Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:08:45 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara til að ljúka þessari umræðu í sambandi við skiptingu á karfakvótanum þá er það mín skoðun að ef menn fara inn í afladagbækurnar geti menn séð þetta. Ef ég man rétt, nú segir hv. þingmaður að þetta sé til helminga en ef ég man þetta rétt eru það um 30% sem eru í djúpkarfa og um 70% í gullkarfa.

Þar sem hv. þingmaður kemur inn á svokallaðan Hafró-afla og það var einmitt umræða um það í gær, er mín skoðun sú að þessi aðgerð stjórnvalda á sínum tíma hafi virkað mjög vel vegna þess að nú hafa menn heimild til að landa 5% inn í Hafró-afla sem skiptist þá þannig að 80% fara til Hafrannsóknastofnunar og 20% til útgerðarmanna og sjómanna. Það gerir það að verkum eða hefur skilað sér í því að menn eru að landa fiski inn í þennan Hafró-afla og þetta flyst þá miðað við það sem menn eru að veiða. Það er ekki miðað við úthlutaðan afla, þannig að þeir sem veiða mest mega þá landa mest og geta þá gripið til þessara ráðstafana. Í dag er þetta eingöngu miðað við ígildi, þ.e. menn mega veiða kannski 500 tonn af karfa og 500 tonn af ufsa en landa síðan bara annarri tegundinni inn í Hafró-aflann. Menn þurfa að skoða með hvaða hætti hægt er að gera þetta.

Ég tek undir með hv. þm. Atla Gíslasyni að það er mjög skynsamlegt að við skoðum þessa hluti á hverjum tíma, við verðum alltaf að skoða þetta vel. En það sem eftir stendur er þá þetta, og ég er búinn að skoða þetta dálítið á undanförnum vikum, að aflaaukningin inn í Hafró-aflann er út af þorski. Það er mjög sláandi að það hafa bæst við 850 tonn af lönduðum þorski núna á milli kvótaáramótanna, sem segir mér persónulega vegna þess að ég þekki nokkuð vel ástandið á miðunum að við erum með ranga ráðgjöf í þorskinum, þ.e. við erum með ranga ráðgjöf miðað við þá þorskgengd sem er á miðunum. Því er mjög mikilvægt og ég hefði viljað ræða þau tvö frumvörp sem koma hér á eftir — þau komast sennilega ekki að í dag — bæði frumvarp sem ég legg fram um aflaráðgefandi nefnd sjómanna og hins vegar frumvarp um vísindaveiðar sem hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir leggur fram. Ég held að við þurfum að taka umræðuna miklu lengra til þess að átta okkur á stöðu mála.