Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:05:07 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:05]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir það að lýsa því yfir að hann sé sáttfús maður, eins og hann er reyndar yfirleitt alltaf í öllum málum, og vilji leita lausna. Það hefur komið fram og kom fram í máli hans hér að þeir ágallar sem hv. þingmenn hafa bent á hér í umræðunni hafa orðið til þess að hann vill skoða þetta vandlega á milli 2. og 3. umr. til að ná lausn í málinu. Ég fagna því sérstaklega vegna þess að það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem störfum núna á Alþingi að við hugsum í lausnum og séum ekki alltaf að skjóta allt niður sem aðrir segja og höldum að við höfum alltaf ein rétt fyrir okkur, hver sem sú skoðun er. Ég hef alla vega reynt að gera það eftir bestu getu, það getur vel verið að mér hafi oft mistekist að gera það en ég hef reynt að hafa það að markmiði og það verður þá að taka viljann fyrir verkið.

Ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður sagði um skiptinguna, eins og ég kom líka inn á í ræðu minni, að það er mjög mikilvægt að menn geri þetta með þeim hætti að ekki sé verið að ofnýta annan stofninn. Hv. þingmaður kom inn á að það hefði líka markaðsleg áhrif og það sé hætta á því ef menn eru í sjóræningja veiðum að menn verði stimplaðir út. Þetta er alveg hárrétt.

Mín skoðun er sú að ef núna yrði þetta með þeim hætti að allir sem veiða fisk, hvort heldur það er karfi eða eitthvað annað, þurfi að skila svokölluðum afladagbókum og þurfi að gefa upp hvar þeir eru að veiða, hvort þeir eru að veiða í botntroll og þar fram eftir götunum, gæti grunnurinn að sátt legið í þessu fyrir þau skip sem hafa klárlega verið að veiða gullkarfa, eins og þessi minni togskip, að menn geti séð það og rakið það í afladagbókum viðkomandi skips og þá sé hægt að leiðrétta það með þeim hætti, vegna þess að stærri skipin sem veiða í dýpri sjó með flottroll og annað setja þetta hvort sem er inn í frystinguna. Þetta er í raun og veru lausnin sem ég sé í málinu að menn mundu gera þetta með þeim hætti að skoða afladagbækurnar sem segja nákvæmlega hvar menn eru að toga, með hvaða veiðarfærum, hvort menn eru með botntroll eða flottroll, að menn geti gert þetta með þeim hætti. Það er lausnin.