Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 04. febrúar 2010, kl. 15:24:09 (0)


138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans ræðu. Þingmaðurinn hvetur til þess að stjórnvöld stígi varlega til jarðar í sjávarútvegsmálum. Ég held að það sé gert. Það er verið að stíga mjög varlega til jarðar.

Mér finnst það ekki algjörlega sanngjarn málflutningur þegar talað er um að ekki eigi að leggja fram frumvörp eða aðhafast neitt í stefnumótandi aðgerðum í sjávarútvegsmálum á meðan viðræðunefnd, sem nú er í gangi með hagsmunaaðilum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna, er að störfum. Ráðuneytið getur ekki fellt niður störf þó að starfshópur sé að verki og mér finnst þetta líka hálfótrúverðugur málflutningur á sama tíma og stærsti hagsmunaaðilinn, sem er LÍÚ, tefur beinlínis fyrir starfi nefndarinnar með því að mæta ekki þar til starfa og vilja ekki taka þátt í starfinu. Þá spyr ég: Hversu trúverðugur er málflutningurinn?

Auðvitað er mikils um vert að nefndin geti lokið starfi sínu og þar sé vel og málefnalega tekið á þeim verkefnum sem bíða en þá verða líka allir að koma að því borði. Það er á ábyrgð hagsmunaaðila ekki síður en stjórnvalda að það gangi vel fyrir sig.

Síðan þetta með hagsmunina sem í húfi eru. Það eru hagsmunir þjóðarinnar að hafa vel rekinn sjávarútveg. Sjávarútvegur er undirstöðuatvinnuvegur í landi okkar og það eru eðlilegir hagsmunir og sameiginlegt markmið okkar allra sem komum að þessari umræðu að hægt sé að tryggja rekstrarskilyrði hans en um leið þarf líka að tryggja sanngjarnar leikreglur. Það sem þessi deila stendur um í „grund og bund“ er að þjóðin, sem eigandi auðlindarinnar, njóti eðlilegs arðs af auðlind sinni. Það sem hv. þingmaður og fleiri kalla (Forseti hringir.) forræðishyggju er spurning um sanngjarnar leikreglur.