Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 16:31:06 (2558)


136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vextir og verðtrygging.

237. mál
[16:31]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu. Efnislega er um að ræða frumvarp um lækkun dráttarvaxta og þar með tilraun stjórnvalda til að hrinda í framkvæmd aðgerð til að létta undir með heimilum landsins og viðskiptalífi.

Dráttarvextir eru samsettir úr tveimur þáttum eins og hér hefur komið fram, þ.e. stýrivöxtum Seðlabanka Íslands að viðbættu svokölluðu vanefndaálagi. Vanefndaálag undanfarin ár hefur verið 11%. Tvisvar sinnum á ári, í byrjun árs og um mitt ár birtir Seðlabanki Íslands dráttarvexti sem summu stýrivaxta annars vegar og vanefndaálagsins hins vegar.

Frumvarpið felur í sér tvíþætta breytingu. Í fyrsta lagi lækkun vanefndaálagsins frá 11% í 7%. Í öðru lagi er fellt niður ákvæði um að Seðlabankanum sé heimilt að ákveða annað vanefndaálag. Og í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Seðlabanki birti dráttarvexti í hverjum mánuði og taki þannig betur til greina breytingar sem verða á stýrivöxtum.

Við fyrstu sýn er málið afar einfalt. Í kjölfar bankakreppunnar þrengir verulega að heimilum og fyrirtækjum og því nauðsynlegt að bregðast við og létta hinn þunga róður fram undan. En eins og um flest önnur mannanna verk þá eru margir fletir á þessu frumvarpi og það er í raun ekki eins einfalt að meta kosti þess og virtist í upphafi. Útgangspunkturinn í dráttarvaxtamálum er sá að tryggja að dráttarvextir verði ekki lægri en hæstu almennir vextir og þannig verði ekki byggður inn hvati til vanskila. Sú staða gæti komið upp að munur á vöxtum og dráttarvöxtum væri lítill eða enginn.

Ef litið er á málið út frá sjónarhorni kröfuhafa sem eru jafnvel fyrirtæki í vanda eða einstaklingar, þ.e. þeir sem frumvarpið á að létta undir með þá verður nefnilega málið snúnara. Mikilvægt er að hafa í huga að kröfuhafi á að vera skaðlaus af vanskilum og einnig það að ekki sé til staðar þessi hvati fyrir skuldara að lán fari í vanskil. Þetta er þekkt vandamál og hefur Evrópusambandið því gefið út tilskipun um að vanefndaálag skuli ekki fara neðar en 7%. Við þetta má bæta að vanefndaálag í Danmörku og í Noregi var 7% samkvæmt lögum frá 2005 og 8% í Svíþjóð.

Í núgildandi lögum og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heimilt sé að semja um fast hlutfall vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta. Þannig er klárlega heimilt að hafa dráttarvextina hærri en sem nemur stýrivöxtum plús því 7% vanefndaálagi sem hér er mælt fyrir. Þetta á þó ekki við um neytendalán sem eru þá öll almenn innlán til einstaklinga og þar með talin húsnæðislán.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nema úr gildi ákvæði sem gaf Seðlabankanum heimild til að ákveða annað vanefndaálag en hið fasta álag sem er í lögum. Heimildin kvað á um að Seðlabankinn gæti ákveðið annað álag að lágmarki 7%, sem er lágmarksviðmið Evróputilskipunarinnar, og að hámarki 15%. Við nánari athugun kom í ljós að þessu ákvæði hefur almennt ekki verið beitt og því er það látið niður falla.

Þá er í núgildandi lögum gert ráð fyrir að Seðlabankinn birti dráttarvexti tvisvar á ári hálft ár í senn en þar sem breytingar á stýrivöxtum gætu orðið tíðari en sem því nemur á næstu missirum þykir eðlilegt að birta dráttarvexti oftar en tvisvar á ári. Niðurstaðan var sú eins og áður hefur komið fram að Seðlabanki Íslands birti dráttarvexti í hverjum mánuði. Næst mun því Seðlabanki Íslands birta dráttarvexti viku fyrir næsta gildistíma sem er 1. janúar 2009. Ef þetta frumvarp verður að lögum þá verða dráttarvextirnir í janúarmánuði að líkindum 25%, þ.e. miðað við 18% stýrivexti og 7% í vanefndaálag.

Þess ber að geta að samkvæmt vaxtatöflum ríkisbankanna eru yfirdráttarvextir nálægt þessu 25% hlutfalli. Í einhverjum tilvikum aðeins lægri og í öðrum tilvikum aðeins hærri. Það er erfitt að gera sér grein fyrir áhrifum þessa frumvarps á stöðu kröfuhafa í stóru myndinni en vonin er að lægri dráttarvextir verki ekki sem hvati til vanskila. Í árferðinu sem við upplifum núna finnst mér fremur ósennilegt að dráttarvextirnir einir og sér verki þannig.

Þeir sem þurfa að greiða dráttarvexti vegna greiðsluvanda munu njóta þess að þeir verða nú lægri og er það vel. Í stóru myndinni er þó hin raunverulega kjarabót sem við sækjumst eftir sú að stýrivextir lækki. Þeir eru allt of háir í dag. Í 19. lið viljayfirlýsingar um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er fjallað um stýrivexti eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á áðan í ræðu sinni. En hv. þingmaður nefndi ekki að í 20. liðnum er áfram fjallað um vexti en þar segir, með leyfi forseta:

„Við gerum ráð fyrir að traust verði brátt endurvakið þannig að vextir geti lækkað í kjölfarið. Þetta afturhvarf til eðlilegs ástands getur hafist um leið og krónan verður stöðugri á gjaldeyrismarkaðnum, gjaldeyrismarkaður mætir þörf fyrir alla eftirspurn eftir gjaldeyri vegna viðskipta við útlönd og ekki er lengur nauðsynlegt að styðja við markaðinn með því að draga á gjaldeyrisforðann. Við gerum ráð fyrir að ná þessu marki fljótlega.“

Síðar í sömu grein segir:

„Reiknað er með að krónan krónan styrkist fljótt og að verðbólga á ársgrundvelli verði komin í 4,5% við lok ársins 2009 og að krónan styrkist enn frekar og verðbólgan haldi áfram að hjaðna árið 2010.“

Náist þessi markmið verður vaxtastig hér mun lægra en það sem við höfum kynnst undanfarin missiri og því er vonandi að þessi áform gangi eftir.

En aftur að dráttarvöxtunum. Ég styð lækkun þeirra og frumvarpið með þeim breytingartillögum sem formaður viðskiptanefndar hefur þegar gert grein fyrir.