Vextir og verðtrygging

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 16:52:47 (2560)


136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

vextir og verðtrygging.

237. mál
[16:52]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Þetta mál er hluti af svokallaðri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar sem var auglýst með fjálglegum hætti á heilsíðum í öllum blöðum landsins þann 14. nóvember síðastliðinn. Frumvarpið sem við ræðum hér miðar að því að lækka álag Seðlabankans og lækka þannig mjög háa dráttarvexti sem fyrir eru.

Þetta mál er í eðli sínu ekki flókið og það vekur því athygli mína að það hefur tekið rúman mánuð fyrir ríkisstjórnina að koma því inn í þingsali. Á meðan eru skuldir heimilanna slíkar að þær hafa trúlega aldrei verið hærri, verðbólgan hefur ekki verið hærri og ástandið á vinnumarkaðnum hefur ekki verið verra í lengri tíma. Það hefði því verið brýnt, í kjölfar þess að ríkisstjórnin tilkynnti um þessa merku áætlun sína, að hafa hröð handtök á og koma með svo mikilvægt mál sem hér um ræðir inn í sali Alþingis, en við ræðum það hér rúmum mánuði síðar á meðan heimilin í landinu kljást við mikla erfiðleika eins og við þekkjum öll.

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á því að frumvarpið mun hafa þau áhrif, samkvæmt tilkynningu frá Seðlabanka Íslands, að dráttarvextir munu fara úr 26,5% niður í 25%. Það er á mörkunum að maður trúi þessum tölum, því að ég ræddi fyrr í dag um námsmenn sem bíða eftir að fá lán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna en vegna þess að það er eftirágreitt þurfa þeir að fjármagna sig með yfirdráttarvöxtum sem eru 25%. Það er mjög alvarlegt mál að þetta skuli vera með þessum hætti í ljósi þess að skuldir og yfirdráttarlán heimilanna eru mjög mikil.

Við í viðskiptanefnd þingsins afgreiddum á dögunum, og það er hluti af þessu máli, svokölluð haftalög þar sem sett voru höft á gjaldeyrisviðskipti á Íslandi. Með þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum þá var það fjármagn, m.a. erlenda aðila, sem er hér á landi í raun og veru fryst í landinu. Það voru sem sagt settar hömlur á það með mjög umdeildum lögum að fjármagn færi úr landinu. Það kom í ljós á fundi viðskiptanefndar að ekkert samráð hafði verið haft við lykilaðila í íslensku samfélagi, aðila vinnumarkaðarins sem komu á fund nefndarinnar og lýstu yfir megnri óánægju með að ekkert samráð skyldi hafa verið haft við þá vegna þessara umdeildu laga sem færðu í raun þjóðfélagið aftur um áratugi. Við erum aftur komin til ára hafta og gjaldeyrisskömmtunar, eitthvað sem ég hefði aldrei trúað að við mundum upplifa. Nú er svo komið að embættismenn og jafnvel stjórnmálamenn eru farnir að hafa þau völd að geta valið á milli þess hver fær gjaldeyri og hver ekki. Og ég vonast til þess, hæstv. forseti, að við komum okkur út úr þessu hjólfari sem allra fyrst.

En ég spyr, í ljósi þess að háir stýrivextir eru til þess fallnir að halda fjármagni í landinu og laða fjármagn til landsins, hvort það sé virkilega þörf á því að íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili þurfi að búa við 18% stýrivexti. Það eru gjaldeyrishöft í gangi og fyrst ríkisstjórnin valdi þá leið spyr maður sig að því hvort nauðsynlegt sé að hafa 18% stýrivexti á Íslandi í dag.

Ég spyr: Úr því að ríkisstjórnin ákvað, reyndar án samráðs við aðila innan lands, að fara í slíka haftastefnu af hverju í ósköpunum lækka menn þá ekki stýrivextina? Það er alveg ljóst að fyrirtækjunum og heimilunum í landinu blæðir. Staðreyndin er sú að stór hluti fyrirtækja í landinu er tæknilega gjaldþrota í dag. Gerir ríkisstjórnin íslensku atvinnulífi virkilega greiða með því að viðhalda himinháum stýrivöxtum?

Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og ef við tölum um vexti og stýrivexti þá hljótum við að spyrja stjórnarliða á þingi af hverju þeir grípa ekki til aðgerða til að lækka stýrivextina. Við höfum sagt hér í marga mánuði, á annað ár, að íslenskt atvinnulíf gæti ekki búið við þetta vaxtastig. Það er alveg ljóst. Á það hefur ekki verið hlustað.

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn styðjum það frumvarp sem við ræðum hér en hins vegar er óhjákvæmilegt að benda á hina raunverulegu heildarmynd sem blasir við heimilunum og fyrirtækjunum. Við búum við eina hæstu stýrivexti í heimi og í ljósi þess að gjaldeyrishöft hafa verið sett á hljótum við að gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún lækki þessa vexti til hagsbóta fyrir heimilin og fyrirtækin. Það eru engir tilburðir til þess hjá ríkisstjórninni, því miður. En af því að verið er að ræða hér um vexti og síðan um verðtryggingu sem er verðbólgan hljótum við að velta því fyrir okkur, hv. þingmenn, hvað ríkisstjórninni gangi þá til að koma með tillögur sem gera það eitt að hækka verðbólguna. Síðast í þessari viku urðum við vitni að því að ríkisstjórnin ákvað að taka 800 millj. kr. af búvörusamningum við bændur, 800 millj. kr. af undirskrifuðum samningum með því að skerða verðtrygginguna. Og hvað gerist, hæstv. forseti, þegar tekjur bænda lækka um 800 millj. kr. eins og raun ber vitni og ríkisstjórnin hefur ákveðið? Jú, við vitum að bændur eru ekki burðugasta stétt landsins, ekki með miklar tekjur og oftar en ekki miklar skuldir sem hvíla á viðkomandi býlum. Bændur þurfa því að velta þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar út í verðlagið, 800 millj., sem mun leiða til þess að verð á nauðsynjavörum, landbúnaðarvörum mun hækka. Hvað leiðir það af sér? Verðbólgan mun hækka. Verðbólgan er hátt í 20%, stýrivextir eru 18%, hvernig eiga skuldug íslensk heimili og fyrirtæki að standa undir þessu? Og samkvæmt þeim bandormi sem við ræddum á Alþingi í gær er ríkisstjórnin að hækka álögur og gjöld á alla þjóðfélagshópa sem í framhaldinu mun skila sér út í verðlagið. Ég held að við þurfum að horfa á þessi mál í víðu samhengi. Þó að við ræðum hér ágætt mál sem mun lækka stýrivexti um heil 1,5% um áramótin þá stuðlar ríkisstjórnin um leið að hækkandi verðbólgu og sýnir enga tilburði til þess að lækka stýrivexti hjá Seðlabanka Íslands. Við hljótum að kalla eftir því að ríkisstjórnin taki sér tak og komi með einhverjar raunverulegar aðgerðir til að bæta þá erfiðu stöðu sem uppi er.

Atvinnuleysi eykst hröðum skrefum kannski m.a. vegna þess að starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja í dag, með himinháa vexti, er með þeim hætti að þar þarf að draga saman og fólk missir atvinnuna. Heimilin missa framfærslutekjur og heimilin eru þá væntanlega í síauknum mæli að auka við yfirdráttarlán sín. Við erum að tala um lánakjör upp á 25% frá og með næstu áramótum. Hvernig eiga íslensk heimili að geta staðið undir þessu þegar tekjurnar lækka og vextirnir eru með þessum hætti?

Í umsögn efnahags- og skattanefndar um fjárlagafrumvarpið hvað varðar tekjuhlið þess kom fram á fundi í gær að tekjuskerðing almennings á næsta ári, íslenskra heimila, verði 14–15%. Reyndar telja margir sérfræðingar að ríkisstjórnin sé fullbjartsýn hvað þetta snertir. Þegar ég sé hér hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur minnist ég þess að hæstv. félagsmálaráðherra sagði í gær að ríkisstjórnin mætti þó eiga það að staðinn yrði vörður um húsaleigubætur og vaxtabætur til hagsbóta fyrir fjölskyldurnar í landinu, þá vek ég athygli á því að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eiga þær að hækka um 5% á næsta ári. En hver á verðlagsþróunin að vera þá? 15%. Það er verið að skerða vaxta- og húsaleigubætur fjölskyldna um 10%. Það er nú afrek ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki ofan á aðra lífskjaraskerðingu sem blasir við. Og ríkisstjórnin auglýsir á heilsíðum aðgerðaáætlun til bjargar heimilunum. Ég held að þessi ríkisstjórn hafi ekki heildarmynd af því hvað er að gerast í samfélaginu. Ég held að hún hlusti ekki á raddir fólksins. Ég held til að mynda að ríkisstjórnin hlusti ekki á samtök aldraðra og öryrkja en samkvæmt bandorminum sem við ræddum í gær er verið að skerða kjör aldraðra og öryrkja um 3,9 milljarða kr. Er það sá hópur í samfélaginu sem má við því að kjör þeirra skerðist með þeim hætti? Ég segi nei.

Hæstv. forseti. Þó að ég styðji það frumvarp sem við ræðum hér get ég með engu móti stutt það hvernig ríkisstjórnin hefur hagað störfum sínum undanfarna rúma tvo mánuði. Hugsa sér að þjóð sem var talin fimmta ríkasta þjóð í veröldinni fyrir einungis tveimur og hálfum mánuði skuli nú vera orðin ein skuldugasta þjóð veraldar.

Við horfum til þess að heimilin og fyrirtækin eiga að búa við um 20% verðbólgu næstu 12 mánuðina, 15–20% verðbólgu, og 18% stýrivexti, eina hæstu vexti í heimi, á sama tíma og vaxtabætur og barnabætur og tekjur heimilanna skerðast verulega. Hvernig á þetta dæmi að ganga upp, hæstv. forseti?

Það er verulega mikið áhyggjuefni hvernig ríkisstjórnarflokkarnir hafa haldið utan um fjárlagagerðina núna. Ég held að fara þurfi ansi mörg ár aftur í tímann til að verða vitni að öðru eins verklagi og við höfum mátt horfa upp á nú. Frumvarp til fjárlaga er lagt fram til 1. umr. og þá á Alþingi Íslendinga að taka við keflinu og fara yfir frumvarpið á sínum vegum, koma með tillögur til 2. umr. sem ræddar eru mjög ítarlega og eftir atvikum aftur með tillögur til 3. umr. og lokaafgreiðslu. Nú var þetta þannig að fjárlagafrumvarp var að venju lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar. Síðan gerðust þeir svakalegu atburðir að fjármálakerfið hrundi. Þá gerði ríkisstjórnin sér lítið fyrir og tók við fjárlagafrumvarpinu aftur, væntanlega til að afgreiða það til 2. umr., og sendi síðan tillögurnar til fjárlaganefndar sem meiri hlutinn afgreiddi til 2. umr. án þess að Alþingi hefði nokkra aðkomu að ákvarðanatöku er varða fjárlög íslenska ríkisins. Það er svo gjörsamlega valtað yfir Alþingi Íslendinga af hálfu framkvæmdarvaldsins að það tekur ekki nokkru tali. Það er verulega sorglegt að horfa upp á þessa atburðarás.

Hæstv. forseti. Við hljótum að velta fyrir okkur stöðu Alþingis í þessu og hvort ekki hefði verið betra í aðdraganda bankahrunsins og fyrstu vikunum þar á eftir að Alþingi hefði haft einhverja aðkomu að ákvarðanatöku. Staðreyndin er sú að framkvæmdarvaldið kemur með tilbúin frumvörp inn á Alþingi og lítur á Alþingi Íslendinga sem formlega afgreiðslustofnun. Hér hafa öll frumvörp ríkisstjórnarinnar runnið í gegn og oftar en ekki í skjóli myrkurs. Við þetta er náttúrlega ekki hægt að búa, hæstv. forseti.

Lítum til Bandaríkjanna, sem er ekki beint fyrirmyndarlandið sem ég lít til, en ef við horfum til þess hruns sem þar varð þá þurfti ríkisstjórn þeirra að koma á hnjánum til bandaríska þingsins til að fá heimildir fyrir því að fara í róttækar efnahagsaðgerðir. Það tók marga daga og meira að segja hafnaði þingið að lokum í fyrri umferð þeim tillögum sem ríkisstjórnin lagði á borðið.

Ég held að mörg ríki standi betur en við Íslendingar og ég held að óhætt sé að fullyrða líka, hæstv. forseti, að margar þjóðir hafi staðið sig betur hvað varðar ákvarðanatöku í öllu því hruni sem við horfum nú upp á. Mér finnst nauðsynlegt að ræða um þetta í ljósi þess að við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Og hvað er það sem er að ríða íslenskum heimilum og atvinnulífi að fullu? Það er verðtryggingin, há verðbólga og vextir.

Hæstv. forseti. Ég hefði kosið að hæstv. ríkisstjórn legði fram metnaðarfyllri áform en þau að lækka stýrivexti um áramótin úr 26,5% niður í 25%. Mér finnst það einfaldlega blasa við okkur öllum að íslensk heimili og fyrirtæki muni ekki standa undir þessum gríðarlegu byrðum, því miður. Fólk er að missa atvinnu í stórum stíl, ég held að við höfum einungis séð toppinn á ísjakanum í þeim efnum, atvinnulífinu blæðir í þessu ástandi, en því miður boðar ríkisstjórnin nær engar lausnir. Þvert á móti, það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera í fjárlagaumræðunni er að hækka gjaldskrár og álögur á fyrirtæki og almenning og þar er ekki á bætandi eins og staða atvinnulífsins og heimilanna er.

Staðreyndin er því miður sú að við búum við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem hefur tekist mjög óhönduglega að takast á við einn mesta efnahagsvanda sem heimilin og fyrirtækin í landinu hafa staðið frammi fyrir og það er mikil synd að búa við slíka ríkisstjórn.