Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 803  —  388. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um fjölda háskólanema.

     1.      Hver var fjöldi háskólanema hér á landi hvert áranna 2005–2008 og 2009?
    Haustið 2008 voru 17.738 skráðir nemendur í háskólum á Íslandi. Þeim fjölgaði um rúmlega sex hundruð frá árinu 2005, en þá voru þeir 17.107. Skólaárið 2006–2007 voru þeir 17.171 og skólaárið 2007–2008 voru þeir 17.728. Þessar tölur gefa þó ekki rétta mynd af fjölda einstaklinga sem eru við nám á háskólastigi vegna þess að eitthvað er um tvítalningar í nemendaskrám háskólanna. Endanlegar tölur um fjölda nemenda á yfirstandandi skólaári munu ekki koma í ljós fyrr en seinna á þessu ári. Miðað við fyrri tölur er mismunurinn á bilinu eitt þúsund til fimmtán hundruð nemendur sem eru oftaldir eða tvítaldir. Ekki liggja fyrir nýrri tölur en frá október 2008. Sjá töflu 1.

Tafla 1. Fjöldi háskólanema 2005–2008.

Ár Fjöldi eintaldra nemenda Fjöldi skráðra nemenda **
2005–2006 15.604 17.107
2006–2007 15.594 17.171
2007–2008 16.366 17.728
2008–2009 * 17.738
Heimild: Hagstofa Íslands.
*         Endanlegur fjöldi nemenda við háskólanám á yfirstandandi skólaári mun ekki liggja fyrir fyrr en síðar á árinu.
**     Nemendur geta verið skráðir við nám í fleiri en einum skóla, fagi eða námsbraut.

     2.      Hver var fjöldi meistaranema hér á landi og Íslendinga í meistaranámi í útlöndum sömu ár?
     3.      Hver var á sama tíma fjöldi doktorsnema hér á landi og Íslendinga í doktorsnámi í útlöndum?

    Haustið 2008 voru 3.821 meistaranemar skráðir í nám við háskóla hér á landi á yfirstandandi skólaári. Skólaárið 2005–2006 voru þeir 2.080, skólaárið 2006–2007 voru þeir 2.517 og skólaárið 2007–2008 voru þeir 3.433. Fjölgunin frá árinu 2005 til 2008 var 83%. Nýjustu tölur um fjölda meistaranema eru frá október 2008. Sjá töflu 2.
Þegar litið er til íslenskra háskólanema í meistaranámi við erlenda háskóla þá voru þeir 562 árið 2005–2006, 592 árið 2006–2007 og 647 árið 2007–2008. Sjá töflu 3.
    Haustið 2008 voru 283 doktorsnemar skráðir við háskóla hér á landi. Skólaárið 2005–2006 voru þeir 156, skólaárið 2006–2007 voru þeir 201 og skólaárið 2007–2008 voru þeir 261. Fjölgunin frá árinu 2005 til 2008 var 81%. Nýjustu tölur um fjölda doktorsnema á Íslandi eru frá október 2008. Sjá töflu 2.
    Þegar litið er til íslenskra háskólanema í doktorsnámi við erlenda háskóla þá voru þeir 133 árið 2005–2006, 119 árið 2006–2007 og 108 árið 2007–2008. Ekki liggja fyrir samsvarandi tölur fyrir haustið 2008. Sjá töflu 3.

Tafla 2. Fjöldi háskólanema á Íslandi eftir námsstigi.

Ár Diplómanám Grunnnám Meistaranám Doktorsnám
2005–2006 243 13.281 2.080 156
2006–2007 210 12.867 2.517 201
2007–2008 153 12.780 3.433 261
2008–2009 164 12.437 3.821 283
Heimild: Hagstofa Íslands.

Tafla 3. Fjöldi háskólanema erlendis eftir námsstigi.


Ár Grunnnám Meistaranám Doktorsnám
2005–2006 1.885 562 133
2006–2007 1.924 592 119
2007–2008 1.873 647 108
Heimild: Lánasjóður íslenskra námsmanna.

     4.      Hversu margir störfuðu við kennslu og rannsóknir á háskólastigi hér á landi sömu ár?
    Fjöldi starfsfólks háskóla sem sinnti kennslu og rannsóknum á skólaárinu 2007–2008 var 2.337. Tölur um samsvarandi fjölda fyrir yfirstandandi skólaár munu ekki liggja fyrir fyrr en haustið 2009. Skólaárið 2005–2006 var starfsfólk við kennslu og rannsóknir 2.068, og 2.178 skólaárið 2006–2007. Til nánari glöggvunar má benda á að skólaárið 2007–2008 voru stöðugildi við kennslu og rannsóknir 1.635 talsins. Ástæðan fyrir því að stöðugildi eru svo miklu færri en fjöldi starfsfólks skýrist af því að við háskólana starfar fjöldi stundakennara og aðjúnkta sem eru í hlutastörfum. Starfsfólki fjölgaði um 13% og stöðugildum um 10% frá árinu 2005 til 2008. Inni í þessum tölum eru bæði kennarar og sérfræðingar og sérhæft starfsfólk, en stjórnendur og annað starfsfólk er undanskilið. Sjá töflu 4.

Tafla 4. Fjöldi starfsfólks við kennslu og rannsóknir í háskólum.


Ár Starfsfólk Stöðugildi
2005–2006 2.068 1.491
2006–2007 2.187 1.512
2007–2008 2.337 1.635
Heimild: Hagstofa Íslands.