Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 20. desember 2008, kl. 15:13:22 (2836)


136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[15:13]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í samræmi við það sem kom fram hjá hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur áðan en ég ætla ekki að elta ólar við það frekar.

Vinnubrögð Samfylkingarinnar eru þess eðlis — það þarf ekkert að tala um nærbrækur sérstaklega í því sambandi, maður getur alveg eins sagt að vinnubrögð í svona viðkvæmu máli sem búið er að rífast í botn út af í kosningabaráttu og við fjölmörg önnur tækifæri, þegar Samfylkingin fer ein fram með mál sem eru í stjórnarsáttmála þá er það eins og að rassskella samstarfsflokkinn á beran bossann. [Hlátrasköll í þingsal.] Það er ígildi þess. Þetta er svo mikið hneyksli, þetta sýnir svo ofboðslega mikla fyrirlitningu á samstarfsflokknum mundi ég segja, virðulegi forseti. Þetta sýnir sýndarmennsku af æðstu gráðu og þess vegna spyr ég og hæstv. utanríkisráðherra svaraði því ekki: Má búast við að Samfylkingin taki fleiri mál og (Forseti hringir.) flytji ein ef það er röksemdafærslan fyrir því að ná árangri?