Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 13:56:08 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að gagnvart útgerðinni er ekki stór munur á hugmyndum mínum og þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin hefur væntanlega tekið upp eftir mér, sem er mér ákveðinn heiður. Einn reginmunur er þó á, framboð á veiðiheimildum eftir á. Því ef ríkisvaldið, þ.e. einn aðili, situr við borðið, sérstaklega ef það þarf að kaupa sér atkvæði og vera vinsælt, þá getur það úthlutað heimildunum í alls konar leikaraskap, sem ég kalla svo, eins og þessar frjálsu strandveiðar sem innleiddar voru síðastliðið haust, en þar var tekið frá hinum og gert eitthvað sem var vinsælt. Þá myndast ekki markaður með kvótann í sama mæli og í minni hugmynd þar sem hver einstaklingur yrði að reyna að selja kvótann sinn og þeir sem vildu ekki kvótakerfið, elskuðu þorskinn, gætu bara hent sínum kvóta og látið þorskinn óveiddan. En flestir mundu reyna að selja og 180 til 190 þúsund seljendur mundu mynda markað sem útgerðarmenn stæðu andspænis. Ég hugsa að kvótaverð mundi lækka umtalsvert bara strax á fyrsta degi, alla vega fyrstu tvö, þrjú árin. Það gerir útgerðinni léttara að vinna eftir að hún hefur misst kvótann, að verð á veiðiheimildunum — í minni hugmynd er bara um að ræða veiðiheimildir — mundi lækka og að við byggjum ekki við það kerfi sem yrði þegar búið væri að ríkisvæða þetta, að menn úthlutuðu heimildunum til einhverra allt annarra, eins og hér er gert ráð fyrir að gera með skötuselinn. Það er nefnilega hættan. Menn ætla núna að gefa hverjum manni 180 kr. á kíló í skötuselnum sem hann fær, það er hættan.