Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 14:41:49 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:41]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Atli Gíslason brá sér í hlutverk prófdómara en það gerðist óvænt að prófdómari féll á prófinu. Ræðurnar sem hér hafa verið fluttar í dag og á þriðjudaginn hafa verið mjög málefnalegar. Ég hef verið ósammála sumum þessum ræðum í grundvallaratriðum en mér hefur hins vegar fundist að þingmenn hafi reynt að tala málefnalega og margir af mjög góðri þekkingu.

Ég hef marga fjöruna sopið í sjávarútvegsumræðunni í þessum sal. Oft var það nú þannig að þegar stjórnarandstaðan var forðum daga að ræða um sjávarútvegsmálin, að gefnu tilefni, vegna einhvers frumvarps, að ekki voru nefnd einu orði efnisatriðin í því frumvarpi. Það fannst mér ekki til neinnar fyrirmyndar. Þetta fór fram sem einhvers konar pólítísk kappræða um sjávarútvegsmál. Það á alveg rétt á sér. Þetta frumvarp er hins vegar þannig að það er auðvelt að fjalla um það efnislega en það gefur hins vegar líka tilefni til almennrar umræðu um sjávarútvegsmál vegna þess að það snertir marga grundvallarþætti.

Ég frábið mér (Forseti hringir.) prófdóma hv. þm. Atla Gíslasonar. Ég held að við ættum bara að halda áfram þessari efnislegu og góðu umræðu þar sem við getum (Forseti hringir.) bent á hinar miklu veilur í þessu frumvarpi.