Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 417. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 709  —  417. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þings öryggis- og varnarmála í Evrópu – VES-þingsins fyrir árið 2008.

1. Inngangur.
    Þing öryggis- og varnarmála í Evrópu fjallar um málefni sem tengjast sameiginlegum öryggis- og varnarmálum álfunnar, en einkum má nefna þrjú mál sem sérstaklega voru í brennidepli í störfum þingsins árið 2008.
    Í fyrsta lagi var ítarlega fjallað um öryggi á norðurslóðum og gaf stjórnmálanefnd þingsins út skýrslu um málið annað árið í röð. Norðurskautssvæðið hefur fengið aukið vægi í umræðunni um öryggismál, m.a. sökum ríkra orkuauðlinda og möguleika á nýjum siglingaleiðum með bráðnun norðurskautsíssins. Í skýrslunni var lögð megináhersla á áhrif loftslagsbreytinga, nýtingu orkuauðlinda og öryggismál á svæðinu. Skýrsluhöfundarnir ræddu um breytt landslag norðurskautsins sem afleiðing loftslagsbreytinga og mikilvægi þess að Evrópusambandið (ESB) og NATO beindu sjónum sínum í auknum mæli að svæðinu.
    Annað mál sem hlaut mikla athygli á árinu var umræða stjórnmálanefndar þingsins um öryggismál í Evrópu eftir stríðið í Georgíu. Rætt var um að í framhaldi af átökunum í ágúst milli Rússlands og Georgíu í Suður-Ossetíu væri spenna enn til staðar og ágreiningsefni óleyst. Afleiðingar stríðsins voru greindar með hliðsjón af öryggismálum í Evrópu og jafnframt þýðing þess fyrir samband Rússlands og Vesturlanda.
    Í þriðja lagi var umræða um skýrslu varnarnefndar þingsins um stefnu Rússlands í varnarmálum fyrirferðarmikil. VES-þingið beindi m.a. tilmælum til NATO og ESB um að taka málin föstum tökum og horfast í augu við að Rússland styrktist dag frá degi. Í tilmælum þingsins er mælst til þess að ESB og NATO falist eftir umræðuvettvangi og samvinnu við Rússland m.a. um eldflaugavarnir.
    Þá voru gerðar breytingar á starfsreglum þingsins og heiti þess breytt og er það nú kallað þing öryggis- og varnarmála í Evrópu – VES-þingið. Breytingarnar tóku gildi 6. maí og endurspegla þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarin missiri, þar sem VES-þingið hefur í auknum mæli lagt áherslu á þingumræðu um sameiginlega stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Athygli VES-þingsins hefur beinst æ meir að ESB-ráðinu, sem fer með ákvörðunarvald í málum sem falla undir sameiginlega utanríkis-, öryggis- og varnarstefnu sambandsins og samanstendur af ráðherraráðinu og leiðtogaráðinu. Markmiðið var að koma á fót evrópsku öryggis- og varnarþingi, en VES-þingið hefur litið svo á að það þjóni mikilvægu lýðræðislegu hlutverki í að skapa þingræðislegan umræðuvettvang fyrir þann málaflokk. Ákjósanlegast sé að á þinginu séu fulltrúar frá öllum aðildarríkjum ESB sem hafa fulla aðild að þinginu, þ.m.t. kosningarétt. Aukaaðild hafa þau Evrópuríki sem eiga aðild að NATO en ekki ESB, sbr. Ísland.
    Jean-Pierre Masseret frá Frakklandi lét af störfum sem forseti þingsins eftir að hafa gegnt embættinu í þrjú ár. Hann sagðist telja að breyting á heiti þingsins og breytingarnar sem gerðar voru á starfsreglum þess sýni að þingið hafi aðlagast breyttu landslagi í alþjóðamálum. 3. desember var Robert Walter frá Bretlandi kosinn nýr forseti þings öryggis- og varnarmála í Evrópu, til næstu þriggja ára.

2. Almennt um Vestur-Evrópusambandið og þing öryggis- og varnarmála í Evrópu (VES-þingið).
    
Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur Evrópuríkja og var stofnað með Brussel sáttmálanum árið 1948. Þing öryggis- og varnarmála í Evrópu var stofnað árið 1954 og kom fyrst saman ári síðar þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Þingið sitja um 400 þingmenn frá 39 þjóðþingum og fer fjöldi þingmanna eftir íbúafjölda viðkomandi aðildarríkis. Ríki sem eiga aðild að NATO og/eða ESB geta átt aðild að VES. Alls eiga 28 ríki aðild að VES með mismunandi hætti og 11 ríki til viðbótar hafa aðgang að þinginu. Tíu ríki eiga það sameiginlegt að vera bæði NATO- og ESB-ríki og eru með fulla aðild að þinginu. Þau eru Belgía, Bretland, Frakkland, Holland, Lúxemborg, Ítalía og Þýskaland auk Grikklands, Portúgals og Spánar sem gerðust aðildarríki árið 1990. Ísland, Noregur og Tyrkland, sem eiga aðild að NATO en ekki ESB, eru með aukaaðild (e. associate members). Alls 10 NATO- og ESB-ríki eru með sambandsaðild (e. affiliate members), sem nokkurn veginn jafngildir fullri aðild. Króatía og fyrrum Júgóslavíulýðveldið Makedónía, sem bæði hafa sótt um aðild að NATO og ESB, eru með aukasambandsaðild (e. affiliate associate partners). Fimm ESB- ríki hafa fasta áheyrnaraðild (e. permanent observers) og tvö sambandsáheyrnaraðild (e. affiliate permanent observers), þ.e. Malta og Kýpur. Þá hafa fulltrúar þjóðþinga Rússlands og Úkraínu stöðu fastagesta (e. permanent guests) á VES-þinginu og sérstakir gestir (e. special guests) eru þingmenn frá Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, oftast í júní og desember. Hlutverk þingsins er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis og varnarmál álfunnar. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni sem eru efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðs VES og beinir fyrirspurnum til þess. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Málefnanefndir VES-þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni og geimvísindanefnd, fjármála og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Á þinginu starfa, auk málefnanefnda, forsætisnefnd og stjórnarnefnd. Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðarnefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í forsætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, tíu varaforsetar þess (einn frá hverju aðildarríkjanna), nefndarformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd.
    Starfsemi og umræður á þinginu má greina í þrjá meginflokka. Í fyrsta lagi er þingið vettvangur þingmannavíddar Vestur-Evrópusambandsins og skv. 9. gr. endurskoðaða Brussel- sáttmálans frá 1954 er þingið ráðherraráði VES innan handar og ráðgefandi. Þingið hefur eftirlit með framkvæmd sameiginlegra varnarskuldbindinga sem kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í 9. gr. sáttmálans kemur eftirfarandi fram: „ráðherraráð Vestur-Evrópusambandsins skal birta árlega skýrslu um starfsemi sína […] til þingmannasamkundu sem samanstendur af fulltrúum aðildarríkja Brussel-sáttmálans […]“. Starfsemi þingsins er þannig bundin í milliríkjasáttmála og er það því ein þriggja evrópskra þingmannasamkundna sem slíkt á við um. Hinar tvær eru Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið. Í öðru lagi hefur þingið haft það hlutverk, í kjölfar yfirtöku Evrópusambandsins á verkefnum VES árið 2000, að vera öryggis- og varnarmálaþing Evrópu og vettvangur þinglegrar meðferðar á sameiginlegri stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Á árinu voru gerðar breytingar á starfsreglum og bætt við heiti þingsins sem heitir nú þing öryggis- og varnarmála í Evrópu – VES-þingið. Það endurspeglar þá þróun sem hefur átt sér stað undanfarin missiri, þar sem VES-þingið hefur orðið vettvangur þingumræðu um sameiginlega stefnu ESB í öryggis- og varnarmálum. Í þriðja lagi hefur þingið eftirlit með milliríkjasamstarfi á sviði hergagnaframleiðslu og rannsókna og þróunar á hergögnum sem sinnt er af WEAG og WEAO, fjölþjóðastofnunum sem starfa undir væng VES.
    Þrátt fyrir umfangsmiklar stofnana- og skipulagsbreytingar í Evrópu á undanförnum árum er þingið enn sem komið er eina evrópska þingmannasamkundan sem gefur þjóðkjörnum þingmönnum færi á að fylgjast með og ræða sameiginleg öryggis- og varnarmál álfunnar. Þingið er vettvangur fyrir leiðtoga Evrópuríkja til að skýra frá stefnumiðum sínum. Þá viðheldur þingið nánum tengslum við rússnesku Dúmuna og býður jafnframt þingmönnum frá Albaníu, Bosníu og Hersegóvínu, Serbíu og Svartfjallalandi, Makedóníu og Úkraínu til funda.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    
Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi þingsins. Aukaaðilar geta tekið ríkan þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir njóta þó ekki fullra réttinda og hafa ekki atkvæða eða tillögurétt á þingfundum. Sú hefð hefur hins vegar skapast að fulltrúar aukaaðildarríkja geta lagt fram tillögur og breytingartillögur í þinginu, að því gefnu að fulltrúar aðildarríkja skrifi einnig undir þær. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum og gera breytingartillögur. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum þegar þær eru í mótun. Aukaaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.
    Á starfsárinu 2008 voru aðalmenn í Íslandsdeild Ármann Kr. Ólafsson, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birgir Ármannsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Kristinn H. Gunnarsson, þingflokki Frjálslynda flokksins. Varamenn voru Björk Guðjónsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Höskuldur Þórhallsson, þingflokki Framsóknarflokks. Arna Gerður Bang gegndi starfi ritara Íslandsdeildar á starfsárinu.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Þing öryggis- og varnarmála í Evrópu kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegs þingfundar. Nefndir þingsins halda auk þess fundi nokkrum sinnum á ári. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í báðum hlutum þingfundarins.

Fyrri hluti 54. fundar þings um öryggis- og varnarmál í Evrópu, 3..5. júní í París.
    
Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildar Ármann Kr. Ólafsson formaður, Birgir Ármannsson varaformaður og Kristinn H. Gunnarsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara deildarinnar. Helstu mál á dagskrá voru endurbætur á stefnu Evrópu í öryggismálum, þróun mála í Afganistan og Pakistan, málefni Balkanskaga, verkefni Evrópusambandsins (ESB) í Tsjad, geimvarnir í Evrópu, stefna Rússlands í varnarmálum, öryggismál við Svartahaf og mat á áhrifum vopnaðra átaka á umhverfið.
    Forseti þingsins, Jean-Pierre Masseret, ávarpaði fundargesti og stýrði umræðum. Í ræðu sinni kynnti hann nýjar starfsreglur þingsins og lagði áherslu á að meginmarkmið þeirra væri að bjóða öllum þingmönnum Evrópusambandsríkjanna jafnan aðgang að þinginu þar sem þeir hafa rétt til að kjósa og taka virkan þátt í störfum þingsins. Karl Erjavec, varnarmálaráðherra Slóveníu, talaði fyrir hönd Slóveníu, sem fer með formennsku í ESB og Vestur-Evrópusambandinu (VES) frá ársbyrjun til 1. júlí 2008. Hann lýsti áherslum formennskunnar síðustu fimm mánuðina og ræddi um mikilvægi aukinnar samvinnu ESB við Sameinuðu þjóðirnar og NATO til að minnka þá miklu spennu sem ríkir í Kósóvó. Jean-Pierre Jouyet, ráðherra Evrópumála í Frakklandi, ræddi í framhaldinu um áherslur Frakka sem gegndu formennsku í ESB og VES frá 1. júlí til ársloka 2008. Hann þakkaði sérstaklega fyrir vandaðar og gagnlegar skýrslur þingsins og þann mikilvæga umræðuvettvang sem það hefur um árabil staðið vörð um. Varnar- og öryggismálastefna ESB er meðal forgangsatriða formennskunnar og lagði ráðherrann áherslu á mikilvægi þess að ESB og NATO ynnu saman og styrktu hvort annað á tímum aukinna átaka í heiminum því sameiginleg viðfangsefni væru ærin. Terry Davis, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, ávarpaði þingið og sagði mikilvægi VES og Evrópuráðsins ekki minna nú en áður, í flóknu umhverfi alþjóðavæðingar.
    Skýrsluhöfundurinn Detlef Dzembritzki frá Þýskalandi kynnti skýrslu stjórnmálanefndar þingsins um þróun mála í Afganistan og Pakistan. Hann sagði að nú sex árum eftir að Talíbönum var komið frá völdum stæðu stjórnvöld í Afganistan frammi fyrir samfelldum uppreisnum og á sama tíma græfu spilling og skortur á hæfum embættismönnum undan viðleitni stjórnvalda til að koma á friði. Afganistan er skilgreint sem fimmta fátækasta ríki heims og stærsti framleiðandi ópíums, en 90% ráðstöfunartekna koma frá þróunaraðstoð. Í skýrslunni er lögð rík áhersla á mikilvægi þess að fá nágrannaríki Afganistans, einkum Pakistan og Íran, í auknum mæli til að vinna að sameiginlegri áætlun til að stuðla að varanlegum friði í ríkinu.
    Varnarmálanefnd þingsins kynnti skýrslu um stefnu Rússlands í varnarmálum. Skýrsluhöfundur nefndarinnar, Andrea Rigoni frá Ítalíu, kynnti helstu atriði hennar fyrir fundargestum og sagði málflutning Rússa staðfesta löngun þjóðarinnar til að vera leiðandi hernaðarafl í alþjóðasamfélaginu. Hann hélt því einnig fram að samvinna þeirra við alþjóðastofnanir kæmi ekki í veg fyrir hugsanleg átök. Í skýrslunni er m.a. rætt um að Rússland sé enn raunverulegt kjarnorkustórveldi, ríkt af olíu- og gasauðlindum og efnahagsvöxtur mikill. Þá var tilmælum beint til NATO og ESB að taka föstum tökum stöðu mála í landinu og það að Rússland styrkist dag frá degi. Í tilmælum þingsins er mælst til þess að ESB og NATO falast eftir umræðuvettvangi og samvinnu við Rússland um m.a. eldflaugavarnir. Einnig er lagt til að Rússar taki þátt í aðgerðum við átakastjórnun þar sem báðir málsaðilar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og stuðlað sé að áframhaldandi samvinnu Evrópuríkja og Rússa. Dmitri Rogozin, sendiherra og fastafulltrúi Rússlands gagnvart NATO, ræddi um skýrsluna og svaraði spurningum fundargesta. Hann minnti á að það væri enn skoðanamunur milli Rússa og NATO um eldflaugavarnir og stækkun NATO til austurs. Varðandi áætlanir Bandaríkjamanna um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Póllandi og Tékklandi sagði hann Rússa ekki skilja nauðsyn þess fyrir Bandaríkin að setja upp slíkt kerfi í norðri til að verjast Íran í suðri, auk þess sem áætlunin væri gegn vilja Pólverja og Tékka.
    Skýrsluhöfundurinn Hendrik Daems frá Belgíu kynnti skýrslu nefndar um þingræði og almannatengsl, um samstarf þinga varðandi öryggismál við Svartahaf. Hann sagði svæðið landfræðilega afar mikilvægt, sérstaklega varðandi orkubirgðir Evrópu en einnig vegna hættu á mengunar- og umhverfisslysum. Hann lýst einnig yfir áhyggjum af þeirri ógn sem felst í spillingu, fjársvikum og ólögmætum viðskiptaháttum, auk vaxandi ofstækis í trúmálum á svæðinu. Þingið lýsti yfir vilja til þess að bjóða öllum þingum ríkja við Svartahaf og nágrannaríkjum þeirra, sem ekki eru aðildarríki þingsins, að gerast „félagar“ VES-þingsins, þannig gæti heimshlutinn tekið virkan þátt í því starfi sem snýr að svæðinu.
    Stjórnmálanefnd þingsins lagði fram skýrslu um ástandið á Vestur-Balkanskaga og kynnti skýrsluhöfundurinn, Pedro Agrument frá Spáni, helstu niðurstöður hennar. Hann sagði svæðið hafa fengið beina og óbeina fjárstyrki frá Vesturlöndum síðan um miðjan tíunda áratuginn, en lítill árangur hefði náðst. Helstu framfarir hafa verið á sviði öryggismála og í átt að auknum stöðugleika en árangur á sviði stjórnmála, stofnana og efnahagsmála væri langt frá því að vera viðunandi. Þingið beindi því tilmælum til ESB um að breyta aðferðum sínum á svæðinu og stuðla að efnahagslegu sjálfstæði í stað þess að treyst sé á fjárstyrki í hvívetna.

Síðari hluti 54. fundar þings um öryggis- og varnarmál í Evrópu, 2..4. desember í París.
    Fundinn sótti af hálfu Íslandsdeildar Kristinn H. Gunnarsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara deildarinnar. Helstu mál á dagskrá voru sameiginleg stefna í öryggis- og varnarmálum Evrópu, starfsemi hryðjuverkahópa við tyrknesku landamærin, öryggismál í Evrópu eftir stríðið í Georgíu, öryggismál á norðurslóðum og notkun netsins í hernaðarlegum tilgangi.
    Forseti þingsins, Jean-Pierre Masseret, ávarpaði fundargesti og stýrði umræðum fyrri hluta fundarins. Í ræðu sinni sagði hann stuttlega frá þeim þremur árum sem hann hefur gegnt embætti forseta VES-þingsins. Hann sagði þingið hafa aðlagast breyttu landslagi í alþjóðamálum með því að breyta heiti þingsins og gera breytingar á starfsreglum þess. Þrátt fyrir að sumir hafi haldið því fram að Lissabon-samkomulagið þýddi endalok fyrir VES-þingið lagði Masseret á það ríka áherslu að svo væri ekki, þvert á móti væri umræða þingsins þörf og skýrslugerðin mikilvægt framlag. Masseret sagði enn fremur að samband ESB og Rússlands yrði væntanlega í brennidepli næsta missirið. Mikilvægt væri að forðast það að Rússland einangraði sig frekar en jafnframt þyrfti að gæta þess að það kæmist ekki upp með hvað sem er í skjóli stærðar sinnar, og vísaði óbeint í hernaðaríhlutun Rússa í Georgíu í ágúst sl.
    Á öðrum þingdegi var Robert Walter frá Bretlandi kosinn nýr forseti VES-þingsins til næstu þriggja ára. Walter þakkaði traust og stuðning fulltrúa aðildarríkjanna og flokkahóps og sagði fráfarandi forseta hafa unnið ómetanlegt verk fyrir þingið síðustu þrjú ár. Walter sagði mikilvæg verkefni fram undan og eitt þeirra væri að sannfæra þing aðildarríkjanna, þingforseta og formenn utanríkis- og Evrópunefnda um nytsemi og mikilvægi VES-þingsins. Einnig væri brýnt að kynna enn frekar fyrir Evrópuþinginu hversu mikilvæg og einstök stofnunin er m.a. í ljósi þingræðislegrar yfirsýnar og umræðu um varnar- og öryggismál.
    Clemens von Goetze, sendiherra og fastafulltrúi Þýskalands gagnvart VES, ávarpaði þingið þar sem röðin er komin að Þýskalandi að gegna forsæti í ráðherraráði VES til næstu þriggja ára. Sendiherrann lagði áherslu á að nýleg átök milli Rússlands og Georgíu hafi sýnt að ESB sé fært um að bregðast við á áhrifaríkan og hraðan hátt. Því samhentari sem Evrópa sé því skemmri sé viðbragðstíminn í erfiðum aðstæðum. Minnti hann í því sambandi á að það hafi aðeins tekið þrjár vikur að senda 300 eftirlitsmenn á vettvang í Georgíu. Jean-Marie Bockel, varnarmálaráðherra Frakklands, ávarpaði þingið og fullvissaði fundargesti um að þrátt fyrir fjármálakreppu heimsins mundi formennskuáætlun Frakklands áfram stuðla að metnaðarfullri stefnumótun í öryggis- og varnarmálum ESB. Þá tók Pavel Fischer, sendiherra Tékklands í Frakklandi, til máls og sagði Tékkland tilbúið að taka við formennsku í ESB af Frakklandi frá og með janúar 2009 með öllum þeim krefjandi verkefnum sem því fylgja. Sendiherrann lofaði störf núverandi formennskuríkis og sagði mikinn árangur hafa náðst varðandi samvinnu ESB og Bandaríkjanna.
    Stjórnmálanefnd þingsins lagði fram skýrslu um öryggi á norðurslóðum og kynntu skýrsluhöfundarnir Paul Wille frá Belgíu og Odd Einar Dorum frá Noregi helstu niðurstöður hennar. Elisabeth Walaas, aðstoðarutanríkisráðherra Noregs, ávarpaði þingið og tók þátt í umræðu um skýrsluna. Hún sagði Noreg styðja það að ESB fengi áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, þótt hún gæti ekki talað fyrir hönd annarra aðildarríkja ráðsins. Kristinn H. Gunnarsson tók þátt í umræðu um skýrsluna og lagði m.a. áherslu á mikilvægi öryggis- og björgunarmála á norðurhöfum. Með opnun nýrra siglingaleiða í kjölfar hlýnandi loftslags mundi skipaumferð aukast til muna auk þess sem svæðið hefði aukið mikilvægi fyrir orkuöryggi heimsins. Þá sagði Kristinn brýnt að hafréttarsáttmáli Sameinuðu þjóðanna væri virtur sem lagarammi norðurskautssvæðisins og enn mikilvægara væri að Bandaríkin staðfestu hann hið snarasta. Enn fremur minntist Kristinn á aukna tíðni ferða rússneskra herflugvéla nálægt íslenskri lofthelgi og sagði vel fylgst með þeim þótt þær væru ekki taldar ógna þjóðaröryggi. Í framhaldinu sagði hann að réttilega hefði verið hætt við loftvarnaeftirlit breska hersins fyrir hönd NATO á Íslandi. Breska ríkisstjórnin ætti erfitt verk fyrir höndum hygðist hún byggja upp glatað traust milli ríkjanna tveggja í kjölfar fjármálakreppunnar og aðgerða breskra stjórnvalda gegn íslensku bönkunum.
    Þá kynnti Mike Hancock frá Bretlandi skýrslu stjórnmálanefndar þingsins um öryggi í Evrópu eftir stríðið í Georgíu í ágúst 2008 og lagði áherslu á mikilvægi þess að leysa þau undirliggjandi átök sem enn eru til staðar. Hann sagði ljóst að Georgía hefði farið of geyst í upphafi stríðs og Rússar hefðu verið of lengi að bregðast við og stöðva átökin. Brýnt væri að útvega Georgíu þá aðstoð sem nauðsynleg er til að hægt sé að endurreisa efnahag og innviði landsins eftir stríðsátökin og krefjast þess að Rússar virði skuldbindingar sínar samkvæmt friðarsamkomulaginu sem komið var á fyrir tilstuðlan ESB.
    Varnarmálanefnd þingsins kynnti skýrslu um notkun netsins í hernaðarlegum tilgangi. Skýrsluhöfundarnir Christopher Chope frá Bretlandi og Tarmo Kouts frá Eistlandi kynntu niðurstöður skýrslunnar. Þeir lögðu m.a. til að Varnarmálastofnun Evrópu (EDA) ynni að stefnumótun varðandi öryggis- og varnarmál á netinu í samvinnu við VES-þingið. Með vísan til netárásarinnar á Eistland 2007 og aðgerða Rússa og Georgíumanna á netinu í tengslum við árásirnar í ágúst 2008 sagðist Chope vonast til þess að skýrslan drægi úr fáfræði varðandi notkun netsins í hernaðarlegum tilgangi. Hann bætti því við að mestu vonbrigðin við vinnu skýrslunnar hefðu verið að ómögulegt var að fá upplýsingar um hvernig evrópsk stjórnvöld ynnu að málaflokknum.
         
5. Tilmæli og tilskipanir þings um öryggis- og varnarmál Evrópu árið 2008.
Fyrri hluti 54. þingfundar, 3..5. júní:
     1.      tilmæli nr. 816 um endurbætur á öryggisstefnu Evrópu,
     2.      tilmæli nr. 817 árið 2008: afgerandi ár fyrir Vestur-Balkanskaga,
     3.      tilmæli nr. 818 um verkefni Evrópusambandsins í Tsjad,
     4.      tilmæli nr. 819 um varnartæknibúnað í Evrópu,
     5.      tilmæli nr. 820 um ómönnuð loftför til hernaðar: Evrópuverkefni,
     6.      tilmæli nr. 821 um geimvarnir fyrir Evrópu: GMES og Galileo,
     7.      tilmæli nr. 822 um þróun stjórnmála í Afganistan og Pakistan,
     8.      tilmæli nr. 823 um stefnu Rússlands í varnarmálum,
     9.      ályktun nr. 134 um mat á áhrifum vopnaðra átaka á umhverfið,
     10.      tilskipun nr. 124 um samstarf þinga varðandi öryggismál við Svartahaf.

Síðari hluti 54. þingfundar, 2..4. desember:
     1.      tilmæli nr. 824 um sameiginlega öryggis- og varnarmálastefnu í Evrópu,
     2.      tilmæli nr. 825 um starfsemi hryðjuverkahópa við tyrknesku landamærin – II. hluti,
     3.      tilmæli nr. 826 um breytingar á yfirstjórn herafla Evrópusambandsins,
     4.      tilmæli nr. 827 um starfsemi Evrópusambandsins, endurskoðun,
     5.      tilmæli nr. 828 um viðbrögð almennings við alþjóðlegum hernaðaraðgerðum,
     6.      tilmæli nr. 829 um fjárhagsáætlun ráðherraráðs VES 2008,
     7.      tilmæli nr. 830 um geimvarnir Evrópu (MUSIS),
     8.      tilmæli nr. 831 um notkun netsins í hernaðarlegum tilgangi,
     9.      tilmæli nr. 832 um frumkvæði framkvæmdastjórnar ESB varðandi varnir Evrópu,
     10.      tilmæli nr. 833 um öryggismál á norðurslóðum,
     11.      ályktun nr. 135 um hlutverk þinga varðandi viðurkenningu á Kósóvó,
     12.      tilmæli nr. 834 um öryggi í Evrópu eftir stríðið í Georgíu,
     13.      tilskipun nr. 129 um öryggi á norðurslóðum.

Alþingi, 12. mars 2009.



Ármann Kr. Ólafsson,


form.


Birgir Ármannsson.


Kristinn H. Gunnarsson.