Dýravernd

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 20:53:50 (2578)


136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

dýravernd.

186. mál
[20:53]
Horfa

Frsm. umhvn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um breytingar á lögum um dýravernd frá hv. umhverfisnefnd, á þskj. 378. Hér er um að ræða stjórnarfrumvarp um breytingu á lögum um dýravernd sem varðar tilraunir með dýr og felst fyrst og fremst í því annars vegar að skerpa á kröfum um menntun þeirra sem stunda slíkar tilraunir og hins vegar um gjaldtökuheimildir fyrir eftirlit með tilraunum á dýrum.

Það er niðurstaða nefndarinnar að mæla með því að frumvarpið verði samþykkt af Alþingi. En þó gerir nefndin lítils háttar breytingar á frumvarpinu sem felast í því að skerpa á kröfum um menntun þeirra sem fá að stunda tilraunir á dýrum á Íslandi. Bæði að þeir hafi sótt sérstök námskeið þar um og sömuleiðis að þeir hafi framhaldsgráður úr háskóla á sínu sviði er varða þær tilraunir sem um ræðir.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar bæði frá tilraunadýranefnd, frá dýraverndarráði og svo dýraverndunarsambandi Íslands. Þetta er eitt af fjölmörgum skiptum á undanförnum mörgum árum sem gerðar eru breytingar á lögum um dýravernd og löngu tímabært að ráðast í heildarendurskoðun laganna.

Það hefur áður komið fram af hálfu umhverfisnefndar og nú hefur verið settur starfshópur til þess að vinna að heildarendurskoðun laganna til þess að taka á dýraverndarmálum í landinu í heild sinni. En þess má geta að í umsögnum um málið m.a. frá Samtökum atvinnulífsins var lögð áhersla á mikilvægi þess að einfalda eftirlitskerfið í þessu efni til þess að tryggja betri skilvirkni þar að lútandi.