Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 13:52:07 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í þeirri þingsályktunartillögu sem ég flutti og hef flutt í tvígang er gert ráð fyrir því að 4% af kvótanum verði afskrifuð árlega hjá útgerðinni og flutt yfir til þjóðarinnar. Aflaheimildir yrðu seldar þrjú ár fram í tímann, sem mundi þýða það að fyrsta árið kæmu 4%, 8% og 12% til úthlutunar, að sjálfsögðu gætu menn ekki ráðstafað þeim fyrr en eftir þrjú ár en ég geri ráð fyrir því að margar útgerðir vilji kaupa kvóta fram í tímann og þetta var hugsað þannig. Þetta var hugsað sem umræðugrundvöllur þar sem menn gætu rætt við útgerðina um það hvað henni þætti bærilegt. Eins og ég gat um áðan finnast mér 3% eða jafnvel 2% á ári alveg ásættanleg vegna þess að 50 ár eru langur tími í ævi einstaklinga og fyrirtækja, mjög langur tími, og mönnum þykir ekkert mikið að afskrifa 2% á ári t.d. ef við tækjum 50 ár í þetta. En í lífi þjóðar og þegar unnið er að því að ná sátt um eignarhald á kvótanum til framtíðar er vel þess virði að taka í það 50 ár, eða 30 ár. Þetta er eitthvað sem mér finnst að menn ættu að ræða og fyrir útgerðina mundi ég segja, eins og ég gat um áðan, að eignarhald á því sem eftir er, þ.e. því sem þeir halda eftir, yrði algjörlega laust við allar kvaðir og bönd til að gera það verðmeira. Þá næðist fram eins mikil hagræðing í sjávarútvegi og mögulegt er, því framsalið yrði algjörlega frjálst og eins og ég gat um áðan er sérhver takmörkun á framsali ekkert annað en skerðing á hagkvæmni.