Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 88. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 93  —  88. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um umhverfisstefnu Alþingis.

Flm.: Kolbrún Halldórsdóttir, Atli Gíslason,


Guðmundur Magnússon, Katrín Jakobsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela forsætisnefnd að setja á stofn starfshóp sem fái það verkefni að gera tillögu að umhverfisstefnu fyrir Alþingi Íslendinga. Hópurinn verði skipaður fulltrúum þingflokka, yfirstjórnar þingsins og starfsmannafélags Alþingis. Hópurinn byggi vinnu sína m.a. á stefnumörkun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi til 2020, stefnunni um sjálfbær Norðurlönd og Staðardagskrá 21. Í vinnu sinni taki hópurinn til skoðunar umhverfisstefnu annarra norrænna þjóðþinga og fyrirliggjandi tillögu um umhverfisstefnu fyrir Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina. Starfshópurinn ráði sér starfsmann sem er sérfróður á þessu sviði. Starfshópurinn skili tillögum sínum til forsætisnefndar eigi síðar en í janúar 2009. Forseti leggi fullbúna tillögu að umhverfisstefnu fyrir Alþingi til staðfestingar á vorþingi 2009.

Greinargerð.


    Í stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi til 2020 er fjallað um ábyrgðina sem m.a. opinberir aðilar bera gagnvart því að efla umhverfisvernd og lífsgæði. Virkasta tækið á þeirri vegferð er meðvitund borgaranna um að hluti ábyrgðarinnar hvíli á herðum hvers og eins. Til að vekja slíka meðvitund þarf markvisst fræðslustarf, sem gerð er grein fyrir í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar, en jafnframt þarf að skapa góð fordæmi. Flestum er ljós hin sameiginlega ábyrgð sem mannkyn ber á velferð jarðarinnar, en til að axla þá ábyrgð þarf að bregðast við í nærumhverfinu. Verkefninu Staðardagskrá 21 er ætlað að marka stefnu sveitarfélaganna í þessu tilliti. Samkvæmt því þurfa stofnanir og fyrirtæki, jafnt opinber sem einkarekin, að marka sér sjálfstæða stefnu, hvert og eitt innan ramma síns atvinnuvegar. Til að auðvelda þetta hafa verið þróuð umhverfisstjórnunarkerfi fyrir mismunandi fyrirtæki og starfsemi sem markast af alþjóðlegum stöðlum, dæmi um það eru ISO-staðlarnir. En ekki hentar alls staðar að vinna samkvæmt slíkum kerfum og nægir þá að setja fram stefnu sem tekur mið af afmarkaðri starfsemi viðkomandi stofnunar, fyrirtækis eða einingar.
    Á vettvangi norrænnar samvinnu hefur verið mörkuð stefna um sjálfbær Norðurlönd. Hún byggist á samþykkt forsætisráðherra Norðurlanda frá 9. nóvember 1998. Í henni segir m.a. að ráðherrarnir séu sammála um að skapa þurfi sterka vitund í samfélaginu um ráðstafanir og ferli sem leiða til sjálfbærrar þróunar. Einnig að samþætta þurfi grundvallarreglur sjálfbærrar þróunar í starfi allra geira samfélagsins. Meðal þess sem ríkisstjórnir á Norðurlöndum hafa gert til að efla almenna vitund um ábyrgð í umhverfismálum og tryggja samþættingu grundvallarreglna sjálfbærrar þróunar við líf og störf borgaranna er að útbúa stefnu fyrir hverja og eina opinbera stofnun, þ.m.t. ráðuneyti og þjóðþing. Norrænu þjóðþingin hafa öll nema hið íslenska markað sér umhverfisstefnu eða eru í þann mund að ljúka slíkri stefnumörkun og á vettvangi Norðurlandaráðs liggur nú fyrir tillaga um opinbera stefnumörkun í umhverfismálum fyrir Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina. Samkvæmt henni er gert ráð fyrir að þessar norrænu stofnanir marki stefnu um alla þætti starfseminnar sem hafa áhrif á umhverfið, þ.m.t. ferðamáta starfsmanna jafnt innan lands sem utan, orku- og vatnsnotkun, meðferð pappírs, sorpflokkun og meðferð úrgangs. Í þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að fyrrgreind stefnumörkun og hugmyndir verði hafðar til hliðsjónar við mörkun umhverfisstefnu fyrir Alþingi.
    Þann 11. september sl. setti umhverfisráðuneytið sér formlega umhverfisstefnu, fyrst ráðuneyta. Samkvæmt henni mun ráðuneytið meðal annars halda grænt bókhald og gefa út ársskýrslur um stöðu umhverfismála í ráðuneytinu. Þá mun sérstakt umhverfisteymi fylgjast með framkvæmd stefnunnar og eftir atvikum koma með ábendingar um endurskoðun hennar. Loks er gert ráð fyrir því að komið verði á vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi og stefnt að vottun eigi síðar en í mars 2011. Allt er þetta til fyrirmyndar og verður öðrum ráðuneytum vonandi hvatning, en auðvitað hefði þurft að grípa til þessara ráðstafana miklu fyrr, slíkt hefði verið í samræmi við fyrri yfirlýsingar stjórnvalda.
    Árið 1997 gaf umhverfisráðuneytið út bæklinginn Umhverfisstefna í ríkisrekstri. Hjá Ríkisendurskoðun var í byrjun árs 1999 hrint af stokkunum umhverfisendurskoðun og var eitt fyrsta verkefnið að skoða hvernig þeirri umhverfisstefnu hafði verið framfylgt. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um þá athugun, sem gefin var út í janúar árið 2000, kemur fram alvarleg gagnrýni á framfylgd stefnunnar og ljóst að víðast skorti á að stefnan hefði fengið þann forgang og áherslu af hendi stjórnenda sem hefði þurft til að tryggja árangur. Ekki hefur mikið heyrst af Umhverfisstefnu í ríkisrekstri síðan skýrsla Ríkisendurskoðunar var gefin út.
    Alþingi Íslendinga er sú stofnun sem ætti að vera í fararbroddi hvað umhverfismál varðar og er því orðið löngu tímabært að þar verði samþykkt umhverfisstefna. Í október 2001 skrifaði fyrsti flutningsmaður þessarar tillögu bréf til forsætisnefndar Alþingis og spurðist fyrir um með hvaða hætti markmiðum Umhverfisstefnu í ríkisrekstri væri framfylgt á Alþingi. Spurt var um innkaupastefnu, meðferð úrgangs, ekki síst pappírs, og um kynningu stefnunnar meðal starfsfólks. Svar barst frá forsætisnefnd 11. febrúar 2002 þar sem fram kemur að ekki hafi verið talin ástæða til að gefa út sérstaka umhverfisstefnu fyrir Alþingi, þó að sé unnið samkvæmt grófu pappírsflokkunarkerfi hvað varðar meðhöndlun pappírs til förgunar. Það kerfi hafi hins vegar ekki gefist sem skyldi enda misjafn áhugi manna á slíkri flokkun. Á það er bent að skrifstofa Alþingis hafi einungis boðvald yfir starfsfólki þingsins en ekki þingmönnum og einnig að aðstaða til pappírsflokkunar sé misjöfn í húsum Alþingis, ekki sé hægt að koma fyrir pappírsflokkunargámum við öll húsin.
    Síðan þetta svar var gefið eru liðin tæp sjö ár og hefur lítið breyst hvað varðar eftirfylgni Umhverfisstefnu í ríkisrekstri. Því er þessi þingsályktunartillaga flutt. Það er mikilvægt að allir leggist á eitt við að draga úr hvers konar sóun og álagi á umhverfið. Það gerum við best með því að efla meðvitund um val á vistvænum vörum og þjónustu, og með því að setja almennar reglur sem hvetja til breyttra neysluhátta. Vilji til að standa í fremstu röð í umhverfismálum þarf að endurspeglast í framgöngu opinberra stofnana. Alþingi þarf að ganga þar í fararbroddi.