Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:21:37 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir innlegg í þessa umræðu og þær áherslur sem hann réttilega dregur fram um mikilvægi sjávarútvegsins fyrir atvinnulíf og allt líf í landinu. Ætli það séu ekki yfir 40% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar sem koma um þessar mundir frá útflutningi í sjávarútvegi? Engu að síður þurfum við stöðugt að huga að því hvernig best er hægt að haga málum, bæði hvað varðar sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar, meðferð hennar, þjóðhagslegan ábata af veiðum og vinnslu og svo því hvernig arðurinn skiptist og kemur þjóðinni í heild sem mest til góða. Um það hefur verið rætt hér og deilt hvort við höfum á öllum sviðum verið þar á réttri braut.

Frumvarpið tekur ekki á öllum þeim stóru atriðum heldur ákveðnum leiðréttingaratriðum. Hv. þingmaður minntist á veiðiskylduna og tilfærslu á milli ára. Í því kerfi sem byggst hefur upp í leigukvótakerfinu geta allar slíkar breytingar vissulega haft áhrif. En það er líka mjög ótryggt þannig að erfitt er að finna leiðir til að verja það nema einhver ákveðinn pottur sé bara stöðugt tekinn frá sem sé þá fastur til útleigu, en annars er þetta mjög ótrygg stærð og það er staðreynd. Það má vera nálgun að alltaf sé einhver ákveðinn pottur hugsaður til útleigu.

Hitt er líka mjög mikilvægt að þær veiðiheimildir sem úthlutað er eða það aflamark sem úthlutað er innan veiðiársins sé að meginhluta til veitt innan ársins. (Forseti hringir.) Þess vegna er verið að draga úr þessum takmörkunum á flutningi milli ára, sem voru upphaflega bara tímabundnar af sérástæðum, og færa þær aftur (Forseti hringir.) þannig að það sem heimilt er að veiða verði veitt innan ársins.