Þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010

Föstudaginn 08. janúar 2010, kl. 11:54:39 (0)


138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú ákvörðun sem forseti Íslands tók hefur þegar haft mjög neikvæð áhrif á efnahagsþróunina og gæti ég farið yfir það lið fyrir lið og það höfum við séð á undanförnum dögum, það er alveg ljóst. En ég hygg að kosningarnar, sú þjóðaratkvæðagreiðsla sem fram mun fara, muni ekki einvörðungu snúast um Icesave-málið. (PHB: Því miður.) Hún mun ekki einvörðungu snúast um Icesave-málið. Ég hygg að fólk muni ræða um fleiri hluti og ýmsir halda því fram að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla muni líka snúast um líf og framtíð ríkisstjórnarinnar. Með einhverjum hætti mun það örugglega koma fram í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu þó að ég ætli ekki fara að halda því fram. Ég mun ekki taka afstöðu til annars í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu og í undirbúningi hennar en efni máls, þau lög sem á að fara að greiða atkvæði um. (Forseti hringir.) Svo sjáum við hver niðurstaðan verður í því máli (Forseti hringir.) og þá munu menn setjast yfir þá niðurstöðu.