Aðildarumsókn að Evrópusambandinu

Mánudaginn 13. júlí 2009, kl. 21:10:28 (3201)


137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[21:10]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér einstakt mál, mál sem lagt var af stað með sem þingsályktunartillögu á vegum ríkisstjórnarinnar þó svo að annar stjórnarflokkurinn vilji helst ekkert við það kannast eða kannast við málið. Ráðherrar og þingmenn flokksins hafa ýmist lýst yfir andstöðu við ályktunina eða á mjög svo loðinn hátt viðurkenna ábyrgð á að hún sé fram komin þó svo að ekki fáist upp gefið hvort þeir styðji málið. Undan er þó skilinn hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sem hér í upphafi umræðu um þetta mál á föstudaginn gerði skýra grein fyrir afstöðu sinni og þeirri bóndabeygju sem Evrópusambandsmálið er í hjá einstökum stjórnarþingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Hinn stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, stendur hins vegar heils hugar að baki þingsályktunartillögunni, nema hvað? Það hefur margoft komið fram að endurreisnarplan Samfylkingarinnar, endurreisn íslensks efnahags, er innganga í Evrópusambandið. Þar er ekkert plan B, ekki frekar en í Icesave-málinu.

Frú forseti. Það er engin launung á því að staða Íslands, staða þjóðarinnar er erfið, svo erfið að ekki er hægt að útiloka neina þá leið sem gæti hjálpað okkur út úr þeim vanda, út úr kreppunni sem við erum stödd í. Það þýðir á mannamáli að við verðum að skoða sem flesta möguleika. Einn möguleikinn er sá sem við ræðum hér, þ.e. aðildarumsókn að Evrópusambandinu og hugsanleg upptaka og/eða tenging við evru. Sú leið gæti verið þyrnum stráð. Við þekkjum hætturnar fyrir undirstöðuatvinnugreinar okkar, sjávarútveg og landbúnað. Þessar atvinnugreinar hafa lagt mikla vinnu og metnað í að skoða, ekki síst landbúnaðurinn, kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu og þeirra niðurstaða er skýr og vel þekkt. Gallarnir eru langtum stærri og munu að óbreyttu leggja einstakar greinar þessa atvinnuvegar í rúst.

Frú forseti. Við vitum að við erum ríkt land með miklar auðlindir, miklu ríkari en flestar Evrópuþjóðir, hvað þá þær þjóðir gömlu Austur-Evrópu sem sækja ýmislegt til Evrópusambandsins. Við erum fyrst og fremst að sækja fjármálalegan stöðugleika, nýjan gjaldmiðil. Af öllu öðru erum við í raun rík. Við eigum auðlindir til lands og sjávar, mannauð, lýðræðiskerfi, pólitískan stöðugleika, stjórnkerfi sem er með því besta sem gerist í heiminum, unga þjóð, kröftuga og mikil atvinnutækifæri, þ.e. ef við undanskiljum núverandi vandamál með bankahruni og heimskreppu. Staða okkar er því verulega önnur en annarra Evrópuríkja sem sækjast eftir inngöngu í Evrópusambandið. Því verðum við að spyrja okkur hvort einhverjar aðrar leiðir séu færar, hvort við þurfum ekki að skoða allar aðrar leiðir samtímis því að kanna aðild að Evrópusambandinu.

Ein leið væri sú — og finnst mér nauðsynlegt að hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar og nefndin öll skoði hana — þ.e. að skoða aðild að NAFTA, fríverslunarbandalagi Norður-Ameríkulanda og Mexíkós og hugsanlega upptöku dollars. Ég ræddi þetta við hæstv. utanríkisráðherra í andsvari við ræðu hans hér fyrr í umræðunni. Þar koma fram að í hans ráðherratíð alla vega hefði þessi kostur aldrei verið skoðaður. Þar með liggur sú spurning ósvöruð, ókönnuð hvort hagsmunum okkar þjóðar og lands væri ef til vill betur borgið með slíkum samningum. Þetta er í beinu framhaldi og eðlilegu af því sem við höfum áður rætt, að hér er einblínt, þ.e. stefna beint inn í Evrópusambandið. Það er stefna Samfylkingarinnar og aðrir möguleikar eru ekki uppi á borði. Aðrir möguleikar eru ekki einu sinni ígrundaðir og við höldum bara áfram á þessari einu leið, ýmist öll á sama báti eða þvinguð í þann bát alla vega.

Allar aðrar leiðir ætti jafnframt að skoða samhliða og ekki hafna neinni fyrir fram. Til dæmis mætti nefna einhliða upptöku annarra gjaldmiðla en evru, dollars eða hugsanlega annarra gjaldmiðla ef álitið væri að það hentaði eftir nákvæma athugun. Ég tel að allt þetta þurfi að skoða samhliða því að athuga það hvernig henti best að fara í þessar viðræður við Evrópusambandið. Við erum því miður þannig stödd, hin íslenska þjóð, að allar leiðir ber að skoða.

Frú forseti. Við erum hins vegar hér í dag eða þessa dagana að ræða þingsályktunartillögu um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Samhliða þingsályktunartillögu stjórnarflokkanna var kynnt þingsályktunartillaga frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum um aðra og, að mínu mati, mun betri málsmeðferð en fram kemur í stjórnartillögunni. Tillaga stjórnarandstöðuflokkanna er í anda þeirrar ræðu sem forseti lýðveldisins hélt í þessum stól við þingsetninguna. Hún var um að vanda undirbúninginn, búa ekki til gjá á milli hópa, skilja þjóðina ekki eftir í sárum, ná samstöðu og samvinnu bæði á þinginu og eins úti í samfélaginu öllu, hafa samráð við hagsmunaaðilana, hafa samráð við þjóðina um samningsskilyrði þannig að við þingmenn getum síðan tekið upplýsta ákvörðun um hvort við eigum að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið eður ei. Á sama tíma ætti að vera orðið ljóst hvaða aðrar leiðir sem ég nefndi fyrr í ræðu minni, þ.e. um hugsanlega tengingu við NAFTA og dollar eða einhliða upptöku annars gjaldmiðils, hvort þær leiðir væru færar, hvaða kosti og hvaða galla þær fela í sér. Þær leiðir þarf að kanna með jafnopnum huga og við gerum nú gagnvart mögulegri aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Helsti munurinn á þessum tveimur ályktunum liggur í aðferðafræðinni við málsmeðferð og þar af leiðandi trúverðugleika þess og/eða þeirra sem fara fyrir aðildarumsókninni. Þessi munur kemur meðal annars fram í minnihlutaáliti hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Skilyrði slíkra aðildarviðræðna yrði þó ávallt að samningsskilyrði væru skýr og búið væri að ná samstöðu um þau skilyrði sem landi og þjóð eru svo mikilvæg að þau yrðu ekki eftirgefanleg.“

Og, með leyfi forseta:

„Skýr samningsskilyrði eru þó ekki í áliti meiri hlutans þrátt fyrir viðamikla umræðu um hagsmuni sem standa skal vörð um ...“

Og síðar í sama áliti, með leyfi forseta:

„Telur 2. minni hluti að talsvert vanti upp á nægilega umræðu og leiðsögn um meginhagsmuni, samningsmarkmið og áherslu á raunhæfa samninganiðurstöðu.“

Frú forseti. Eins og kemur fram í áðurnefndu áliti 2. minni hluta er einn mikilvægasti hlutinn við viðræðuferlið undirbúningurinn og kannski er sá hluti sá langmikilvægasti. Í Evrópusambandinu, eða Evrópusambandið sjálft, eru í raun og veru sérfræðingar í samningum við aðildarumsækjendur og eru þeir með vant atvinnumannateymi í því. Þeir eru sífellt að semja við aðrar þjóðir. Samninganefnd okkar þarf að geta setið við samningsborðið með skýr samningsskilyrði sem Alþingi hafi þá veitt nefndinni.

Í ljósi undangenginna atburða og umræðu sem hér hefur orðið um Icesave-samninginn ættum við að hafa lært að nauðsynlegt er fyrir þá aðila sem fara með samningsumboð fyrir Íslands hönd að hafa í farteskinu skýr skilaboð, skýr samningsskilyrði sem ekki megi gefa eftir. Ætli staða okkar nú væri ekki ögn betri ef það hefði legið fyrir áður en menn gengu til Icesave-viðræðnanna?

Við hverja erum við að fara að semja, frú forseti? Jú, við þekkjum samningsaðilana vel. Menningarlega og viðskiptalega höfum við átt samleið um langt skeið, um aldir. Við höfum unnið bæði með Evrópu og í Evrópumálum í langan tíma. Tilskipanir sem við höfum tekið upp í þinginu í hinum ólíklegustu málefnum hafa gjarnan eftirfarandi setningu einhvers staðar í greinargerðinni: Tilskipunin er sett til að samræma reglur aðildarríkjanna, eða bandalagsins eða að vísað er til hættunnar á flutningi vara, lífvera, vatns eða lofts yfir landamæri.

Því nefni ég þetta, frú forseti, að við verðum að gera okkur grein fyrir hvaða bandalag þetta er. Hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir fór vel yfir söguna í fyrri umr. um málið. Þau rök standa vel fyrir sínu, þ.e. eftir að Evrópa sameinaðist í Evrópusambandið hefur verið friður í Evrópu, alla vega í vesturhlutanum. Sameinuð Evrópa er sífellt að semja reglur sem snúa að því sama, að minnka líkurnar á ágreiningi nágranna vegna samkeppni, flutnings, ágangs, fólks, dýra, vöru, fjármagns, mengunar og svo mætti lengi telja. Við erum hins vegar, eins og við öll vitum, eyþjóð langt frá landamærum annarra ríkja Evrópu. Við ættum því að sækja okkur allar þær undanþágur frá EES-samningnum sem færar eru og hefðum átt að gera það í gegnum árin vegna þess og að þessu leyti eigum við ekki samleið með vandamálum Evrópu. Önnur sérstaða er lega landsins langt norður í Atlantshafi. Sú sérstaða skapar okkur enn frekar aðra aðkomu að málum, aðkomu þar sem hagsmunir okkar eru öðruvísi en flestra ef ekki allra annarra Evrópusambandsríkja, hagsmunir sem Evrópa á erfitt með að skilja og erfitt með að taka tillit til. Þar er auðveldast og nærtækast að nefna sjávarútveginn sem við lítum á sem auðlind en Evrópa hefur allt önnur sjónarmið í því sambandi.

Að teknu tilliti til þessarar augljósu sérstöðu Íslands og þeirrar staðreyndar að við erum rík af auðlindum er ekki nein furða að við teljum nauðsynlegt að vandað sé til undirbúnings aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Í þessu ljósi, virðulegur forseti, er rétt að rifja upp ummæli utanríkisráðherra Finna, Alexander Stubb, sem varaði við of mikilli bjartsýni varðandi Evrópusambandsumsóknarferlið í viðtali við Morgunblaðið 9. júní síðastliðinn og sagði, með leyfi frú forseta:

„Ef við horfum hins vegar til reynslu okkar Finna er afar mikilvægt að hafa í huga að aðildar- og umsóknarferlið er aldrei auðvelt. Menn skyldu ekki gera sér rósrauðar væntingar um að afgreiðsla umsóknar muni þegar í stað liggja fyrir eða að sjálfar aðildarviðræðurnar verði leikur einn.

Þvert á móti þá munu þær verða mjög erfiðar því grundvallarviðhorf Evrópusambandsins liggur fyrir: Það yrði hlutverk Íslands að fylgja reglum sambandsins.“

Í þingsályktunartillögunni og áliti meiri hlutans er fjallað í mörgum köflum og löngu máli um einstaka hluti sem gera þarf grein fyrir og menn telja meginhagsmuni Íslands. Þar á meðal er fjallað um landbúnað og sjávarútvegsmál. Í landbúnaðarkaflanum virðist svo vera eða maður getur lesið það á milli línanna að fyrst og fremst eigi að reyna að verja svokallaðan hefðbundinn búskap, svokölluð fjölskyldubú í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, en annað verði ekki hægt að verja með þessari aðild að Evrópusambandinu og upptöku Evrópusambandsreglnanna.

Hér er líka sagt um afnám tolla að þar sem tollverndin hafi verið ein stoð íslensks landbúnaðar þá sé mikilvægt að verja annan hefðbundinn búskap og að eitt af samningsmarkmiðum Íslands verði að verja það. Hér er þó undan skilið að meiri hlutinn virðist ekki gera sér grein fyrir því að mjólkuriðnaðurinn hefur skoðað það og dregið af þeirri skoðun þá ályktun að verulegur hluti af núverandi framleiðslu mundi hverfa úr landinu ef gengið yrði í Evrópusambandið og allur kjötiðnaðurinn hefur lýst því yfir að ef allt hvítt kjöt hverfi úr landinu þá muni kjötvinnslur landsins, sem eiga þá að nýta hefðbundið hráefni úr sauðfjár- og nautgriparækt, ekki lifa af. Í þessu plaggi, þó það sé hvergi nefnt, er því verið að tala um stóran hluta af landbúnaði eins og við þekkjum hann í dag og sem er vissulega fjölskyldubúskapur sérstaklega í samanburði við þau risavöxnu fyrirtæki sem starfa á Evrópusambandsmarkaðnum. Reyndar hefur komið í ljós að þau eru þeir aðilar sem njóta stærstan hluta Evrópusambandsstyrkjanna. En það hefur líka komið í ljós að reynsla Finna, Svía og eins vina okkar í Danmörku er sú að sífellt fleiri og fleiri dagar í hverjum mánuði hjá venjulegu fyrirtæki í landbúnaði fara í að sitja inni og fylla út skýrslur, umsóknir til að uppfylla það að geta fengið eðlilega styrki. Menn hafa farið að kalla þá töskubændur og er þetta ekki tegund af búskap sem ég held að neinir íslenskir bændur né reyndar þeir sem þetta hefur verið haft eftir, hinir skandinavísku frændur okkar og vinir, hafa sóst eftir. En þetta er eitt af því sem stendur ekki í þessu langa máli meiri hlutans.

Hér er heilmikið fjallað um fæðuöryggi og matvælaöryggi og það er út af fyrir sig ágætt. En ef samhliða því er verið að færa stóran hluta af matvælaframleiðslunni úr landi þá hverfur allur trúverðugleiki í því sem haldið er fram, þ.e. að hér eigi að tryggja fæðuöryggi. Í dag erum við í raun að framleiða einungis um 50% af þeim matvælum sem við þurfum á að halda í landinu og það er auðvitað alveg á mörkunum. Í skilgreiningum alþjóðasamfélagsins hefur verið talið að ekki megi fara neðar til að fæðuöryggi þjóðarinnar sé tryggt ef heimskreppa geisaði, eins og við sáum kannski nánast gerast í haust í bankahruninu, þar sem viðskipti milli landa mundu stöðvast að einhverju leyti, hvað þá faraldrar og farsóttir sem vissulega geta komið upp þó þeir hafi ekki komið upp á síðustu áratugum, jafnvel tæplega 100 árum. En það þarf þó ekki að fara lengra aftur en svo. Því er alveg ljóst að við það að fara í aðildarviðræður og hugsanlega aðild að Evrópusambandinu erum við að fyrirgera landbúnaðinum enda er það skoðun landbúnaðarins eftir ítarlega athugun og þeir hafa mjög vel komið því á framfæri. Ég verð að segja alveg eins og er að þó svo að texti um landbúnað sé hér á hátt á aðra eða þriðju blaðsíðu þá er það ekki nóg ef menn tala ekki um hann af nægilegri þekkingu og setja ekki fram nægileg skilyrði til þess að annaðhvort stöðva viðræður eða þá að segja að út af þessu spori verði ekki vikið.

Frú forseti. Lokaorð mín eru hvatning til ríkisstjórnarflokkanna, ekki síst þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að koma okkur til aðstoðar í að vanda undirbúninginn enn frekar, meðal annars með því að setja skýr skilyrði í samráði við hagsmunaaðila inn í samningsumboðið. Það er ekki nægjanlegt að mínu mati að vísa í greinargerð um að fylgja skuli sjónarmiðum eins og fram koma í meirihlutaáliti eins og þar stendur og að í því sama áliti sé hafnað að fyrir liggi samningsskilyrði. Hér á blaðsíðu 14 í VII. kafla er talað um skilyrt umboð og þar er því hafnað að sett séu skilyrði fyrir fram og sagt, með leyfi forseta:

„Að mati meiri hlutans er afar mikilvægt að þeir meginhagsmunir sem lúta að aðildarviðræðum við ESB verði afmarkaðir og að á þeim byggist síðan nánar skilgreindari samningsmarkmið. Þau verða hins vegar ekki sett fyrr en síðar í ferlinu þegar orðið er ljóst hvaða atriði það kunna að vera í raun sem kalla á samningaviðræður.“

Ég er búinn að reyna að koma inn á í máli mínu varðandi landbúnaðinn að þar hefur verið farið vel yfir það, þ.e. hvað megi ganga langt, um hvað megi semja til að tryggja að hér verði landbúnaður og byggð í landinu eins og við þekkjum hana í dag og hve langt megi ganga og hvað megi ekki gera þannig að það þarf ekki að bíða í raun eftir neinu ferli síðar í samningaviðræðunum og meta það þá. Það er hægt að segja það fyrir fram. Sú vinna hefur farið mjög langt hjá Bændasamtökunum og ég held að við í þinginu eða í þessum aðdraganda hefðum átt að tryggja það enn frekar, fara yfir þau mál og setja þau skilyrði. Það sama á auðvitað að gilda um sjávarútveginn og aðra málaflokka sem við viljum standa sem fastast við og fyrir.

Frú forseti. Öllum er ljóst sem til samningagerðar þekkja að líkur á ásættanlegri og jafnvel góðri niðurstöðu aukast mikið við breiða samstöðu baklandsins — í þessu tilviki á ég við þing og þjóð — og eins ef skýr markmið liggja fyrir. Því legg ég til, frú forseti, að hv. utanríkismálanefnd reyni enn til hlítar að breikka bakland sitt með því að setja inn skilyrði sem við erum sammála hagsmunaaðilum um að við munum aldrei gefa afslátt á, setja slík skilyrði inn í þingsályktunartillöguna áður en við tökum ákvörðun um aðildarviðræður.

Hv. formaður utanríkismálanefndar á hrós skilið, og hann hefur fengið það í ræðustól Alþingis, fyrir myndarlega greinargerð og eins fyrir vinnulagið við umfjöllun um ályktanirnar báðar, þ.e. stjórnarályktunartillöguna og eins þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar eða stjórnarandstöðuflokkanna Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Ég vildi líka gjarnan geta hrósað hv. formanni fyrir niðurstöðu málsins og hvet hann því til dáða í því að ná breiðari samstöðu í þinginu með því að setja samningsskilyrði inn í breytingartillöguna. Það er hægt með því að taka breytingartillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur og fella hana inn í álit nefndarinnar. Þar koma fram þau meginmarkmið og þeir meginhagsmunir sem við erum, held ég og vona, að við séum öll tilbúin til að verja.

Frú forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um breytingartillöguna sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir lagði fram í sínu máli. Hún er í raun nokkurn veginn samhljóða ályktun sem við samþykktum á flokksþingi Framsóknarflokksins fyrr í vetur. Hún hljóðar svo í styttri útgáfunni, með leyfi forseta:

„Á eftir orðunum „Alþingi ályktar að“ komi (í stað orðalags í breytingartillögunni): Ísland hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar. Þá verði fullveldi og óskorað forræði Íslendinga yfir auðlindum þjóðarinnar grundvallarkrafa í þeim viðræðum. Viðræðuferlið verði opið og lýðræðislegt og leiði viðræðurnar til samnings skal íslenska þjóðin taka afstöðu til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu í kjölfar upplýstrar umræðu.“

Síðan fylgja þau skilyrði sem ég hef skilið svo að verði að liggja fyrir áður en við hefjum viðræðurnar til þess að umboð samninganefndarinnar sé skýrt og til þess að samninganefndin — þegar hún fer út eða hæstv. utanríkisráðherra fyrir hönd þings og forseta, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal upplýsti í sinni ræðu fyrr í kvöld — að þá séu þau skilyrði mjög skýr og að ekkert verði hægt að víkja frá þeim. Það þýðir að líkurnar á að hugsanlegur samningur sem mundi koma í kjölfarið á þessum viðræðum yrði með þeim hætti að hægt væri að leggja hann fyrir þjóðina og kynna og að á honum væru ekki neinir þeir gallar að við værum að semja frá okkur eign eða yfirráð yfir auðlindum til lands og sjávar.

Frú forseti. Ég hef hérna reynt í nokkru máli að koma hluta af þeim sjónarmiðum á framfæri sem ég tel mikilvæg okkur þingmönnum þegar við tökum ákvörðun um þetta mál. Ég sakna þess hins vegar þegar fyrir liggur svona stórt mál og búið er að leggja svona mikla vinnu í það og menn hafa gengið mjög langt í því, til dæmis hv. formaður utanríkismálanefndar, að segjast hafa komið til móts við allt og alla, að ekki sé stigið síðasta skrefið og það klárað. Ég ítreka orð mín nú í lok ræðu minnar um að hv. utanríkismálanefnd taki þær tillögur sem hér hafa komið fram um breytingar á milli umræðna til umfjöllunar og geri þær að sínum þannig að við, eða ég að minnsta kosti, gætum hugsanlega fellt okkur við þau skilyrði sem sett verða fyrir því að ganga til viðræðna við Evrópusambandið.