Þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010

Föstudaginn 08. janúar 2010, kl. 19:32:57 (0)


138. löggjafarþing — 68. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[19:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara. Ég styð frumvarpið með öllum þeim breytingartillögum sem fyrir liggja en vil gera eftirfarandi grein fyrir atkvæði mínu.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu vega auðvitað öll atkvæði jafnt. Við atkvæðagreiðsluna verður notast við kjördæmaskipan og kosningafyrirkomulag sem þekkt er, ekkert er óeðlilegt við það. Ég tel að telja ætti öll atkvæði á einum stað og lýsa úrslitum fyrir landið allt en ekki eftir kjördæmum. Sérfræðingar í framkvæmd kosninga voru spurðir að því hvort unnt væri að telja öll atkvæði á einum stað án þess að bregða að öðru leyti út frá þeirri framkvæmd sem menn þekkja. Þeir töldu það vel gerlegt en það gæti þó dregið lokaúrslit kosninganna um einhverja klukkutíma. Ekki tókst að ná samkomulagi um það í nefndinni að hafa þetta fyrirkomulag við talningu. Ég tel það fyrirslátt þeirra sem ekki vilja neinar breytingar hversu smáar sem þær eru. Ég styð frumvarpið að öðru leyti.