinnar og er einnig nefnt í nefndarálitinu er að mikilvægt verði að teljast að lögfesta sem fyrst úrræði um greiðsluaðlögun, en í nefndarálitinu segir að unnið hafi verið að frumvarpinu í nokkurn tíma. Slíkt úrræði muni koma neytendum til góða og bæta fjárhagslega stöðu þeirra sem hvað verst eru settir.

Þetta er athyglisvert, herra forseti, og ekki síður að í fjölmiðlum í dag kemur fram að Neytendasamtökin, sem vöktu jú máls á þessu á fundi hv. viðskiptanefndar, setja fram kröfu um að nú verði sett lög um greiðsluaðlögun að norrænni fyrirmynd. Í yfirlýsingu Neytendasamtakanna kemur fram að þörfin hafi aldrei verið meiri og brýnni en nú og samtökin segja óþolandi að drög að slíku frumvarpi skuli enn ekki hafa verið samin og lögð fram á Alþingi. Þess í stað segir, með leyfi forseta, á visir.is í dag:

„Þess í stað sé það sent á milli viðskiptaráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins.“

Á fundi hv. viðskiptanefndar kom fram að málið væri strand eða statt í dómsmálaráðuneytinu og ég tel ástæðu til að hvetja hv. formann viðskiptanefndar og þingmenn til að bregðast nú skjótt við ákalli Neytendasamtakanna og kalla eftir því hjá hæstv. dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra hvar málið er statt.