Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:05:27 (2831)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get byrjað á að taka undir tvennt í máli hv. þingmanns. Í fyrsta lagi get ég tekið undir að það er heldur fátítt að þingmál frá stjórnarandstöðunni fái framgang í þinginu. Við höfum mörg verið í þeirri stöðu, ekki bara hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson heldur fleiri, þeir sem eru í stjórn núna hafa líka verið í stjórnarandstöðu og öfugt. Hitt er svo líka hægt að taka undir að stundum mætti vanda betur til málatilbúnaðar og umfjöllunar um þingmál í nefndum. Allt er þetta satt og rétt. Það breytir ekki því að stjórnarandstaða hlýtur að halda áfram að sýna fyrir hvað hún stendur og hvaða stefnu hún hefur í einstökum málum, jafnvel þó svo að hún geri ráð fyrir að málin sem hún er að leggja fram fái ekki framgang. Það sem ég er að benda á er að í öll þau ár sem liðin eru, þessi fimm ár, hefur stjórnarandstaða eða stjórnarflokkar á þinginu ekki fyrr en núna, og ekki fyrr en Samfylkingin gerði það í þau tvö skipti sem ég tiltók, sýnt á spilin, sýnt hvaða stefnu menn hefðu og hvert þeir vildu stefna með þessi eftirlaunakjör. Það hafa ekki komið fram frumvörp frá öðrum en þeim þingmönnum sem ég tiltók þar sem menn sýna fram á hvert þeir vildu stefna í málinu. Það er staðreynd málsins.