Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 14:22:50 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:22]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég reyndi að rekja í ræðu minni er það einfaldlega þannig að ef útgerðin er skylduð til þess að veiða makríl í manneldi getur það leitt til óhagkvæmni vegna þess að þeir eru á öðrum veiðum, t.d. síldveiðum eins og ég talaði um áðan. Í öðru lagi getur verið hagkvæmt eftir að fituinnihald í makríl er orðið visst mikið að nota hann frekar í bræðslu.

Ég benti líka á lausn til þess að ná fram nákvæmlega þeim markmiðum sem þingmaðurinn talar um. Ég talaði meira að segja um að það væri hægt að auka aflaverðmæti í makrílveiðum og -vinnslu um allt að sex til átta milljarða með því að innleiða eða réttara sagt með því að útrýma ólympísku veiðunum í makríl, að setja makrílinn inn í kvótakerfi. Það er óumdeilt. Ég vil benda þingmanninum á að kynna sér hugmyndir útgerðarmanna um að hægt sé að auka aflaverðmæti með því að setja það inn í kvóta. En það er algerlega ljóst að ef stóra samhengið er skoðað og skip er skyldað til þess að vera með makríl í manneldi getur vel verið að meiri verðmæti fari forgörðum á öðrum stað vegna þess að þá þarf að keppast við að fara í makrílveiðarnar út af ólympísku eðli makrílveiðanna. Þetta ákvæði í frumvarpinu er því vanhugsað en lausnin er fyrir hendi og henni hefur verið veifað framan í hæstv. sjávarútvegsráðherra en hann hefur því miður ekki séð það sem er veifað framan í hann, eða ekki viljað sjá það. (Forseti hringir.) Svoleiðis liggur það.