Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 14:53:54 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágætt málefnalegt innlegg í þessa umræðu. Þau atriði sem hv. þingmaður minntist á og hefur minnst á áður og við höfum skipst á skoðunum um eru sú skipting á karfanum sem hér er lögð til og hvernig jafna megi möguleika útgerða til að sækja karfann í þessu breytta umhverfi. Ég hef sagt það og segi hér aftur að ég hef samúð með sjónarmiðum hv. þingmanns. Sameining þessara stofna var jú gerð að tillögu starfshóps sem taldi ekki annað fært en jafnframt er ljóst að sóknarmöguleikar eða veiðimöguleikar skipa eftir stærð og búnaði eru mismunandi og nauðsynlegt að taka tillit til þeirra. Ég legg því til, eins og við höfum rætt, að þessi atriði verði skoðuð frekar í nefnd og að einnig verði kannað hvað verði þá hægt að færa inn til heimildar ráðherra til að koma til móts við þessi sjónarmið í stýringu veiðanna, ég vil bara ítreka það og ábendingar hv. þingmanns í þessum efnum eru hárréttar að mínu mati.

Hvað varðar skötuselinn þá vil ég taka undir það viðhorf sem hv. þingmaður kom inn á að þetta er ekki skötuselurinn fyrir sunnan land sem er að synda norður, heldur er stofninn að stækka og vaxa á nýjum miðum (Forseti hringir.) fyrir vestan og norðan land og á því þarf að taka með (Forseti hringir.) viðeigandi hætti.