Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 14:58:20 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi karfann þá eru sömu álitaefni uppi og þegar við fjölluðum um frumvarp um strandveiðar í vor. Það er snúið að finna leið til þess að koma til móts við þau sjónarmið. Þá ræddi hv. sjávarútvegsnefnd um sömu álitaefnin þannig að ég tek undir að þetta verði skoðað. Þetta hefur verið skoðað í nefndinni og varaformaður sjávarútvegsnefndar, sem leiddi starfið í nefndinni nú fyrir jól, hafði einmitt gert mér grein fyrir þessu og að ástæða væri til að óska eftir því að við skoðuðum þetta nánar. Ég treysti nefndinni til þess og heiti fullu samráði hvað það varðar ef ég og ráðuneytið getum orðið að liði í þeim efnum. Vinnan í nefndinni hefur að mínu mati verið bæði mjög vönduð og góð en það er í þessum efnum sem mörgum öðrum að þar eru ýmis álitaefni sem getur verið vandi að vita hver er besta lausnin á, en það er alveg klárt að í þessum efnum sem öðrum er góður vilji fyrir hendi. Ég treysti nefndinni til að skoða þetta og geri ráð fyrir að þetta fari inn á milli 2. og 3. umr. og verði skoðað, eins og hv. þingmaður hefur bent ágætlega á.

Um önnur atriði sem hv. þingmaður kom inn á, þá er gerð ítarleg grein fyrir veiðum á skötusel í nefndarálitinu og ég ætla ekki að fara frekar inn í þá umræðu hér en finnst ágætt að heyra hvernig hv. þingmaður nálgast (Forseti hringir.) málið sem slíkt. Auðvitað er skoðanamunur á einstökum þáttum þess en markmið okkar er það sama að hámarksábati verði (Forseti hringir.) á öllum stofnum og að við sækjum þetta á sjálfbæran hátt o.s.frv. (Forseti hringir.) Við þekkjum þau sjónarmið og eigum vonandi og örugglega samleið í þeim efnum.