Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 14:33:07 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:33]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að ég er bundin af sannfæringu minni samkvæmt stjórnarskrá og ég læt ekki hv. þm. Atla Gíslason né nokkurn annan þingmann hér á þingi ritskoða ræður mínar. Ég fjalla hér um þau atriði sem mér brenna á hjarta. Ég sé í umræddu frumvarpi ákveðnar vísbendingar um það á hvaða vegferð ríkisstjórnarflokkarnir eru. Ég kýs að tjá mig um það og ég geri það. Mér er fullkomlega sjálfrátt varðandi það um hvað ég er að fjalla og ég þarf ekki hjálp hv. þm. Atla Gíslasonar til þess að ákveða efnistök mín í þessu máli.

Sjávarútvegur er grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar. Sjávarútvegur er gríðarlega mikilvægur í mínu kjördæmi, sem er Suðurkjördæmi, sem hv. þm. Atli Gíslason er jafnframt þingmaður fyrir. Ég tel að það væri nær að við reyndum að styðja þá grundvallaratvinnugrein sem er hér í landinu, og er ekki síst öflug í kjördæmi okkar. Við getum rætt það með hvaða hætti við eigum að gera það en við gerum það ekki með þessu frumvarpi.

Varðandi skötuselinn svaraði hv. þingmaður ekki þeirri spurningu sem ég beindi til hv. þingmanna Vinstri grænna um það hvernig þingmaðurinn samræmir þetta frumvarp, þetta ákvæði, þeirri skoðun Vinstri grænna, sem hefur verið útmáluð hér á torgum, bæði fyrir kosningar og í ræðu og riti hvarvetna, að þetta sé náttúruverndarflokkur.

Hér er verið að leggja til stóraukna veiði á umræddri tegund og ég hef áhyggjur af því að hér sé of langt seilst. Er það lausnin á efnahagsvanda þjóðarinnar að taka upp stöðugar ofveiðar á þeim tegundum sem veiðast hér við land? Er það leið ríkisstjórnarflokkanna? Ég spyr og ég vil fá svör við þessu. Ég vil sérstaklega fá svör við því hvernig þetta frumvarp, eða þetta ákvæði varðandi skötuselinn, samræmist stefnu Vinstri grænna. Eða er náttúruverndin og virðingin fyrir þeim dýrum sem lifa við landið líka farin út um gluggann í stefnuskrá Vinstri grænna (Forseti hringir.) eins og andstaðan gegn ESB?