Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Mánudaginn 13. júlí 2009, kl. 20:04:03 (3194)


137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður vænir mig um óskhyggju en varðandi þá vegferð sem við þurfum að fara í til þess að ná skikki á gengi íslensku krónunnar, ekki einvörðungu til þess að geta skipt henni yfir í evru heldur til þess að tryggja lífskjör heimilanna og lífvænleika íslenskra fyrirtækja þá vil ég halda því fram sem og margir hagfræðingar sem um þessi mál hafa fjallað að með því að stefna á Evrópusambandið og upptöku evru muni það hafa jákvæð áhrif á gengi íslensku krónunnar og skapa trúverðugleika á íslenskan efnahag til framtíðar.

Varðandi verðtrygginguna og þá löngu föstu samninga þá er þetta flókið mál því að hér eru veitt löng lán í húsnæðislánum með föstum vöxtum og verðtryggingu. En ég skal benda á að víða í Evrópu eru breytilegir vextir sem eingöngu er hægt að festa til skemmri tíma og þá má taka upp samninga við þá sem eiga þessa samninga um breytilega vexti sem taka mið af aðstæðum hverju sinni. Ég lýsi því ekkert yfir að ég ætli að losa okkur við verðtrygginguna í einu vetfangi en með því að fara inn í það stöðuga umhverfi sem krafist er að hafa til þess að geta verið aðili að evrunni þá aukum við á trúverðugleika markaðarins.

Varðandi neikvæða þætti Evrópusambandsins sem hv. þingmaður innir mig svo ítarlega eftir þá sé ég ekkert mjög margt neikvætt við Evrópusambandið. Ég get til dæmis sagt að ég tel að með Schengen-samstarfinu sem við erum nú þegar aðilar að þá séum við að loka af fátækari ríki og hef áhyggjur af því. Ég hef áhyggjur af þeirri stefnu Evrópusambandsins til að mynda. En ég veit að í hans eigin (Forseti hringir.) flokki er fjöldinn allur af aðilum sem vill dengja yfir hann neikvæðum hliðum svo að ég ætla að halda mér við þær jákvæðu.