Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 14:34:24 (2824)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekkert viðkvæmt mál af minni hálfu en rétt skal vera rétt. Það er um að gera að hlutirnir liggi fyrir nákvæmlega eins og þeir eru og það sem ég rakti hér áðan eru staðreyndir.

Það stóð nú reyndar þannig á að þegar frumvarpið kom fram voru örfáir sólarhringar eftir að þinghaldinu, ef ég man rétt. Þetta var nú hálfgerð næturvinna og unnin í miklum flýti eins og stundum er gert en er aldrei til eftirbreytni. Ég var þá reyndar ekki á þingi heldur við kosningaeftirlit í Rússlandi og var á leiðinni til landsins daginn sem frumvarpið var flutt, ef ég man rétt. Ég sá það ekki í endanlegri gerð fyrr en því hafði verið dreift á þinginu.

Ég er ekki viss um, þó að maður eigi auðvitað aldrei að gefa sér að menn standi kannski að einhverju leyti að hlutum sem þeir hafa ekki skoðað ofan í kjölinn, að allir hafi áttað sig á því hvað í frumvarpinu var fyrr en það birtist mönnum hér á borðum þingmanna og í ljós kom hversu langt var gengið, sérstaklega varðandi stóraukinn eftirlaunarétt ráðherra.

Umræðan var auðvitað öll mjög á skjön því að (Forseti hringir.) þegar upp var staðið var frumvarpið ekki um aukningu eftirlaunaréttar þingmanna eins og svo gjarnan er (Forseti hringir.) svo talað um heldur fyrst og fremst ráðherra.