Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 14:37:30 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins varðandi skötuselinn til að byrja með. Það kemur fram í nefndaráliti minni hlutans, þar sem sitja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem skrifa undir, að þetta ákvæði gerir ráð fyrir því að aflaheimildir í skötusel verði auknar um 80% umfram ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar. Það er augljóst, miðað við ráðgjöf þeirrar ágætu stofnunar, að þarna er verið að seilast langt umfram það sem getur verið æskilegt fyrir þennan stofn. Það er því ekkert skrýtið að mér sé tiltölulega mikið niðri fyrir yfir því að Vinstri grænir skuli leggja í að leggja þetta frumvarp fram með þessum hætti hér í þinginu.

Varðandi það að ég sé komin hér í einhverja Icesave-takta, ég einfaldlega skil ekki þann málflutning. Ég óska eftir því, frú forseti, að við reynum að temja okkur það háttalag hér í þingsölum að vera svolítið málefnaleg. Ég hélt nú að hv. þm. Atli Gíslason væri í þeim hópi, að hann væri frekar á þeirri hliðinni en hinum megin. Ég skil ekki, frú forseti, að hv. þingmaður leyfi sér það að koma hér upp, ásaka mig, þingmann Suðurkjördæmis, þar sem sjávarútvegur er ein mikilvægasta undirstöðuatvinnugreinin, um það að standa hér í málþófi þótt ég leyfi mér að halda 10 mínútna ræðu í þessu máli. Ég einfaldlega skil ekki þennan málflutning, frú forseti. Ég óska einfaldlega eftir því að hv. þm. Atli Gíslason biðji mig afsökunar hér á göngunum vegna þess að ég tel að ræða mín hafi átt fullt erindi inn í þessa umræðu.

Frú forseti. Þrátt fyrir að hv. þingmaður segist ekki hafa ætlað að vera hér með neina tilburði í átt til ritskoðunar hafi það engu að síður verið tilgangurinn með þessu andsvari. Ég frábið mér slíkan málflutning. Ég óska frekar eftir því að við tölum hér saman á grundvelli raka og með málefnalegum hætti.