Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:11:53 (2835)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að það er mikið nærbuxnatal í hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar þessa dagana, bæði hjá þingmanninum Siv Friðleifsdóttur og eins var um daginn hjá þingmanninum Álfheiði Ingadóttur og merkilegt hvað þetta leitar á huga þeirra þessa dagana. Ég veit ekki hvort það er löngunin eftir að komast í jólafrí sem því ræður.

Virðulegur forseti. Það er rétt að verkin tala og það er þess vegna sem þetta frumvarp er fram komið í góðri sátt milli stjórnarflokkanna sem leggja það fram til að sýna hvert þeir vilja fara í þeim efnum að draga úr forréttindum ráðherra, þingmanna og hæstaréttardómara. Framsókn, hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, beitti sér fyrir því að ná samkomulagi um þetta mál en það samkomulag gekk mjög skammt og því er það alveg rétt sem þingmaðurinn sagði að ég beitti mér gegn því vegna þess að það samkomulag fól ekki í sér að það ætti á neinn hátt að hrófla við réttindaávinnslu ráðherra. Það átti ekki að hrófla neitt við réttindaávinnslu ráðherra í því frumvarpi. Það var ekkert um það í því frumvarpi hjá hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Halldóri Ásgrímssyni. Þar af leiðandi beitti ég mér gegn því og var ekki tilbúin til að taka þátt í því samkomulagi. Það geta þeir staðfest sem voru á þeim fundum að ekki stóð til að hrófla við réttindaávinnslu ráðherra, hvorki forsætisráðherra né ráðherra almennt. (Gripið fram í.) Já.