Dýravernd

Fimmtudaginn 18. desember 2008, kl. 20:56:11 (2579)


136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

dýravernd.

186. mál
[20:56]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Bara örstutt um það mál sem hér er til umræðu og hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður umhverfisnefndar, hefur gert grein fyrir nefndarálitinu. Ég á sæti í hv. umhverfisnefnd og skrifaði undir þetta nefndarálit með fyrirvara þó. Það gerði einnig hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir og ég vil í stuttu máli gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við afgreiðslu þessa máls.

Ég er í meginatriðum sammála efni frumvarpsins og þeim breytingartillögum sem koma fram í nefndaráliti á þskj. 378. Ég vil þó vekja athygli á umsögnum um þetta mál frá aðilum sem starfa á þessu sviði talsvert með tilraunadýr, ég nefni sérstaklega umsögn frá Bændasamtökum Íslands og umsögn frá tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum þar sem umsjónardýralæknir tilraunadýrahalds skrifar umsögn. Þar er vakin athygli á því að í breytingartillögunum sé gert ráð fyrir að við bætist eftirlit tilraunadýranefndar og gjaldtökuheimild vegna þessa og þar er mótmælt auknum álögum á þá sem stunda dýratilraunir sem þessar breytingartillögur hafa í för með sér. Sambærilegar athugasemdir koma fram í athugasemdum með umsögn Bændasamtaka Íslands þar sem vakið er máls á því að þar sem aðeins séu 30 leyfi til dýratilrauna á ári þá virðist kostnaður af starfi tilraunadýranefndar vera nokkuð hár eins og segir í umsögn Bændasamtakanna. Þar segir líka að mikilvægt sé að dýraverndunarsjónarmið séu virt án íþyngjandi kostnaðar við veitingu leyfa og eftirlits.

Fyrirvari minn lýtur í raun og veru fyrst og fremst að þessu því ég tel mikilvægt að þeim aðilum sem stunda rannsóknir og nota tilraunadýr í rannsóknarskyni sé ekki gert óhægt um vik með of mikilli gjaldtöku. Tilraunadýr er mikilvægur liður í rannsóknarstarfsemi bæði að því er varðar heilbrigði manna og dýra og eru stundaðar víða í rannsóknarstofnunum hér á landi. Ég held að það sé mikilvægt að við stöndum þannig að málum að þessir aðilar geti sinnt þeim án þess að á þá sé lagður sérstakur aukakostnaður eða kostnaður sem mætti segja að væri óþarfur. Ég leyfi mér því að gera fyrirvara við þetta nefndarálit hvað þessi atriði varðar og vil gjarnan halda þeim fyrirvara hér til haga í þessari umræðu.