Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 342. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 583  —  342. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Flm.: Atli Gíslason, Ágúst Ólafur Ágústsson, Álfheiður Ingadóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman, Katrín Júlíusdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Siv Friðleifsdóttir,
Eygló Harðardóttir, Helga Sigrún Harðardóttir.


1. gr.

    Við 206. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, 1. og 2. mgr., svohljóðandi:
    Hver sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
    Hver sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi barns undir 18 ára aldri skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


I.


    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um refsinæmi þess að kaupa vændi þannig að hver sá sem greiðir eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Jafnframt er lagt til að ef greitt er fyrir vændi barns yngra en 18 ár varði það þyngri refsingu, allt að tveggja ára fangelsi. Ekki skiptir máli í hvaða formi greiðslan er. Hún getur verið peningar, áfengi eða fíkniefni, hlutir eða eitthvert viðvik, greiði eða þjónusta. Þá er ekki áskilið að greiðslan eða loforð um hana renni til þess sem veitir þjónustuna enda háttsemi milligöngumanns refsiverð skv. 4. mgr. 206. gr. hegningarlaga. Að sama skapi er athæfið saknæmt ef vændið er keypt fyrir þriðja aðila. Er frumvarpinu ætlað að lögfesta svokalla sænska leið sem gerir kaup á vændi refsivert en Norðmenn fetuðu nýlega í fótspor Svía með því að kveða á um refsinæmi þess að kaupa vændi.

II.

    Sú leið var farin í Svíþjóð með lögum nr. 408/1998, om förbud mot köp af sexuella tjänster, að gera kaup á vændi refsinæmt þannig að það varði fangelsi allt að sex mánuðum. Löggjöf af þessu tagi er því oft nefnd sænska leiðin og miðar við að það sé hlutverk löggjafans að sporna við sölu á kynlífi, enda sé ekki ásættanlegt að líta á mannslíkamann sem söluvöru. Einnig er gengið út frá því að ábyrgðin af viðskiptunum hvíli á herðum kaupandans en ekki seljandans, enda sé aðstöðumunur þeirra ævinlega mikill. Loks er litið svo á að það sé kaupandinn sem í krafti peninganna hafi eiginlegt val um að kaupa eða kaupa ekki, enda staða hans í langflestum tilvikum miklum mun sterkari en staða þess sem selur aðgang að líkama sínum til kynlífsathafna. Svíar gerðu breytingar á kynferðisbrotakafla sænsku hegningarlaganna (Brottsbalk 1962:700) árið 2005 og settu inn refsiþyngingarákvæði þannig að kaup á kynlífsþjónustu (s. köp af sexuell tjänst) með barni sætti fangelsi allt að tveimur árum.
    Í lok síðasta árs var sænska leiðin lögfest í Noregi með lögum nr. 104/2008, om endringer i straffeloven 1902 og straffeprosessloven (kriminalisering av kjøp av seksuell omgang eller handling mv.) og kaup á vændi gert refsivert. Norðmenn lögfestu þar sömu reglu og Svíar hvað varðar kaup á vændi barns undir 18 ára aldri þannig að það varði helmingi þyngri refsingu en ef um fullorðinn einstakling er að ræða.
    Í 4. mgr. 202. gr. hegningarlaga er nú þegar kveðið á um að sá sem greiðir barni eða ungmenni yngra en 18 ára endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök skuli sæta allt að tveggja ára fangelsi. Ákvæðið var lögfest með lögum árið 2002 og í greinargerð segir að refsinæmi brots sé bundið við að barni eða ungmenni yngra en 18 ára hafi verið greitt endurgjald gegn því að hafa við það samræði eða önnur kynferðismök. Þá segir jafnframt að engu breyti um refsinæmi verknaðar hvort endurgjald er greitt af geranda eða þriðja manni. Ákvæðið nær þó ekki til þeirra sem greiða öðrum aðila fyrir samræði eða kynferðismök með barni undir 18 ára aldri. Af þessum sökum er lagt til að lögfest sé sérstakt ákvæði um refsinæmi þess að kaupa vændi barns. Þó er ekki lögð til breyting á 202. gr. þar sem hún tekur heildstætt á kynferðisbrotum gegn börnum og þykir þetta ákvæði betur eiga heima í þeirri lagagrein sem tekur á vændi.

III.


    Frumvarp sambærilegt þessu hefur nokkrum sinnum verið lagt fyrir Alþingi. Á 130. löggjafarþingi var málið afgreitt frá allsherjarnefnd þar sem meiri hluti nefndarinnar lagði til að frumvarpið yrði samþykkt. Það komst þó ekki til annarrar umræðu. Ein breyting hefur verið gerð frá því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi þar sem nýrri málsgrein er bætt við sem kveður á um þyngri refsingu ef vændið beinist gegn barni yngra en 18 ára.
    Fjöldi umsagna hefur borist um málið þau skipti sem það hefur verið lagt fram og hefur mikill meiri hluti þeirra verið jákvæður um að málið nái fram að ganga. Á síðasta löggjafarþingi bárust allsherjarnefnd Alþingis 12 umsagnir og voru 9 þeirra jákvæðar og einn umsagnaraðili tók ekki afstöðu. Umsagnaraðilar bentu m.a. á að vændi væri ein birtingarmynd kynferðisofbeldis, það væri oftast til komið vegna neyðar og að dæmi væru um það að konur hér á landi hefðu verið neyddar til vændis. Bann við kaupum á vændi sendir jafnframt þau skilaboð í samfélagið að það sé litið alvarlegum augum að kaupa sér aðgang að líkama fólks og að ekki sé ásættanlegt á Íslandi að nýta sér neyð annarra í kynferðislegum tilgangi. Þeir umsagnaraðilar sem ekki skiluðu jákvæðum athugasemdum bentu einna helst á að sú leið að gera kaup á vændi refsivert væri umdeilanleg og ekki sönnur á því að hún væri betur til þess fallin en önnur refsiákvæði að stemma stigu við vændi. Mannréttindaskrifstofa Íslands bendir þó í umsögn sinni á rannsókn sem sænska félagsmálaráðuneytið lét gera árið 2007. Þar segir að jákvæðar afleiðingar sænsku laganna sem gerðu kaup á vændi refsinæmt séu m.a. þær að götuvændi hafi minnkað og löggjöfin hafi fyrirbyggjandi áhrif þannig að ungar stúlkur leiðist síður út í vændi. Í umsögn Rannsóknastofu Háskóla Íslands í kvenna- og kynjafræðum kom fram að mikill aðstöðumunur væri á kaupanda og seljanda vændis þar sem kaupandi hefði val um hvort hann kaupir vændið en seljandi þess hefur sjaldnast sama val þar sem vændi væri oft stundað vegna neyðar. Þá segir þar jafnframt að „erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að stærsti hluti eftirspurnar eftir vændi séu karlmenn sem „prófi“ í fáein skipti en hætti svo að kaupa vændi. […] Ef kaup á vændi verða gerð refsiverð má fastlega búast við því að umtalsvert færri „prófi“ að kaupa vændi og þar af leiðandi myndi eftirspurnin minnka umtalsvert.“

IV.


    Í mars 2007 kannaði Capacent Gallup hug landsmanna til kaupa á vændi og kom þá í ljós að 70% þjóðarinnar voru hlynnt eða mjög hlynnt því að sænska leiðin yrði farin hér á landi.
    Þess má geta að víðtækur stuðningur hefur verið meðal kvennahreyfingarinnar við að kaup á vændi verði gerð refsiverð. Haustið 2003 sendu 14 samtök þingmönnum áskorun um að leiða slíkt bann í lög. Þetta voru Bríet – félag ungra femínista, Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennakirkjan, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Neyðarmóttaka vegna nauðgunar, Stígamót, Tímaritið Vera, UNIFEM á Íslandi, Félag kvenna í læknastétt á Íslandi, Landssamband framsóknarkvenna og V-dagssamtökin. Í greinargerð með áskoruninni var lögð áhersla á tengsl klámiðnaðarins og vændis og tekið undir það sjónarmið að vændi væri kynbundið ofbeldi sem bæri að vinna gegn. Það að gera kaup á vændi refsiverð væri virk leið til varnar.