Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 16:39:12 (2559)


136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vextir og verðtrygging.

237. mál
[16:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að blanda mér í umræðu um frumvarp til laga um breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu. Ég átti sæti á fundum hv. viðskiptanefndar þar sem þetta mál var til umfjöllunar og skrifaði undir nefndarálitið sem hér hefur verið mælt fyrir án fyrirvara og lýsi þess vegna yfir stuðningi við málið. Ég tel að hér sé um mikilvægt mál að ræða.

Það sem auðvitað vekur athygli engu að síður er að þrátt fyrir að hið svokallaða vanefndaálag ofan á vexti Seðlabankans eigi að lækka um 4% úr 11 í 7% munu dráttarvextir um áramótin aðeins lækka úr 26,5% í 25, þ.e. um 1,5%. Það stafar auðvitað af því að stýrivextir Seðlabankans hækkuðu úr 15,5% í 18% núna ekki fyrir löngu síðan.

Reyndar segir í umræddri og títtnefndri samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í hinum magíska 19. tölulið að stjórnvöld séu reiðubúin til þess að hækka stýrivexti enn frekar. En svo eins og hefur verið vitnað til nú þegar í umræðunni þá var líka gert ráð fyrir því að aðgerðir stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gætu leitt til þess að vextir mundu fljótlega lækka á nýjan leik.

Nú eru reyndar komnir um það bil tveir mánuðir síðan stýrivextirnir voru hækkaðir í 18% og það er boðað að þeir geti hækkað áfram og ekkert bólar á lækkuninni. Ég held að það sé það sem skiptir heimilin í landinu mestu máli, það er hið háa almenna vaxtastig í landinu. Það er auðvitað það sem sérhver fjölskylda er að glíma við um þessar mundir. Þó að þessi breyting sé jákvæð í sjálfu sér og við styðjum hana þá er þetta auðvitað langt í frá að vera nægilegt til að mæta þeim vanda sem fjölskyldurnar og fyrirtækin, atvinnulífið í landinu er að glíma við um þessar mundir.

Það er geysilega mikilvægt að ná niður vaxtastiginu. Við höfum auðvitað oft rætt um verðtrygginguna líka og kosti hennar og galla og ég er í hópi þeirra, og ætla ekkert að liggja á þeirri skoðun minni, sem telur að það eigi að afnema verðtrygginguna. Ég held að hún hafi marga galla í för með sér og fyrst og fremst kannski þá að hér eru auðvitað í raun og veru á ferðinni annars vegar dulbúnir vextir og dulbúin frestun á afborgunum lána sem felst í verðtryggingunni. Því gera menn sér ekki alltaf grein fyrir því hver hin raunverulega vaxtabyrði skuldanna er með þeirri aðferð sem hér er notuð með verðtryggingu.

Sumir halda því fram að verðtryggingin fylgi íslensku krónunni og við munum ekki losna við verðtrygginguna nema með því að skipta um gjaldmiðil. Það kann vel að vera að það að skipta um gjaldmiðil muni leiða til þess að við losnum við verðtrygginguna. En ég er ekki sammála því að þarna sé óaðskiljanleg tenging á milli vegna þess að það hefur ekki alltaf verið verðtrygging hér á landi þótt hér hafi íslensk króna verið við lýði um langt skeið. Það eru til dæmi um verðtryggingu í öðrum ríkjum þótt það sé sjaldgæft.

Ég held að það sé rétt sem haldið hefur verið fram að það var tækifæri, það voru góð tækifæri til þess að fella brott verðtrygginguna á sínum tíma. Því var raunar heitið í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna 1990 að verðtryggingin yrði tekin af þegar aðstæður væru til þess. Og sannarlega í kjölfar þess þá voru tækifæri til þess í efnahagslífinu að afnema verðtryggingu en það var ekki gert, því miður. (PHB: Sem betur fer.) Því miður.

Ég held að verðtryggingin skapi óeðlilegar aðstæður á markaði. Það má kannski segja að í verðtryggingunni felist eins konar deyfilyf að því leyti til að verðtryggingin felur hluta af þeim byrðum sem fylgja lántöku og menn gera sér ekki alltaf grein fyrir því hver hún raunverulega er.

Að þessu sögðu, að ég tel að verðtrygginguna eigi að afnema, þá verður auðvitað líka að horfa til þess að til að unnt sé að gera það, það verða að vera til þess aðstæður í samfélaginu. Að sjálfsögðu erum við með fullt af skuldbindingum í hagkerfinu nú þegar sem eru samningsbundnar með verðtryggingu þannig að væntanlega er ekki hægt að afnema hana nema í áföngum á nýjum skuldbindingum og hugsanlega hægt að stíga ákveðin skref með því að lengja þann tíma sem lágmarkstími fyrir verðtryggingu skuldbindingar er. Í eina tíð var lágmarkið þrjú ár ef ég man rétt og var síðan lengt í fimm ár og það má dreifa því áfram með breytingum á því til þess að afnema verðtrygginguna til lengri tíma litið. Ég held að í augum alls almennings í landinu sé verðtryggingin eitthvað sem á að fara.

Við sjáum það núna við þær erfiðu aðstæður sem eru í efnahagslífinu, þegar kaupmáttur dregst saman, þegar atvinnuleysi eykst og fólk er að missa vinnu sína í miklum mæli og verðbólgan er á hraðri uppleið, að þá sverfur að og þá er það þetta sem fólk finnur mest fyrir. Það er að afborganirnar af húsnæðislánunum hækka hér dag frá degi og fólk lendir í miklum hremmingum og miklum erfiðleikum með að standa í skilum.

Þess vegna er geysilega mikilvægt að við með einhverju móti getum komið til móts við fjölskyldurnar með því að takmarka hækkun húsnæðislánanna í takt við vísitöluna. Það er rétt sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti á í máli sínu að það hefur verið fundin aðferð til þess að frysta verðhækkun eða vísitöluhækkun í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Hið sama á að gera gagnvart launum bænda, með því að rjúfa búvörusamninginn með tilteknum hætti.

Við munum að á níunda áratugnum var búinn til ákveðinn misgengishópur þegar launavísitalan var tekin úr sambandi en vísitalan á skuldbindingarnar fékk að halda sér og tikka áfram dag frá degi. Þessar aðferðir eru því þekktar. Þær hafa verið notaðar en nú er sagt að það megi ekki nota þær á skuldbindingar heimilanna í landinu, að betra sé að láta fjölskyldurnar lenda í þroti jafnvel í gjaldþroti vegna þessara aðstæðna.

Ég tel að þegar slíkar aðstæður hafa skapast í samfélaginu þá sé óhjákvæmilegt fyrir ríkisvaldið að taka á þessum vanda ekki með því að velta honum bara á undan sér og velta skuldbindingunum aftur fyrir og láta fólk borga þær síðar og bæta þeim við höfuðstólinn þannig að þær safni vöxtum. Vextirnir safna vöxtum og afborganirnar sem á að fresta safna líka vöxtum. Þetta er leið sem ríkisstjórnin ákvað að fara og getur gagnast í einhverjum tilvikum en er alls ekki nægjanleg fyrir þorra heimila í landinu.

Við sjáum því miður fram á að fjöldinn allur af fjölskyldum mun lenda í geysilega miklum erfiðleikum vegna samdráttar á vinnumarkaði og minnkandi kaupmáttar og fólk veit ekki í hvorn fótinn það á að stíga. Fólk veit ekki sitt rjúkandi ráð. Fjölskyldur sem hafa ekkert til þess unnið annað en að búa hér og starfa á Íslandi. Hafa ekkert til þess unnið en lenda óforvarandis í þessum hremmingum að geta ekki staðið í skilum með húsnæðislánin sín og geta sig í raun hvergi hreyft. Fólk er hér skuldbundið með húsnæði, með börn í skólum og getur sig hvergi hreyft.

Þess vegna er óhjákvæmilegt að ríkisstjórnin taki á þessum vanda og í umræðu ekki fyrir löngu síðan þegar þessu máli var hreyft hér þá var sagt: Það kostar 240 milljarða að frysta verðtrygginguna á húsnæðislánunum í eitt ár frá júlí á þessu ári til júlí á næsta ári. Það kostar 240 milljarða. Þetta er of dýrt og þess vegna er það ekki gert.

En á meðan þá er fjöldinn allur af fjölskyldum hrakinn út í verulega greiðsluerfiðleika og jafnvel gjaldþrot. Það getur ekki þjónað hagsmunum samfélagsins að svoleiðis sé staðið að málum. Og þó að það kosti 240 milljarða þá segi ég: Þetta er hlutur sem verður að taka á þó að það sé ekki endilega til heils árs, til tólf mánaða, þó það sé ekki að fullu þá verður með einhverju móti að koma til móts við þennan stóra og vaxandi hóp í samfélaginu. Því það getur engum verið greiði gerður með því og síst samfélaginu sjálfu að koma fólki í þessa stöðu.

Verðtryggingin og þeir háu vextir sem við glímum við er eitthvað sem verður að vinna á. Og þrátt fyrir að sú breyting sem felst í því frumvarpi sem hér er til umræðu sé til bóta þá er langt í frá að hér sé nægjanlega komið til móts við landsmenn, við allan almenning í landinu og við atvinnulífið. Því atvinnulífið er líka að glíma við þessa háu vexti sem enginn getur borið. Ekkert atvinnulíf ber þessa háu vexti og það vitum við. Það segja þingmenn úr öllum flokkum. Þess vegna verður að taka á því.

Þess vegna hef ég áhyggjur af því að við förum heim fyrir jól án þess að hafa tekið á þessum vanda. Þessum raunverulega stóra vanda og þing kemur ekki saman á nýjan leik fyrr en um miðjan janúar, ef að líkum lætur. Ég hef áhyggjur af þessu og ég tel að það sé skylda okkar og miklu meiri skylda okkar þingmanna að taka á þessu máli en að senda inn umsókn til Brussel um aðild að Evrópusambandinu. Vegna þess að það er hér og nú sem eldurinn brennur. Og hann verður ekki slökktur með einhverjum bréfaskriftum til Brussel sem taka marga mánuði og missiri.

Þess vegna skora ég á þingheim og náttúrlega fyrst og fremst ríkisstjórnina að sýna frumkvæði í þessu efni og taka á vandanum. Mæta fjölskyldunum og fyrirtækjunum í landinu með því að lækka vexti og með því að frysta verðtrygginguna, a.m.k. að einhverjum hluta og a.m.k. til einhverra mánaða til að tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki algerlega og til að tryggja að fjölskyldur lendi ekki unnvörpum í greiðsluþroti og gjaldþroti.