Þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010

Föstudaginn 08. janúar 2010, kl. 11:14:43 (0)


138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því síðasta. Íslendingar ætla að standa við skuldbindingar sínar. Við teljum að okkur beri ekki skylda til að taka fulla ábyrgð á innstæðunum, 20.000 evrum. Það eru mikilvæg skilaboð að við ætlum að standa við skuldbindingar okkar vegna þess að þá verðum við ekki sökuð um annað, og rísi ágreiningur um hvort við séum að gera það getum við borið hann undir dómstóla.

Um hvað á að takast sátt? Gerum nú ekki sömu mistökin og ríkisstjórnin gerði þegar hún skrifaði undir Icesave-samningana í júní. Förum ekki að semja við sjálf okkur fyrir fram í þessu máli. (Gripið fram í.) Til hvers er verið að semja við sjálfan sig fyrir fram í þingsal um það hvaða niðurstaða á að fást? Tökum saman höndum um að skila því til Breta og Hollendinga að íslenska þjóðin ætli ekki að sætta sig við samningana vegna þess að þeir voru fengnir fram með óbilgjörnum hætti, með þvingunum og afarkostum, og því verði ekki troðið ofan í kokið á íslenskum almenningi, því miður, og leita þurfi annarra leiða. Þær geta m.a. falist í því sem margoft hefur verið í umræðunni, (Forseti hringir.) að bera málið undir hlutlausa dómstóla, en ég ætla einfaldlega ekki að fara að semja við sjálfan mig eða aðra þingmenn hér. Það þarf að koma málinu í þann farveg að skynsamleg lausn fáist.