Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:02:59 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:02]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég leyfi mér sem gamall kennari og prófdómandi að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir innlegg hans hér. Ég deili áhyggjum hans af djúpkarfanum og gullkarfanum og vil bæta við einu sjónarmiði. Þegar ég og hv. varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Ólína Þorvarðardóttir, fórum á fund í Granda laust fyrir jól, í nóvember held ég, lýstu forsvarsmenn Granda yfir miklum áhyggjum út af markaðsmálum varðandi þessa skiptingu og töldu skiptingu bráðnauðsynlegar. Ástæðan var sú að djúpkarfann, veiddur utan landhelgi, hugsanlega í sjóræningja veiðum, er settur á svartan lista í Þýskalandi. Honum er blandað saman við gullkarfann sem við veiðum innan lands og er undir fiskveiðistjórn, þannig að þeir merkja það í Granda að þeir lendi í erfiðleikum í stórmörkuðum og annars staðar. Það er því brýnt að taka á þessu og það er brýnt að lögfesta þessa skiptingu.

Spurning mín til hv. þingmanns er sú: Hvaða leiðir sér hann bestar til að koma í veg fyrir þá ágalla sem hann benti á með skipin, með getu skipa sem veiða gullkarfa og geta ekki farið í djúpkarfann?

Ég er líka sammála hv. þingmanni að það er hægt að lenda þessu máli skynsamlega, það er ekki slíkur ágreiningur nema þá um skötuselinn, um prinsipp þar, og ég deili þeirri skoðun að það sé hægt að leysa það líka með málamiðlun. Ég lýsi mig reiðubúinn til að ræða það sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar milli 2. og 3. umr. að taka á þeim ágöllum sem bent hefur verið á og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur einnig bent á. Ég lýsi mig reiðubúinn til að ræða það milli 2. og 3. umr. Ég tel það vera komið í púkkið hér í dag sem nægir mér til að fara í þá viðræðu og til að leita lausna í þessu máli.